Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1982, Side 66
70
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
A B
6. mynd. A. Skeggið á Eyrarlandstikneskinu. B.-C. Blöð úr skrautverki á Kátiunge-flauginni. D.
Blöð úr skrauti á göngustafnum frá Lundi.
eins og blöðin á Eyrarlandsmyndinni og Kállunge-flauginni.11 Svipuð tvöföld
blöð eru fjölmörg á öðrum listaverkum i Hringaríkisstíl, og meðal þeirra eru
íslensku fjalirnar okkar frá Flatatungu.12
Eftir þennan samanburð (sjá 6. mynd) væri freistandi að segja að Eyrar-
landsmyndin stæði föstum fótum meðal minja í fullburða Hringaríkisstíl og
hljóti því að vera frá fyrri hluta 11. aldar eða ef til vill frá miðri öldinni. Þetta
væri þó að hengja þungan poka á of veikan snaga. Svo er að sjá sem blöð af
svipaðri gerð og þessi sé einnig að finna meðal minja Sem teljast vera í
Mammenstíl, sem er eldra stílstig en Hringarikisstíllinn. Þótt réttmætt sé og
nauðsynlegt að greina þannig milli stilstiga má ekki gleyma því að þau hljóta
óhjákvæmilega að skarast meira eða minna í tíma, ekki síst einstök efnisatriði
þeirra. Fullyrðingar um aldur á stílfræðilegum rökum geta því verið varhuga-
verðar.13 Eigi að síður er mín tilfinning sú, að svipur Eyrarlandslíkansins með
skeggi sínu minni fremur á hið yngra en hið eldra stig, það er að segja
Hringaríkisstíl, og því tel ég að það sé frá 11. öld og geti vel verið frá miðbiki
þeirrar aldar. Þá vaknar sú spurning hvort íslendingar hafi þá enn verið að
búa til (og tigna) líkön af heiðnum goðum, hálfri öld eftir að þeir tóku kristna
trú. Ekki er það ómögulegt, en svona sein aldursákvörðun líkansins veikir þó
heldur en hitt þá hefðbundnu skoðun að það sé af Þór eða nokkru öðru goði
frá heiðnum sið.
Þess ber að geta hér að hinn svokallaði Eyrarlands-Þór er ekki með öllu
einn á báti. Hann á sér hliðstæðu í Sviþjóð, þar sem er lítil áþekk bronsstytta
frá Rállinge í Södermanlandi. Yfirleitt er þessi mynd talin sýna Frey (7.
mynd),14 frjósemisguðinn, vegna þess að á líkaninu er rismikill reður, en það
var einkunn Freys að sögn Adams af Brimum, þar sem hann lýsir líkneski
Freys (Friccos) í Uppsalahofinu, ,,cum ingenti priapo.“ Augljóst virðist að
þessi tvö litlu bronslíkön sýni sömu listræna hefð og séu að öllum líkindum
frá mjög svipuðum tíma. í því sambandi er rétt að hafa í huga að Svíar bjuggu