Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1974, Síða 98
104
ÁEBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
hverra börn þau voru. Ennfremur skyldi á sama hátt skrá alla þá
er látist hefðu úr öðrum kvillum en bólu á sama tíma. Þessu dánar-
tali skyldi skila til nefndarmanna á alþingi 1708. Það mun vafalaust
að eigna má Árna Magnússyni hugmyndina að þessu dánartali eins
og að manntalinu og eykur það enn á ágæti þess frábæra starfs sem
hann vann hagsögu Islands á þessum árum og er því óskiljanleg sú
þögn sem ríkti um niðurstöðuna af því. Það má segja að kommissionin
vann þetta verk fyrir ríkisstjómina og hún hafi getað ráðið því hvað
yrði gert opinbert af niðurstöðum hennar. En gat nokkur haft áhuga
á því að halda niðurstöðum manntalsins leyndum? Áður en kunnugt
var um útkomuna úr manntalinu 1703 var það hald manna að landið
væri mun fjölbýlla en það reyndist. Jón Eiríksson kemst svo að orði
1768: „Menneskenes Antall i Landet vides ikke netop; de fleeste og
de kyndigste, have dog været, og ere endnu, eenige i, at det haver over-
gaaet 100,000, forend den store Sygdom 1707—08“ (Deo, Regi,
Patriæ, bls. 29) ; Horrebow áætlar fólksfjöldann um 1750 80,000 sálir
(Tilforladelige Efterretninger um Island, bls. 13), og Jón Þorkels-
son hefur þetta að segja um hann 1748: „Forend den bemelte store
Sygdom indfaldt, og borttog saa mange, .... skal der have vaaren
90,000 Sjæle i dette fattige Land. Jeg meener, at der ere nu ikke
over 50,000, dog kand jeg ikke sige noget vist derom, og kand skee,
ikke nogen anden, i een Hast“ (Herr Johann Anderson, hans Efter-
retninger om Island, bls. 333—34).
Niðurstaða manntalsins 1703 hefur því komið mönnum á óvart og
jafnframt rýrt verðgildi landsins en um þær mundir stóðu til breyt-
ingar á verslunarháttum með nýjum samningum við kaupmenn.
Haustið 1705 kemur Ámi Magnússon til Hafnar og hefur þar vetur-
setu. Honum var þá kunnugt um útkomuna úr manntalinu og hefur
skýrt konungi og ríkisstjórn frá henni og það orðið að samkomulagi
að halda henni leyndri fyrst um sinn til þess að rýra ekki samnings-
aðstöðu konungsvaldsins við kaupmenn. Auðvitað er hér aðeins um
getgátu að ræða en hún getur leyst úr ýmsum mótsögnum í sambandi
við manntalið sem samrýmast ekki áhuga Árna Magnússonar á verk-
efninu. En hvernig sem svo ber að skýra hina löngu þögn um þennan
þátt í starfi hans þá er ástæðulaust að viðhalda henni eftir að ís-
lendingum ætti að vera það löngu kunnugt að Árna geta þeir þakkað
það að eiga nú betri heimildir um þjóðarhag á fyrstu árum 18.
aldar en nokkur önnur þjóð. Það getur því naumast talist vansalaust
að enn skuli að mestu eyða í ævisögum hans um þennan þátt og enn
óútgefnar heimildir viðvíkjandi jarðabókinni og úrvinnslu hennar.