Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1982, Síða 49
BYGGÐALEIFAR Á ÞÓRSMÖRK
53
Heimatúnið hefur verið norður af bæjarstæðinu og er þar enn svolítið opið
svæði í skóginum. Eftir að hætt var að nýta skóginn, hefur þrengt að þessu
svæði. Má hugsa sér sæmilegt býli á þessum stað, ef treyst er á útbeit, en
vetrarhörkur koma líklega í veg fyrir að treysta megi á slíkt.
Niðurlag
Úttekt þessi á byggðaleifunum á Þórsmörk hefur leitt eftirtalin atriði í ljós.
I fyrsta lagi er greinilegt, að leifar þessar eru eftir mannabyggð, og að sú
byggð hefur verið allumfangsmikil. í öðru lagi er augljóst af munum þeim,
sem tímasetja má með nokkurri vissu, að byggð hófst þar snemma. Er þess
freistað út frá þeim að setja ytri mörk hennar milli 9. eða 10. aldar og þeirrar
12. eða 13. Þessi tímasetning mælir á engan hátt á móti þeim hugmyndum,
sem fást af skriflegum heimildum um byggð á Þórsmörk, en þær eru Land-
námabók, sem nefnir byggð þar á landnámsöld (ÍF h, bls. 344—6), og Bisk-
upa sögur (I, 1858, bls. 291) og Sturlunga saga (I, 1946, bls. 532), en sam-
kvæmt þeim virðist byggð á Þórsmörk hafa verið aflögð þegar á 12. öld. Við
Einhyrning í Fljótshlíð, um 4 km norðan Steinfinnsstaða, eru byggðaleifar,
sem athugaðar voru um svipað leyti og leifarnar á Þórsmörk. Út frá gjósku-
lögum og ummerkjum um mannaferðir, í jarðlögum, var komist að svipaðri
niðurstöðu um lengd byggðarinnar þar (Guðrún Sveinbjarnardóttir, 1982).
Eins og nú er háttað um þessar leifar, er ekki unnt að segja til um það með
vissu, hversu margir bæir voru samtímis í byggð á Þórsmörk. Þau bæjar-
stæði, sem eru uppblásin, eru greinilega öll gömul. Eru Steinfinnsstaðir meðal
þeirra, en gengið er út frá því, að þessar byggðaleifar inni á Kápu á Almenn-
ingum séu meðtaldar, er talað er um byggð á Þórsmörk. Gæði Húsadals sem
bæjarstæðis benda e.t.v. til þess, að þar hafi snemma verið byggt. Nú sjást
þar aðeins leifar 19. aldar byggðarinnar og verður ekki skorið úr um eldri
byggð á staðnum, nema með frekari rannsókn. E.t.v. mætti hugsa sér, að
aðrir Þuríðarstaðanna hafi verið byggðir úr hinum, vegna nálægðar bæj-
anna, en ekkert mælir þó beinlínis gegn því, að þeir hafi verið samtímis í
byggð.
Eitt meginmarkmið þessarar rannsóknar var, eins og segir í upphafi það, að
bjarga upplýsingum um byggðaleifar, sem eru u.þ.b. að eyðast af uppblæstri.
Var það e.t.v. þetta atriði, þ.e. áhrif uppblásturs á byggðaleifar, sem kom
hvað ljósast fram við þessa athugun. Upplýsingar um húsaskipan og annað
fyrirkomulag bæjarhúsanna á Þórsmörk eru nú að mestu glataðar. Hafa leif-
arnar verið að eyðast, allt frá því að bæjarstæðin fór að blása upp, en það var
á Steinfinnsstöðum fyrir um 100—150 árum, á Þuríðarstöðum líklega um
svipað leyti, en á Þuríðarstöðum efri e.t.v. aðeins fyrir um 15—20 árum. Fyrri