Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1976, Blaðsíða 46
50
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
Þorsteinn fór tvær rannsóknarferðir í Þjórsárdal þetta sumar. I
bæði skiptin var Brynjúlfur Jónsson með honum. 1 fyrra skiptið rann-
sökuðu þeir félagar Sámsstaði dagana 8.—9. júlí, en í síðara skiptið,
í síðari hluta septembermánaðar, rannsökuðu þeir m. a. Skeljastaði,
Lambhöfða, Bergólfsstaði og ekki síst Áslákstungu innri sem er
stærsta bæjarrústin sem fundist hefur í dalnum.36
Milli þessara Þjórsárdalsferða fór Þorsteinn um vesturland í leit
að ýmiss konar rústum. Hann skrifar Valtý bréf úr Ólafsdal 13.
ágúst, en Valtýr var þá staddur í Reykjavík. Þar kemur glöggt fram
að Brynjúlfur hefur frætt Þorstein um fornar rústir. Ennfremur
minnist Þorsteinn á að hann hafi greitt Brynjúlfi „15 kr. fyrir
ómakið í Þjórsárdal eins og við töluðum um.“37
Valtýr Guðmundsson fór utan 4. september og var þá Þorsteinn
ókominn úr ferð sinni um vesturland. Skildi Valtýr eftir bréf til Þor-
steins; þar segir m. a.: „Jeg vona nú að þú farir aptur austur í Þjórs-
árdal (og kannske víðar) og grafir út fleiri bæi vel og greinilega,
svo enginn efi geti verið á lögun þeirra. Þú verður að taka nóga
mannahjálp til þess að grafa út bæina. Jeg hef skilið eptir 400
kr. . . ,“.38 Þetta mun hafa orðið til þess að Þorsteinn fór aftur í
Þjórsárdal og rannsakaði þar fleiri rústir.
Árangur af tveggja daga rannsókn Þorsteins og Brynjúlfs á Sáms-
stöðum í Þjórsárdal var m. a. gefinn út í riti Þorsteins „Ruins of
the Saga Time“. Þar er birt flatarteikning af húsaskipan og fylgja
ýtarlegar upplýsingar um stærð húsanna.39
Miklu merkilegri gögn um rannsóknina að Sámsstöðum er þó
vasabók Þorsteins, þar sem hann hefur skrifað hjá sér hvað fyrir
augu bar þegar rannsóknin var gerð. Þessi merka dagbók hefur varð-
veist í skjölum Þorsteins Erlingssonar, í Lbs. 4180, 4to.
Á efri hluta bl. 6V og 7r eru minnisgreinar um Sámsstaði, og á
neðri hluta þeirra, um opnuna þvera, er teikning af bæjartóftinni. Á
bl. 7V eru athugasemdir sem augljóslega eiga við Sámsstaði, en neðri
hluti þeirrar síðu er auður. Ekki er fleira efni í vasabókinni sem við-
kemur Sámsstöðum.
so Þorsteinn Erlingsson (1899), bls. 21—22 og 29—31.
37 Lbs. 3705, 4to. Bréf frá Þorsteini Erlingssyni til Valtýs Guðmundssonar, 13.
ágúst 1895.
38 Lbs. 4156, 4to. Bréf frá Valtý Guðmundssyni til Þorsteins Erlingssonar, 3.
september 1895.
3» Þorsteinn Erlingsson (1899), bls. 42—46.