Goðasteinn - 01.09.2013, Page 128
126
Goðasteinn 2013
það stafa af því að ég hafði sjálfur tekið þátt í endurreisn og stækkun þessara
húsa 1954 og aftur, þá í eigin búskap 1981.
Eða var þetta fyrirboði einhvers annars? Má vera. Ég sló þessu frá mér, hóf
verkið á hlöðuþakinu og sóttist vel enda þakið nær hálfrar aldar gamalt. Svo
var það á öðrum degi þegar ég var að klifra í hlöðuþakinu og sá hvað það var
orðið mikið brak að mér kom í hug að það væri alls ekki áhættulaust að fást við
þetta og væri því réttast að taka tímabundna slysatryggingu, sem gæfi manni
rétt á einhverjum bótum þegar maður væri búinn að slasa sig. Betra væri að
eiga kost á tryggingu sem kæmi í veg fyrir slys. Já auðvitað ekki málið, bara
heita á Hagakirkju.
Sem ég er staddur uppi á hlöðuþakinu sendi ég svohljóðandi hugskeyti til
Hagakirkju.
,,Ef ég slepp óslasaður frá þessu verki heiti ég því að gefa kirkjunni ákveðna
peningaupphæð.” Semsagt, tryggingin frágengin á svipstundu og ég réð öllum
skilmálum. Ákaflega þægilegt fjarskiftaform eða hugskeytaflutningur. Það er
ekki að orðlengja það að báðir aðilar stóðu við sitt. Ég fékk ekki svo mikið sem
skrámu á fingur við allt verkið og kirkjan fékk sínar krónur að verki loknu.
Að sex dögum liðnum er hlöðuþakið fallið. Þá gerist það nóttina þar á eftir
að mig dreymir að ég sé staddur við fjárhúsin og upp úr gólfinu í einni krónni
komi einhver óvinveittur kraftur. Ég verð ekki annars var þessa nótt en mundi
drauminn vel um morguninn og fór að velta fyrir mér hvað þetta gæti verið.
Komst helst að þeirri niðurstöðu að ef reimleikar væru til, væru þeir svona, því
mér var verulega brugðið og leið hálf illa. treysti mér ekki að koma að þessu
verki að óbreyttu ástandi.
Ég sagði Margréti konu minni drauminn við morgunverðarborðið. Hún er
nú ekki sérlega trúuð á svona lagað en rengdi samt ekki frásögn mína enda
ekki vön ósannsögli af mér. Auk þess leyndi sér ekki að mér leið illa. Hún segir
strax. ,,Ég hef samband við Elínu (hún er kona Kristins sonar okkar) og bið
hana að hringja í föður sinn Guðjón Hafstein Guðbjörnsson.” En hann starfar
talsvert sem miðill og fæst aðallega við svona fyrirbrigði, sem hann kallar ,,að
ná sáttum milli heima”. Hún hringir óðara, greinir honum frá málavöxtum og
biður hann liðsinnis í þessu máli. „Já alveg sjálfsagt“ segir hann. „Ég sendi
mína menn.“ Að þrem tímum liðnum hringir hann í Elínu er þá búinn að fá
vitneskju um þetta fyrirbræri frá sínum sendiboðum. Segist hann sjá þarna
mann í skinnklæðum girtan snæri að handfjatla reipi í heystæðu og fékk hann
(miðillinn) gríðarmikinn verk í vinstri úlnlið, slíkt hefur aldrei hent hann áður.
En hann álítur að það stafi af því að þessi náungi hafi framið sjálfsmorð með
því að skera sig á púls.