Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2023, Blaðsíða 47
1. tbl. 99. árg. 2023 | Tímarit hjúkrunarfræðinga 47
„Við höfðum enga tenginu við staðinn og
þekktum engan þegar við fluttum hingað.
Mér fannst mikill heiður að fá stöðuna en
þetta var án efa stökk beint út í djúpu laugina.“
Ætlaði í doktorsnám en endaði sem
yfirhjúkrunarfræðingur
Það liggur þá beinast við að spyrja Helgu
Margréti hvernig það kom til að hún endaði sem
yfirhjúkrunarfræðingur á Blönduósi, var það hvatvís
skyndiákvörðun eða vandlega íhuguð ákvörðun?
„Ég var mjög heppin, fékk símtal þar sem mér var
sagt að þessi staða á Blönduósi væri laus og var
hvött til að sækja um hana en á þessum tíma var ég
að skrifa masters-ritgerðina. Ég og maðurinn minn
vorum úti að borða saman þegar ég fékk símtalið.
Ég hafði hugsað mér að fara beint í doktorsnám
eftir masters-námið og flutningar á Blönduós voru
ekki alveg á dagskrá hjá okkur hjónunum. Þegar ég
sagði manninum mínum frá þessu spurði hann strax:
„Hvenær förum við?“ Hann hvatti mig til að sækja um
sem ég gerði þetta sama kvöld og ég fékk starfið. Það
má því alveg segja að þetta hafi verið frekar hvatvís
ákvörðun.“
Hún segist ekki hafa vitað hvað hún var að fara út í
þegar hún sótti um stöðuna. „Ég sótti um í nóvember
2021 og í janúar 2022 fluttum við á Blönduós. Við
höfðum enga tenginu við staðinn og þekktum engan
þegar við fluttum hingað. Mér fannst mikill heiður að
fá stöðuna en þetta var án efa stökk beint út í djúpu
laugina. Ég var komin með mannaforráð, rúmlega 80
manns en ég var ekki útskrifuð úr masters-náminu
þegar ég tók við sem yfirhjúkrunarfræðingur hérna,“
útskýrir hún hress í bragði. Örfáum mánuðum seinna
eða á vormánuðum síðasta árs, fagnaði hún útskrift
úr masters-námi í heilbrigðisvísindum með áherslu
á stjórnun í heilbrigðisþjónustu. Helga Margrét hafði
aldrei komið á vinnustaðinn þegar hún mætti fyrsta
daginn. „Það kom mér á óvart hvað allir tóku mér vel
og voru hjálplegir að koma mér inn í starfið. Sú sem
ég tók við af er núna deildarstjóri á heilsugæslunni
hérna. Ég get alltaf leitað til hennar sem er frábært.
Framkvæmdastjórnin býr um allt Norðurland en
ég get alltaf hringt ef mig vantar ráðleggingar eða
aðstoð.“
Heillandi að starfa á fámennum stöðum
Hvernig er þín upplifun af starfinu eftir ár í starfi?
„Ég er mjög ánægð í þessu starfi. Ég er farin að
finna meira öryggi og þarf ekki lengur að spyrja að
öllu. Starfið heldur mér alltaf á tánum og ég veit
aldrei hvað dagurinn ber í skauti sér sem mér finnst
spennandi. Með mér starfar mjög vandað fólk sem
ég kynnist æ betur og ég hlakka alltaf til að mæta í
vinnuna. Ég læri daglega eitthvað nýtt og hér líður
mér eins og ég skipti máli sem er dýrmætt,“ svarar
hún einlæg.
Helga Margrét segir að störf á heilbrigðisstofnunum
á fámennum stöðum höfði meira til sín. „Það heillar
mig að fara á litla staði og vinna því þar öðlast maður
oft breiðari reynslu og lærir svolítið að redda sér. Ég
reyndi til að mynda oftast að taka verknámið mitt á
fámennum stöðum. Eitt sumarið fór ég til að mynda
til Vestmannaeyja og starfaði á Heilsugæslustöðinni
þar sem mér líkaði mjög vel. Ég skil ekki hvers vegna
ungir hjúkrunarfræðingar fara ekki meira út á land að
vinna því að fyrir utan að öðlast mikla reynslu geta
hjúkrunarfræðingar oft fengið húsnæði þegar þeir
ráða sig út á land, þá er bara hægt vinna og spara.“
Manneklan mesta áskorunin
Helga Margrét segir að mönnunarvandi sé á HSN á
Blönduósi. „Það er vöntun á hjúkrunarfræðingum
hér eins og annars staðar og við reynum að hvetja
þá til að koma með því að skaffa húsnæði. Ég get
heilshugar mælt með HSN sem vinnustað og ég tek
fagnandi á móti þeim sem vilja koma hingað að
vinna.“ Þá liggur beint við að spyrja hvort hún sé þá
alltaf á vakt eða bakvakt á Blönduósi? „Nei, ég reyni
Helga Margrét með manni
sínum og börnum.