Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1933, Qupperneq 112
112
virðist ekki hafa gerst fyr en seint á öldum. Stífla er aldrei nefnd í
fornritunum, nema á þeim stöðum í Landnámu og Grettissögu, sem
til var vitnað að framan, og þar er orðið, eins og áður er sýnt, nafn
á hólunum en ekki á dalnum. Nafnið mun heldur ekki koma fyrir í
öðrum heimildum, sem eldri eru en siðaskiptin. Margar af jörðunum
í dalnum eru nefndar í bréfum fyrir siðaskipti, en aldrei er nein
þeirra sögð vera í Stíflu, heldur annaðhvort í Fljótum, eða í Eystrum
Fljótum, eða i Knappstaðasókn. Nafnið Stífla hefi ég hvergi séð í
bréfum fyr en í bréfi frá 1563. Þar er talað um jarðirnar Lund og
Þrasastaði, »liggjandi báðar fyrir framan Stíflu í Fljótum*.1) Þá er
Stífla því enn eins og í fornöld aðeins heiti á hólunum, en ekki á
dalnum, því Lundur og Þrasastaðir eru báðir í dalnum fyrir ofan
hólana, þ. e. í Stíflu, sem nú heitir. í jarðabók Árna Magnússonar
og Páls Vídalíns, (1709), þar sem annars byggðanöfn venjulega sýnast
vera tilgreind, er Stífla ekki nefnd, sem sérstök byggð með því nafni,
en hinsvegar hefir dalurinn verið búinn að fá Stíflu-nafnið eptir miðja
18. öld, því Ólafur Ólafsson talar um Knappstaðasókn »eller, som
det med et andet Navn kaldes, Stiflen«.2) Að svo stöddu verður ekki
um það sagt, hvenær nafn hólanna hefir færst yfir á dalinn, en í
manntalinu frá 1703 er upplýsingu að finna, sem ef til vill skýrir það,
hvernig á nafnbreytingu þessari stóð.
Samkvæmt Grágás mátti skipta hreppum »í fjórðunga eða
þriðjunga eða sem þeir vilja skipt hafa til matgjafa eða tíundaskiptis«.3)
Var ákvæði þetta seinna tekið upp í Jónsbók, Kvg. 31 (Frfb. 9).
Þessi heimild hefir sjálfsagt stundum verið notuð, þar sem hreppar
voru mjög stórir. Nú voru Fljótin öll einn hreppur langt fram eftir
öldum, og svo var enn 1703. Hefir það verið bæði fjölmennur og
víðlendur hreppur, og mun honum líka frá fornu fari hafa verið skipt
i smærri hluta. Hélst sú skipting enn 1703 og segir í manntalinu,
að hreppurinn skiptist þá í sex fimmtunga Af þessu má sjá, að
hreppnum hefir fyrst verið skipt i fimm hluta. Sú skipting hefir
líklega haldist lengi en síðar var sjötta hlutanum bætt við, en þá
var það orðin svo rótgróin venja, að tala um fimtungana, að þeirri
málvenju var haldið, þótt partarnir yrðu sex. Þessir hreppshlutar
hétu hver sinu nafni: Hraunafimtungur, Holtsfimtungur, Stíflufimt-
ungur, Brekkufimtungur, Flókadalsfimtungur og Bakkafimtungur4).
1) Jarðabókarskjöl Skagafjarðarsýslu 9, i Þjskjs.
2) Oeconomisk Rejse. I. bls. 260.
3) Grg. I. b. 171, II. 249.
4) Manntal á íslandi árið 1703 bls. 307—312.