Goðasteinn - 01.09.2013, Síða 118
116
Goðasteinn 2013
Kvæðalögin nótusett
Heimildir vantar um það, hvernig kveðið var til forna og hvernig kveðskap-
urinn þróaðist öld eftir öld. Stemmurnar breyttust nokkuð í tímans rás, áður
en farið var að festa tónana niður með nótusetningu og hljóðritun. Það sést,
ef bornar eru saman stemmur frá mismunandi landshlutum, að ekki fóru allir
eins með sömu stemmuna. Þetta kom í ljós, þegar kvæðamannafélög höfðu ver-
ið stofnuð og menn fóru að stunda samkveðskap. Þá fundu menn að meta þurfti
kvæðalagaflutninginn, skera úr, hvað væri rétt og dæma um hæfni manna til
að koma fram og flytja kvæðalögin í nafni félagsins. Menn lærðu kvæðalögin
hver af öðrum. Það var ekki von, að menn myndu þau nákvæmlega. Kannski
breyttu sumir stemmunum lítillega eftir eigin smekk. Þannig hafa líklega orðið
til mismunandi afbrigði af sömu stemmunni. Á árunum milli 1840 og 1850
safnaði Pétur Guðjónsson organleikari við dómkirkjuna í Reykjavík þjóðlög-
um og rímnalögum fyrir danska tónskáldið Andreas Peter Berggreen, en þau
rímnalög voru aldrei gefin út svo vitað sé. Nótur af kvæðalögum eða rímna-
lögum voru fyrst prentaðar í riti Ólafs davíðssonar ,,Íslenskar gátur skemtanir,
vikivakar og þulur” sem kom út í Kaupmannahöfn á árunum 1888-1892. Í því
riti eru 15 rímnastemmur, sem séra Árni Beinteinn Gíslason skráði. Séra Bjarni
Þorsteinsson frá Mel á Hraunhreppi, sem kenndur hefur verið við Siglufjörð
var mikilvirkur við söfnun þjóðlaga og rímnalaga. Í riti hans, Íslensk þjóðlög,
sem kom út í Kaupmannahöfn á árunum 1906-1909 er að finna nótusettar 250
stemmur, sem skráðar voru eftir kvæðamönnum við lok 19. aldar.
Hljóðritun
Þegar tækni til hljóðritunar kom til sögunnar, var hægt að varðveita óbreytt
lög og texta, og flutningsmáta, sem gat verið mjög breytilegur milli flytj-
enda. Fyrst var hljóðritað á svokallaða vaxhólka, síðan á hljómplötur, næst
á stálþráð, þá á segulband og loks á geisladiska. Þar erum við nú. tæki til
hljóðritunar voru fyrst fengin til landsins nálægt aldamótunum 1900 og elstu
hljóðrit, sem varðveitt hafa verið, voru gerð árið 1903 á hólka úr vaxkenndu
efni, svipaðrar gerðar og Edison fann upp og notaði. Jón Pálsson bankafé-
hirðir frá Eyrarbakka, föðurbróðir Páls Ísólfssonar organista við dómkirkj-
una í Reykjavík var brautryðjandi á þessu sviði. Vaxhólkar hans með upptök-
um af rímnalögum og margvíslegu fleira efni frá 1903-1912 eru varðveittir á
Þjóðminjasafni Íslands. Í Stofnun Árna Magnússonar eru varðveitt fleiri söfn
gamalla hljóðritana. Rímnalagasafn kennt við Jónbjörn Gíslason, sem ættaður
var úr Húnavatnssýslu, á sér þá merkilegu sögu að hafa verið flutt til Vest-