Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1974, Blaðsíða 54
60
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
hefur þess verið getið til, og jafnframt vitnað til þess sama hugboðs
séra Sveins Víkings, að bænhús hafi fyrr á öldum verið í Fannar-
dal. Vitaskuld hefur það verið lítið hús en þar hefur að sjálfsögðu
verið altari og einhver altarisbúnaður. Enginn veit hvenær það
bænhús lagðist af ef til hefur verið. Árið 1397, þegar Vilchinsmáldagi
er skráður, eru í Skorrastaðarprestakalli fjögur bænhús og hið
fimmta liggur niðri. Vel má vera að einmitt þetta fimmta bænhús
hafi verið í Fannardal þó að um það séu nú hvei'gi beinar heimildir.
Annar staður í prestakallinu er a. m. k. ekki líklegri. Vera má einnig
að bænhúsið, sem liggur niðri 1397, hafi um eitthvert skeið verið
tekið aftur í notkun þó að þess verði ekki vart í hinum fáskrúðugu
heimildum af Austurlandi frá fyrri öldum. Þess ber einnig að gæta
að 15. öldin er mjög myrkt tímabil í allri Islandssögu. Með hliðsjón
af róðukrossunum frá Álftamýri og í Garpsdal er engin fjarstæða
að láta sér til hugar koma að róðukrossinn úr Fannardal sé leifar af
fornri altarisbrík (sem nú væri fremur nefnd altaristafla), rismynd
(relief) þar sem listamaðurinn kann að hafa sýnt fleiri atriði en
krossfestinguna eina. Gegn þessari tilgátu mælir það helst að Fann-
ardalskrossinn er ekki skorinn út í heilt eins og hinir tveir. Á það
er einnig að líta að krossmarkið eitt sér hefur sómt sér vel í litlu
guðshúsi, hvort sem var uppi yfir altari eða á altarinu sjálfu, og því
betur sem húsið var minna.
Hér verður haft fyrir satt að bænhús hafi verið í Fannardal fyrr
á öldum. Róðukrossinn sem hér hefur verið til umræðu er leifar af
altarisbúnaði þess, gerður úr rekavið af skurðhögum austfirðingi,
óvíst hvenær en varla síðar en snemma á 14. öld.
Þó að Fannardalsbónda væri það um megn er -fram liðu stundir
að halda við bænhúsi á bæ sínum megum við samt þakka honum það
að hann hefur haft þá ræktarsemi til að bera að sjá borgið hinum
veglegasta grip þess, sem nú er vafalaust með elstu munum íslenskum
í einkaeign. Aðrir ófúnir viðir bænhússins hafa vafalaust verið not-
aðir til að dytta að öðrum húsum á bænum er það lagðist af. Þegar
svo fyrntist yfir minninguna um bænhúsið lét skáldlegt ímyndunar-
afl norðfirðinga ekki á sér standa og skóp tröllasögu um uppruna
róðukrossins sem öldum saman hékk á þili í Fannardalsbaðstofu.
Ég geri ráð fyrir því, að saga áheita á róðukrossinn í Fannar-
dal sé eitthvað á þessa leið:
Þegar á kaþólskum tíma, og líklega meðan bænhúsið í Fannardal
stóð enn uppi, myndaðist sú venja að heita á krossinn. Kann sú trú sem
bjó að baki þessum áheitum að hafa verið hagnýtt sem tekjuöflunar-