Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1982, Síða 1
ÞÓR MAGNÚSSON
FÁEIN ÆVIATRIÐI
DR. KRISTJÁNS ELDJÁRNS FYRRUM
ÞJÓÐMINJAVARÐAR OG FORSETA ÍSLANDS
Þriðjudaginn 14. september 1982 lézt dr. Kristján Eldjárn, forseti Hins ís-
lenzka fornleifafélags og ritstjóri Árbókar á sjúkrahúsi vestur í Bandaríkjun-
um. Þá var í einni svipan lokið glæsilegum og merkum ferli eins fremsta
fræðimanns í menningarsögu þjóðarinnar fyrr og síðar og er við hæfi, að Ár-
bók birti fáein æviatriði hans.
Kristján Eldjárn helgaði ungur líf sitt rannsóknum á norrænni
menningarsögu einkum þó menningarsögu íslendinga og á þeim vettvangi var
hann svo mikilvirkur og velvirkur, að undrum sætti um mann, sem gegndi
mestalla starfstíð sína háum og lýjandi embættum.
Kristján var fæddur að Tjörn í Svarfaðardal 6. desember 1916, sonur hjón-
anna Þórarins Kr. Eldjárns og Sigrúnar Sigurhjartardóttur. Stóðu að honum
styrkar bænda- og prestaættir. Afi hans i föðurætt var sr. Kristján Eldjárn
Þórarinsson, síðast prestur að Tjörn en fyrr að Stað í Grindavík, og var það
síðasta prestsverk hans að skíra þennan sonarson sinn og nafna. — Foreldrar
sr. Kristjáns voru sr. Þórarinn Kristjánsson í Vatnsfirði og kona hans
Ingibjörg Helgadóttir, dbrm. í Vogi Helgasonar, en Petrína, kona sr. Krist-
jáns, var dóttir sr. Hjörleifs á Völlum í Svarfaðardal Guttormssonar.
Sigrún móðir Kristjáns, var frá Urðum í Svarfaðardal, dóttir hjónanna þar
Sigurhjartar Jóhannessonar bónda og fyrri konu hans Soffíu Jónsdóttur.
Voru ættir þeirra úr Eyjafjarðar- og Þingeyjarsýslum.
Kristján Eldjárn ólst upp að Tjörn í hópi fjögurra systkina og var hann
næstelztur. Systkini hans voru Þorbjörg húsfreyja í Reykjavík, Hjörtur bóndi
að Tjörn og Petrína húsfreyja á Akureyri. Á Tjörn var gróið menningarheim-
ili. Þórarinn faðir Kristjáns var barnakennari sveitarinnar, gagnfræðingur frá
Akureyri og hreppstjóri, og á honum hvildu ýmsar skyldur utan heimilisins
enda víða í forsvari fyrir sveitungum sínum.
Kristján gekk í Menntaskólann á Akureyri og lauk þaðan stúdentsprófi árið
1936 með mjög góðum vitnisburði. Þá hugðist hann leggja stund á ensku og
latínu við Kaupmannahafnarháskóla og sigldi utan þá um haustið.