Goðasteinn - 01.09.2013, Page 7
5
Nú er komið að því að fylgja fertugasta og níunda ár-
gangi Goðasteins úr hlaði. Í þessu tölublaði hafa nú sem
áður margir lagt hönd á plóginn. Vissulega skiptir það
máli að saga okkar sé fest á blað, hvort sem um er að ræða
atburði líðandi stundar eða liðinna tíma; sagnir, búskap-
arhætti, afkomu fólks, félagsskap, skemmtanir fyrr og nú,
tómstundir eða almenna sögu.
listamaður ársins er Hekla Björk Guðmundsdóttir,
kennaradóttir frá laugalandi í Holtum. Farið er í heimsókn til Ásgeirs Auðuns-
sonar frá Minni-Völlum sem fléttar tauma, gjarðir og fleiri muni úr hrosshári og
ull og hefur þannig lagt sitt af mörkum til viðhalds aldagamals íslensks hand-
verks, auk þess sem hann segir frá síðustu fráfærum á Rangárvöllum. Sólveig
Stolzenwald ljósmyndari tók myndir af Ásgeiri og munum eftir hann.
Aldnir Rangæingar rifja upp liðna tíð og einn segir frá samskiptum sínum
við draug. Lýsing á erfiðri ferð frá Landeyjum til Vestmannaeyja rétt fyrir jól, á
fyrri hluta síðustu aldar birtist hér, en þá voru aldeilis aðrir tímar en nú og ólíkt
erfiðara að komast til eyjanna góðu.
Þórður í Skógum á að vanda talsvert af efni um rannsóknir sínar. Hér skal
einnig minnst á grein Sigurðar Sigurðarsonar dýralæknis frá Keldum á Rang-
árvöllum, um kvæðamennsku sem gengið hefur í endurnýjun lífdaga. Í ritinu
birtast niðurstöður fornleifafræðinga um eyðingu byggðar vegna eldgosa og
önnur grein er rituð um hjáleigur og höfuðból. Grein er hér um kvæðakonuna
Helgu Pálsdóttur á Grjótá. Þess er minnst að 90 ár eru liðin frá því að fyr-
irhleðslan við djúpós var gerð, og birtar einstæðar myndir í eigu Vegagerð-
arinnar frá þeirri framkvæmd. Ragnar Böðvarsson fræðimaður frá Bolholti á
kvæðið Andvaka, sem birtist hér.
Að svo mæltu óska ég lesendum góðra stunda við lestur Goðasteins!
Fylgt úr hlaði
Jón Þórðarson, formaður ritnefndar Goðasteins