Goðasteinn - 01.09.2013, Side 34
32
Goðasteinn 2013
Á löngu tímabili í sögu félagsins var það fastur liður í starfi þess, að æfa eitt
leikrit til sýningar, fyrri hluta vetrar. Þá var gjarnan legið við á Heimalandi í
tvær vikur við æfingar. Venjulega sváfu leikararnir í flatsæng á gólfinu í bað-
stofunni, en hún var í risinu yfir veitingasalnum.
Á kvöldin var stundum sitthvað sér til gamans gert. Einu sinni var reynt að
tala við manninn, sem álitið var að væri í húsinu. En næstum því enginn hafði
séð hann, og fáir vildu gista hjá honum einir. Það var því reynt að tala við hann
með andaglasi. Ekki vantaði kraftinn í glasið, það tók kraftmiklar rokur, fram
og aftur um borðið. Okkur þótti því líklegt að hann vildi tala við okkur. Við
spurðum hann, hvort honum fyndist ekki verra, að við skyldum vera þarna í
húsinu. Hann svaraði því svo, að það gerði sér ekkert til, við værum ekkert
fyrir sér. Eftir því hefur hann sennilega ekki sofið í baðstofunni, nema að hon-
um hafi bara fundist tilbreyting í að sofa þar hjá okkur. Við spurðum hann líka
hvað hann héti og hvaðan hann væri og fengum strax greið svör við því. Hann
nefndi nafn sitt og bæjarnafn, en hvorugt fer hér á prent. En hann sagði að
bærinn væri í Norður-Ísafjarðarsýslu. Ekkert okkar kannaðist við að hafa heyrt
þann bæ nefndan. En seinna var mér sagt, að ekki væri ólíklegt að hann væri
þarna að vestan, því hann hafi líklega komið að Heimalandi með ísfirskum
manni, sem vann þar við múrvinnu, þegar fyrri hluti hússins að Heimalandi
var byggður, en orðið eftir þegar hann fór.
Svo var það, að ég kom á nokkuð marga bæi í Norður-Ísafjarðarsýslu, fáum
árum seinna, þegar ég var þar í fjárkaupaferð vegna fjárskipta, að ég gisti á
bæ með því sama nafni og sá bær, sem hinn framliðni, hafði nefnt sem sinn
heimabæ. En þá vildi svo undarlega til að ég mundi alls ekki eftir þessu samtali
í andaglasinu á Heimalandi og þó gisti ég bæði haustið 1953 og haustið 1954 á
þessum sama bæ. tvær nætur í hvort sinn. Þetta fannst mér mjög einkennilegt,
að ég skyldi ekki muna eftir að spyrja um manninn. En eftir öðrum leiðum
fréttist, að maður með þessu nafni, hafi verið til á bæ sem hét þessu nafni, sem
hann hafði nefnt.
Á því tímabili sem ég starfaði mest í umf. trausta, fannst mér leikstarfið,
einn af merkari þáttunum í starfi þess. Hér var talsvert af ungu fólki sem hafði
góða leikhæfileika. Að vísu fluttist það burt úr sveitinni smátt og smátt og
þannig misstum við marga leikara, eftir að þeir höfðu leikið nokkrum sinnum
og stundum aðeins einu sinni, en þarna kom alltaf maður í manns stað.
Á þessum tíma höfðum við ekki möguleika á, að hafa aðfengna leikstjóra
eða leiðbeinendur. leikararnir urðu því að segja hver öðrum til og þá sér-
staklega, að þeir sem voru eitthvað vanir sögðu þeim til, sem voru að byrja.
Aðsókn að leiksýningunum á Heimalandi var yfirleitt góð á þessum árum.