Goðasteinn - 01.09.2013, Page 177
175
Goðasteinn 2013
margir fagurlega skreyttir munir sem hún hefur gefið ættingjum og vinum á
umliðnum árum.
Hún var ættmóðir í þess orðs bestu og fyllstu merkingu, bar umhyggju fyr-
ir stórfjölskyldunni og naut þess að eiga stóran ættarboga að og var ótrúlega
minnug á afmælis- og aðra minningardaga allra sem stóðu henni nærri. Sam-
hugur ingibjargar með vinum sínum og samferðafólki og styrkurinn sem hún
veitti þeim, setti mikinn svip á hennar sterku persónu. Sjálf reis hún ævinlega
upp úr þeim erfiðu raunum sem lífið bauð henni að takast á við.
ingibjörg var félagslynd og átti auðvelt með að deila geði við annað fólk og
eignaðist því fjölda vina og var ómetanlegur liðsauki þar sem hún skipaði sér
í sveit. Hún elskaði tónlist, og söngur og ljóð skipuðu veigamikinn sess í lífi
hennar. Hún hafði fagra söngrödd og söng, eins og áður sagði, um árabil með
kirkjukórnum í Fljótshlíð. Og eins söng hún með kór eldri borgara, Hringnum.
Hún tók virkan þátt í starfi kvenfélagsins í Fljótshlíðinni sem og á Hvolsvelli
eftir að þau hjón fluttu þangað. Og þau hjón tóku virkan þátt í starfi eldri borg-
ara þar sem hún var m.a. í stjórn, sem og í Rótarý klúbbnum þar sem Sváfnir
var um tíma umdæmisstjóri og fylgdu því ferðalög bæði til Ameríku og Evrópu
og heimsóknir hringinn í kringum landið. Á þessum stundum geislaði lífsgleðin
af þessari félagslyndu konu.
Hún var og verður ætíð þeim sem hana þekktu minnisstæð. Hún var kona,
sem hvarvetna skipaði sitt sæti með sæmd, höfðingleg, glæsileg, frændrækin
með afbrigðum og vinaföst.
En þessi lífsglaða kona hlaut þau örlög að taka glímuna við þann vágest er
allt of fáum eirir. Hún tókst á við veikindi sín af aðdáunarverðu jafnaðargeði og
yfirvegun. Í veikindum hennar stóð fjölskyldan saman og Sváfnir vék ekki frá
henni á sjúkrabeði. Hún andaðist á krabbameinsdeild landspítalans í Reykja-
vík, þann 4. apríl 2012. Útför hennar fór fram frá Breiðabólstaðarkirkju 14.
apríl og jarðsett í Fossvogskirkjugarði.
Sr. Halldóra J. Þorvarðardóttir