Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1982, Qupperneq 14
GUÐRÚN SVEINBJARNARDÓTTIR
BYGGÐALEIFAR Á ÞÓRSMÖRK
Inngangur
Þórsmörk er einn eftirsóttasti ferðamannastaður landsins og sækja þangað
þúsundir manna árlega til útivistar. Búseta var á Þórsmörk fyrst eftir að land-
ið byggðist. Sú byggð virðist þó ekki hafa haldist lengi, en tilraunin var endur-
tekin um eins árs skeið í byrjun 19. aldar. Þórsmörk liggur á bak við Eyja-
fjallajökul, á mörkum hans og Mýrdalsjökuls, og tilheyrir Eyjafjallasveit í
Rangárvallasýslu. Hún takmarkast skýrt af vötnum og jöklum: Krossá fellur
sunnan að, Markarfljót og Þröngá að norðan, en Mýrdalsjökull liggur að
austan (1. mynd). Hún hefur um langt skeið verið afréttur Fljótshlíðarbænda,
en hluti hennar er nú friðaður þjóðgarður. Sunnan og norðan hennar eru af-
réttir, sem einnig Austur- og Vestur-Eyfellingar hafa afnot af, og gengur allt
þetta svæði stundum undir nafninu Þórsmörk. Skjólgott er á Þórsmörk og
veðursæld hin mesta, og hefur verið skógi vaxið. Landgæði voru þar því lík-
lega allgóð er fyrst var byggt, en nú er umhverfið mest uppblásið og skógur
aðeins innan girðingar þjóðgarðsins.
Vitað er um byggðaleifar eftir fjóra bæi á þessum slóðum. Voru þrír þeirra
á Þórsmörk sjálfri, en sá fjórði norðan hennar, á Kápu á Almenningum.
Fjöldi muna hefur fundist á þessum bæjarstæðum í gegnum árin og benda
sumir þeirra til þess, að þarna hafi snemma verið byggt. Nokkuð hefur verið
skrifað um þessa byggð, aðallega á síðasta fjórðungi síðustu aldar og upp úr
aldamótunum, en þá voru forráðamenn Þjóðminjasafnsins, sem þá var ný-
stofnað, m.a. mikið á ferð um landið við athuganir. Á þessum tíma voru þó
aðeins þrjú bæjarstæði þekkt á Þórsmörk. Voru það Þuriðarstaðir, Húsadal-
ur og byggðaleifarnar á Kápu á Almenningum, sem nefndar hafa verið Stein-
finnsstaðir. Siðan hefur fjórða bæjarstæðið fundist, sem hér verður nefnt
Þuríðarstaðir efri, og að auki ýmsir fleiri munir frá öllum bæjarstæðunum.
Þessi grein er árangur athugana, sem gerðar voru á byggðaleifunum á Þórs-
mörk sumurin 1980, 1981 og 1982, en sú athugun var aftur hluti af stærra
byggðasögulegu rannsóknarverkefni í Eyjafjallasveit (sjá t.d. Guðrún Svein-
bjarnardóttir o.fl., 1980; sama 1982; Guðrún Sveinbjarnardóttir, í prentun).