Goðasteinn - 01.03.1969, Page 25
mun hann hafa legið í þrjú ár. Hann var mjög rólegur í allri slnní
legu, enda var hann guðhrædd og góð sál. Bað hann mig oft að
lesa fyrir sig og þá alltaf guðsorð, annað hvort í Sturmshugvekj-
um eða Passíusálmunum. Hafði hann gert ráð fyrir, að þær bæk-
ur yrðu látnar í kistu hans að honum látnum, og var svo gert.
Fleiri ráðstafanir mun hann hafa gert fyrir útför sinni.
Svo er það eitt fagurt vorkvöld (það mun hafa verið vorið 1901),
um fjósgjafir, að Guðrún Jónsdóttir vinnukona á Brekkum ætlaði
að fara að gefa í fjósið, ég var að bera að henni laupana, en Sig-
urður húsbóndi okkar var í hlöðu að taka til heyið. Heyrum við
þá brest mikinn frá fjósinu. Guðrún kemur hlaupandi út úr fjós-
inu og segir: ,,Ef til er vábrestur, þá var hann þetta.“ Þess má
geta, að Guðrún hafði mjög sljóa heyrn.
Nýbúið var að setja kartöflur til spírunar í fjósinu, þannig, að
borð höfðu verið negld þvert á stoðirnar, þakplötur lagðar þar á
ofan og kartöflunum raðað á þær. Töldum við nú víst, að þessi
umbúnaður hefði bilað og kartöflurnar lægju í flórnum. En allt
var með kyrrum kjörum.
Degi síðar, 14. júní, dó Guðmundur gamli Runólfsson, og voru
borðin undan kartöflunum notuð í kistu hans. Kom þar fram vá-
bresturinn, er við heyrðum.
Annað atvik bar við á meðan Guðmundur lá á börunum. Á
Brekkum hafði verið alinn kálfur um veturinn. Hann var í miklu
afhaldi hjá Guðrúnu fjósakonu. Hafði hún þá venju að færa honum
einhverja hressingu um miðjan daginn. Kálfurinn var gullfallegur
og stálhraustur. En næsta dag, er Guðrún kemur í fjósið til að
gefa kálfinum miðdagsdrukkinn, liggur hann steindauður á básn-
um, með hausinn aftur með síðunni, rétt eins og hann hefði dáið
í svefni. Kjötið af litla kusa bar engin merki sóttar og var auðvitað
haít í erfi Guðmundar.
Næturgisting í Krýsuvik
Halldór Teitsson fór ungur til sjóróðra eins og siður var á þeirri
tíð. Veturinn 1909 reri hann í Grindavík. Lagði hann upp í ver-
Goðasteinn
23