Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1982, Síða 109
ÞRIR ÞÆTTIR
113
Maríuhelli og skal sá telja eftir hverja hríð er í Múla býr.“10 Geta má þess að
Maríukirkja var á Breiðabólstað í Fljótshlíð en ekki virðist hún hafa átt ítök í
Kollabæjarlandi á miðöldum. Nöfnin María og Katrín geta bæði tengst
kirkjustað í Kollabæ því víðast voru verndardýrlingar kirkna fleiri en einn.
Sumum kann þykja það gegna furðu ef íslenskt búfólk hefur kennt sel sín
við heilaga konu fornkristni en saga heilagrar Katrínar gerir það sæmilega
skiljanlegt. Ótrauð gekk hún til móts við píslarvættisdauðann og lét líf sitt
með mörgum sárum að þvi er segir í sögu hennar. ,,Og þegar flaut mjólk úr
sárum hennar í stað blóðs til vitnis skírlífis hennar en til lofs og dýrðar al-
máttkum guði.“ Englar guðs fluttu líkama Katrínar á fjall það er Syna heitir
og gerðust þar ótallegar jarteinir fyrir verðleika hennar. ,,Upp úr leiði hennar
sprettur viðsmjörsbrunnur sá er aldrei þrotnar.“11 Hér leiðir sagan Katrínu
fram sem nokkurskonar tákn móður jarðar sem gefur öllu lifandi kost til við-
halds lífi og verður nú auðskilið að góðu máli gegndi að tengja hina heilögu
mey selför og mjólkurpeningi.
Nafngiftin Katrínarsel er naumast til orðin öðruvísi en svo að selsátrið hafi
með einhverjum hætti tengst kirkju sem átti Katrínu helgu að verndardýrlingi
og ætla má að nyt eins sumardags í seli t.d. hafi verið gefin til guðsþakka.
Miklar rannsóknir bíða í íslenskri örnefnafræði og þau atriði sem hér hefur
verið drepið á eru lítil varða við veginn.
TILVITNANIR
1 Kulturhistorisk Leksikon for nordisk middelalder, 8. bindi, bls. 335—343.
2 Árna saga biskups, Rvk. 1948, bls. 376.
3 Guðbrandur Jónsson: „Dómkirkjan á Hólum i Hjaltadal", Rvk. 1919—1929, bls. 33.
4 Diplomatarium Islandicum, IV, bls. 482.
5 Dipl. Isl. IV, bls. 58.
6 Dipl. Isl. IV, bls. 76.
7 Sturlunga saga, II, Rvk. 1948, bls. 72.
8 Alþingisbækur íslands, V, bls. 349, og VI, bls. 90.
9 Dipl. Isl. II, bls. 781.
10 Dipl. Isl. IV, bls. 117.
11 C.R. Unger: Heilagra manna sögur, I, Kristiania 1877, bls. 421.
Leitað hefur verið fróðleiks um örnefnin Katrinarsel, Katrinarlind og Máríuhelli í Kollabæ hjá
Oddgeiri Guðjónssyni í Tungu í Fljótshlíð og hjá Erlendi Sigurþórssyni frá Kollabæ, nú á Hvols-
velli. Sigfús Vigfússon bóndi á Geirlandi hefur veitt mér leiðsögn um Katrínarsel á Geirlandi.