Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1982, Síða 30
byggðaleifar á þórsmörk
35
vopn og hlutir af klæðum og reiðtygjum. Þeir munir af bæjarhúsasvæðinu,
sem eru mest áberandi, eru klébergsmunir. Kléberg er oft talið vera frá vík-
ingaöld, en munir úr því efni eða brot úr þeim gætu hafa verið til á bæjum
lengi, svo ógerningur er að tímasetja út frá þeim einum (sjá t.d. Kristján
Eldjárn, 1951). Þeir tveir munir, sem hvað öruggast má tímasetja, eru
hringjan og skrautperlan. Hringjan er í Borróstíl, en hann er tímasettur til 9.
og 10. aldar; á henni er einnig skrautband, sem almennt er tímasett til 10.
aldar (sjá hér að framan). Skrautperlan er af gerð, sem var mjög algeng á vík-
ingaaldartímabilinu í Skandinavíu, og er tímasett til seinni hluta 10. aldar.
Þannig mætti e.t.v. setja upphaf byggðar á Steinfinnsstöðum til 9. eða 10.
aldar. Sá munur, sem helst gefur hugmynd um það, hversu lengi byggðin hélst
á staðnum, er skeifubrotið (39. fundur), en talið er, að skeifur hafi fyrst
komist í notkun á íslandi á 11. eða 12. öld (K.E., 1956, bls. 259). Skriflegar
heimildir, sem síðar verður vikið að, benda til þess, að öll byggð hafi verið af
á Þórsmörk þegar á 12. öld.
Þó byggðaminjarnar séu uppblásnar og illa farnar, er augljóst, að byggð á
þessum stað hefur verið allumfangsmikil. Þar hefur líklega verið skáli, a.m.k.
20 m að lengd, en sú lengd er rúmt meðaltal þeirra skála, sem þekktir eru á
Islandi frá þessum tíma. Járnsmíði hefur verið stunduð á bænum, og hús hafa
verið byggð yfir húsdýrin. Þá hafa einhverjir íbúar bæjarins verið heygðir
nálægt honum.
Byggðaleifarnar á Þuríðarstöðum
Vestasti hluti Þórsmerkur er allhár, frammjór rani. Nefnist hann Merkur-
rani, og er nú mest allur uppblásinn. Álar Markarfljóts renna að norðan,
Krossá að sunnan. Norðan í rananum, um þriðjung vegar út á totu hans, í
vestur frá mynni Húsadals, eru leifar bæjarstæðis þess, sem nefnt hefur verið
Þuríðarstaðir (1. mynd). Bæjarstæðið, sem er nú alveg á bakka Markarfljóts-
farvegarins, í um 190 m h.y.s., er hið fegursta. Víðsýnt er þaðan, til austurs
allt upp að Einhyrningi, til vesturs niður að Stóru Dímon, en í norð-vestri
blasir Fljótshlíðin við. Rannsóknir hafa sýnt, að mikil hreyfing hefur verið á
Markarfljóti, ekki síst á sögulegum tíma (Hreinn Haraldsson, 1981). Er vafa-
laust, að álar fljótsins hafa brotið af undirlendi bæjarins (sbr. líka frásögn
Brynjúlfs Jónssonar frá 1906 hér á eftir). Byggðaleifarnar eru nú aðeins gisin
grjótdreif sem liggur á mjög uppblásnum jarðvegi (9. mynd). Er umbúnaður
þeirra allur mjög svipaður leifanna á Kápu, nema hvað þessar eru enn verr
farnar af uppblæstri. Sér aðeins móta fyrir einni lítilli tóft vestast á svæðinu,
vestan við aðalbyggðaleifasvæðið.