Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1982, Page 13
FÁEIN ÆVIATRIÐI
19
þarna kom í ljós mikilvægi öskulaganna vegna tímasetningar kumlanna. Bað
hann því, að kumlið, sem kom þar í ljós nú, yrði rannsakað af mestu kostgæfni
áður en vetur gengi í garð og eyðilegði verksummerki, því að hann þóttist sjá,
að þótt hann kæmi aftur heim heill heilsu frá læknisaðgerðinni yrði hann ekki
fær um að takast á hendur rannsóknir fyrsta kastið á eftir.
Kristján gekkst undir hjartaaðgerð á sjúkrahúsi í Cleveland, Ohio í Banda-
rikjunum, sem framkvæmd var af hinum beztu sérfræðingum. Tókst sjálf að-
gerðin mjög vel og virtist hann ætla að ná sér fljótt aftur. Ólöf dóttir þeirra
hjóna fór með föður sínum vestur og dvaldist hjá honum meðan á sjúkrahúss-
vistinni stóð. Voru þau farin að hyggja til heimferðar, en að morgni mánu-
dagsins 13. september veiktist Kristján mjög snögglega og missti meðvitund.
Hafði blóðtappi myndazt í fæti og losnað síðan og setzt að í lunga. Hann var
þegar skorinn upp og fjöldi lækna reyndi hvað þeir gátu til bjargar. En allt
kom fyrir ekki og lézt hann síðdegis næsta dag.
Andlát Kristjáns Eldjárns var þjóðinni sannkölluð harmafregn. Jarðarför
hans fór fram frá Dómkirkjunni í Reykjavík fimmtudaginn 23. september
á vegum ríkisins, að viðstöddu miklu fjölmenni í kirkjunni og utan hennar,
látlaus en virðuleg athöfn. Var hann jarðsettur í Fossvogskirkjugarði, í
fögrum reit móti suðvestri í skjóli birkitrjáaraða.
Mannkostum Kristjáns hefur hér víða verið lýst. Hann var hinn óþreytandi
eljumaður, bar þó ekki lærdóm sinn utan á sér heldur bar mest á glaðlyndi og
jákvæðu eðlisfari. Hann var reglusamur í háttum, vildi ganga að viðfangsefn-
unum strax en ekki bíða þar til komið væri í óefni eða timaþröng, „Þetta
,,seinna“, það kemur aldrei“, sagði hann einu sinni. Þess vegna lauk hann
miklu dagsverki, en hann gladdist eigi að síður yfir afrekum og störfum
annarra, öllu því sem nýtilegt var þjóðinni eða í þágu þjóðmenningarinnar.
Hann hvatti menn sífellt til verka af ráðum og dáð og var frábitinn því að vilja
sitja einn að öllu því, sem hann varð áskynja við rannsóknir sínar og
fræðaiðkanir heldur miðlaði i smáu og stóru þeim, sem hann vissi að slik vitn-
eskja gæti komið að gagni.
Er óhætt að segja, að enginn hafi átt jafnmikinn þátt í að opna augu
þjóðarinnar og dr. Kristján Eldjárn á menningarlegum verðmætum sínum,
glæða skilning og áhuga á islenzkri þjóðmenningu með rannsóknum, fræði-
legum og alþýðlegum skrifum, fyrirlestrum og fræðaþáttum, enda þekkti
hann öðrum betur áheyrendur sína hverju sinni.