Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1982, Qupperneq 143
146
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
Sé farið eftir heimilisfanginu, sem Benedikt nefnir, má leiða líkur að því hjá
hvaða ljósmyndara Helgi lærði, þvi aðeins einn ljósmyndari hafði aðsetur í
Stóru kóngsins götu þetta ár, Þjóðverjinn Gustaf Adolph Schátzig fyrrum
mannamyndamálari.16
Önnur svipuð saga er sögð af myndatökum Helga. Hann er þá kominn
heim til íslands og byrjaður búskap á jörð föður síns, Sigurðar Helgasonar
(1783—1870), Jörfa í Kolbeinsstaðahreppi.
Síra Helgi Sigurðsson, ..., var einhverju sinni að fást við ljósmynda-
smiði, og tók þá, meðal annars, mynd af föður sínum; en ekki tókst þá
betur til, en svo, að þar sem höfuðið átti að vera, sást fjóshaugur á
myndinni, og varð Sigurði gamla þá þetta eitt að orði: „Ljótur hefi jeg
verið, en aldrei svona ljótur.“17
Þessi saga birtist undir fyrirsögninni Smælki í Þjóðviljanum eftir aldamót
og er trúlega skráð af ritstjóra blaðsins Skúla Thoroddsen.
I þessum tveim sögum kemur fram dæmigert viðhorf almennings til nýj-
unga. Myndatökurnar eru hafðar að skotspæni. Ef marka mætti munnmælin
hafði Helgi það eitt upp úr ljósmyndun sinni að það var hlegið að honum.
Á fyrstu árum iðnarinnar erlendis voru viðtökurnar, sem ljósmyndun fékk,
áþekkar. Þar birtist háðið í óteljandi skopmyndum sem sýndu t.d. fyrir-
sætuna reyrða i hnakkajárn, ólík örlög mannamyndamálara, sem lifðu við
sult og seyru og ljósmyndara sem blómstruðu, ljósmyndaæði í Frakklandi og
fleira því um líkt.18 Hér á landi komu skopsögur í stað skopmyndanna, sem
enn voru óþekkt fyrirbæri.
Ómögulegt er að geta sér til um hve lengi eða í hvaða mæli Helgi stundaði
myndatökur. Engin frummynd er til eftir hann, svo vitað sé, en líklegt má
telja að mynd af Sigurði föður hans kunni að vera eftirtaka af frummynd
Helga (3. mynd).19
Helgi fékkst eingöngu við búskap til ársins 1866, en þá vígðist hann að Set-
bergi í Grundarfirði en varð síðar prestur að Melum i Melasveit. Síðast bjó
hann á Akranesi og við uppskrift á dánarbúi hans þar 1888 er m.a. ,,Fóto-
grafíumaskína með tilheyrandi“ metin á 10 krónur eða jafnhátt og fjögra-
mannafar með öllum búnaði.20 Má telja líklegt að þar sé komin hin uppruna-
lega vél Helga. En vélin reyndist metin æði hátt, því þegar til uppboðs kom á
búinu voru „myndamaskína og maskínufótur“ slegin Bjarna Jörundssyni
smið á Akranesi á 45 aura.21
Annar íslenski ljósmyndarinn var Siggeir Pálsson (1815—1866), sem
fæddur var sama ár og Helgi. Hann var sýslumannssonur og stúdent frá
Bessastaðaskóla. Siggeir fékkst við margt um dagana, stundaði búskap á
nokkrum stöðum, var við kennslu og verslunarstörf.