Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1982, Síða 162
PÁLSMESSA OG KYNDILMESSA
165
Um kyndilmessu:
Si sol splenduerit Maria purificante,
Maius erit frigus post festum, quam fuit ante,
eða: Maior erit glacies undarum, quam fuit ante.75
Þetta merkir í grófri þýðingu sömuleiðis: Skini sólin skært á hreinsunarhá-
tíð Maríu, verður meiri kuldi eftir hátíðina en áður, eða: verða meiri ísar en
áður.
Ekkert er nýtt undir sólinni. Þegar maður þykist með ærinni eftirgrennslan
og skarpskyggni hafa komist að snjallri og skynsamlegri niðurstöðu, verður á
veginum handritið AM 728, 4to, sem talið er skrifað í byrjun 18. aldar, en lík-
lega eftir eldri heimild. í því er ýmislegt um tímatal, stjörnufræði og skyld
vísindi. í einum kafla þess segir m.a. (með nútíma stafsetningu):
,,Merkidagar þeirra gömlu skrifast hér
Pálsmessa er 25. dagur januarii. Uppá þann dag hafa menn so forðum
meint og haldið sem eftirfylgir:
1. Sé á Pálsmessu logn, heiðríkt, klárt veður og gott, þýðir góða og hag-
stæða veðráttu þess árs með gæðum margföldum.
2. Sé þá stríður vindur og stormur, munu spyrjast stríð og hernaður.
3. Sé þá myrkt veður og þoka yfir jörðu, vill oft sjúkdómur manna og fén-
aðar ske og verða.
4. Sé þá regn eður snjókoma, merkir missir, dýra tíð og hallæri.
Hér uppá gjörðu þeir gömlu latínsk vers þessi eftirskrifuð:
Clara dies Pauli bona tempora denotat anni
Si fuerint venti designant prælia genti
Si fuerint nebulæ pereunt animalia queque
Si nix aut pluvia designant tempora cara.
Erindiskorn þessi, er eftirkoma, útþýða versin:
Ef heiðríkt er úti veður
á Pálsmessu degi,
ársins gróða og gæða meður
get ég að vænta megi.