Goðasteinn - 01.03.1970, Page 18
við kirkjuhornið. Ólöfu brá mjög, og leið yfir hana, þegar hún
kom inn. Benedikt dó þetta kvöld og var nýskilinn við, er
Margrét varð vör við komu hans.
MELTEKJAN
Frá fornu fari var melkorn notað til matar í Háfshverfi og hélzt
svo fram á mína daga. Mellandið var fyrir framan Háfsósa, fram
á Sléttum. Bændurnir í Háfshverfi unnu saman að melskurði, og
farið var eftir jarðastærð með skipti á mel, líkt og með skipti á
sel og fjöru. Ég hlakkaði alltaf til, þegar farið var að skera
stöngina. Þar vann margt ungt fólk saman, og var oft glatt á
hjalla við verkið. Við systurnar vorum ekki gamlar, þegar við
vorum látnar fara að hjálpa til við melskurðinn. Skorið var með
sérstökum ljá, sem nefndur var sigð. Hún var með góðlega
álnarlöngu skafti. Sjálfur ljárinn (sigðin) var fimm til sex tommur
að lengd, íboginn. Hver maður notaði sína sigð ár eftir ár. Hannes
skar fangamörkin á sköftin. Fyrst, þegar ég var að þessu verki,
var ég látin skera í hendurnar á fullorðna fólkinu.
Við skurðinn var tekið um stöngina, neðan við axið, og hún
skorin rétt niður við jörð. Fullorðinn maður skar stöngina upp í
vinstri hönd, svo mikið, sem greipin rúmaði. Það magn var nefnt
hálfhönd. Hún var lögð frá sér á sandinn. Önnur hálfhönd var
krosslögð þar ofan á. Báðar nefndust þær heilhönd eða ein hönd.
Mig minnir, að tíu heilhendur hafi myndað kerfi. Bundið var
utan um kerfi með melstöngum á sérstakan hátt. Fimm kerfi
voru í bagga.
Melnum var skipt á milli bændanna, áður en flutt var heim,
fram á Sléttum. Hann var settur í bunka þar fram frá og fluttur
heim eftir ástæðum. Það var leiðindahökt við að flytja heim stöng-
ina, upp yfir Ósana. Henni var bunkað heima við stórt hesthús,
sem nefnt var sofnhús um þennan árstíma, annars stóra hesthúsið.
Verkið við að ná öxunum af stönginni var nefnt að dusta
stöngina. Öxunum var þá barið í dálítið svert tré, sem haft var
lárétt í nokkurri hæð, og hrukku öxin niður frá því í byng, sem
smáóx. Undir aldamótin síðustu var mest farið að nota melkornið
handa reiðhestunum og sandhestunum; þeir urðu svo dólegir af
16
Goðasteinn