Heilbrigt líf - 01.12.1949, Blaðsíða 75
hafi tannskoðun fallið niður eða engin skýrsla verið gefin.
Árið 1925 voru 506 börn skoðuð við inntöku í Barnaskóla
Reykjavíkur, og reyndust 93 af hundraði með áberandi
tannskemmdir. Árið 1936 voru skoðuð 12719 börn á öllu
landinu, og eru taldar tannskemmdir hjá 9107, eða 71,6
af hundraði. 1 Reykjavík munu þó aðeins taldar skemmdir
í fullorðinstönnum barna, og yrði því tala barna með
skemmdar tennur enn hærri, ef allt hefði verið tíundað.
Á síðari árum mun þó hafa borið heldur minna á tann-
skemmdum meðal skólabarna í Reykjavík. Júlíus Sigurjóns-
son prófessor telur þó 1943, að ekki sé útlit fyrir, að veru-
legar breytingar hafi orðið á tíðni tannskemmda hér á landi
síðustu 15—20 árin.
Meira virðist hafa borið á tannátu meðal barna í kaup-
túnum heldur en í sveitum, og rannsókn, sem Tannlækna-
félag Islands gerði nýlega, mun benda í sömu átt. Um tann-
átu hér á landi segir Vilmundur Jónsson landlæknir 1938,
að hún sé mjög algeng og það svo, að naumast sjáist maður
með gallalausar tennur, og sé þetta ástand blettur á heil-
brigðismálum vorum. Þykir honum þetta því undarlegra,
þar sem allt annað hafi verið uppi á teningnum á eymdar
og niðurlægingartímum þjóðarinnar.
En hverjar eru þá orsakir til tannátu? Fram á síðustu
ár hefur allt verið mjög á huldu um orsakir til algengasta
kvillans, sem mannskepnuna hrjáir. Nýlega hafa þó birzt
ranrisóknir, sem leysa gátuna að nokkru leyti.
Ekki verður séð, að velmegun, góð húsakynni og almenn-
ur þrifnaður sé nein veruleg vörn gegn tannátu. Tannáta
virðist meira að segja hvað algengust, þar sem velmegun
er almenn, svo sem í Nýja-Englandi og Nýja-Sjálandi, en
frumstæðir þjóðflokkar, svo sem Eskimóar, sem lifa í
hreysum og hirða lítt um þrifnað, hafa gallalitlar tennur.
Loftslag skiptir ekki heldur miklu máli. Tannáta virðist
Heilbrigt líf
73