Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1982, Side 192
SKÝRSLA UM ÞJÓÐMINJASAFNIÐ 1981
195
Þjóðminjavörður sótti víkingafund á eynni Mön í júlímánuði og 8.—9. des.
sótti hann fund í Strasbourg hjá Evrópuráðinu, þar sem einkum var fjallað
um borgavernd og uppbyggingu gamalla borgarhverfa og aðlögun að nútíma-
þörfum.
Gamlar byggingar
Mikið ofviðri gekk yfir landið 16. og aðfaranótt 17. febrúar, urðu víða
skaðar og þar á meðal á friðlýstum byggingum.
Gamla verzlunarhúsið frá Vopnafirði, sem endurbyggt hafði verið í Ár-
bæjarsafni, skekktist og stórskemmdist. Hafði þakið lyfzt upp af syllunum í
veðurofsanum og hliðarnar gefið eftir og margir viðir brotnað og skekkzt. —
Varð nú að fara í það um sumarið að gera vandlega við húsið allt og þurfti að
taka ofan hluta af húsinu og rétta það allt, svo og skipta um mikið af viðum.
Þetta var mun meiri vinna en hægt var að sjá fyrir í upphafi, enda var reynt að
færa húsið jafnframt til réttara horfs frá fyrri endurbyggingu og fyrir vikið
var ekki hægt að hefjast handa um að endurreisa hitt húsið, sem grindina var
þó búið að reisa að. — Pétur G. Jónsson og Arngrímur Marteinsson unnu að
þessari endursmíð.
Þá fauk og gereyðilagðist Frúarstofan svonefnda i Árnesi á Ströndum, sem
friðlýst hafði verið í þeirri von, að hægt væri að gera við hana síðar, og þá
fauk hjallur á Bergsstöðum á Vatnsnesi, sem áformað hafði verið að flytja að
safninu á Reykjum.
í sambandi við að lögð var hitaveita heim á Hólastað var ákveðið að leggja
hitaveitu í kirkjuna.
Sett var rafmagnsupphitun í Víðimýrarkirkju, en sóknarfólk hafði lengi
kvartað undan kuldanum í kirkjunni og hefur hún nánast verið ónothæf að
vetrinum og var jafnvel talin óhæf til messuhalds af þessum sökum. Kirkjan
er þó aðeins hituð upp við messur og gafst upphitunin vel. Jafnframt voru sett
rafljós á veggi kirkjunnar.
Allmikil viðgerð var unnin við gamla bæinn á Hólum í Hjaltadal, þar þurfti
að endurnýja veggi að talsverðum hluta, einkum í frambænum. Þetta verk
annaðist Stefán Stefánsson í Brennigerði, en nokkur galli var, að veggir voru
ekki hlaðnir úr klömbruhnaus eins og verið hafði heldur úr streng.
Á Keldum kom fram nokkur veggruni og einnig hrundi úr veggjum, en Jó-
hann G. Guðnason sá um að lagfæra það, en hann hefur undanfarin ár séð
um viðgerðir gömlu húsanna á Keldum.
Einnig voru veggir Grafarkirkju á Höfðaströnd endurhlaðnir og gert við
kirkjugarðinn. Annaðist Jón Þorsteinsson í Mýrarkoti það verk.
Lilja Árnadóttir var í Skaftafelli ásamt Gísla Gestssyni 25.—29. ágúst og