Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1989, Page 160
164
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSIN S
í fyrsta kafla er greint frá fyrri rannsóknum á mannvistarleifum á
Kvosarsvæðinu, m.a. að Tjarnargötu 4, Suðurgötu 3 og Aðalstræti 9.
Dró höfundur þá ályktun út frá könnunum að bæjarstæðið hafi verið
vestan Aðalstrætis (bls. 8) og í framhaldi af því var lóðin Aðalstræti 18
valin til leitar að bæjarstæðinu. Par fundust síðan mannvistarleifar frá
fyrri hluta 10. aldar. í framhaldi af þeirri rannsókn voru lóðirnar að
Aðalstræti 14 og Suðurgötu 3-5 kannaðar. Á lóð Aðalstrætis 14 fund-
ust rústir húsa frá 18. og 19. öld og torfhleðsla, sem höfundur telur vera
úr húsi, sem byggt hafi verið fyrir aldamótin 900 og því elst þeirra rústa,
sem í ljós komu. Á lóð Suðurgötu 3—5 komu í ljós rústir frá ýmsum
tímum, þær elstu frá því stuttu eftir landnám, m.a. smiðjur og langhús.
í lok kaflans er íslandskort þar sem merktir eru þeir staðir, sem nefndir
eru í bókinni. Hér hefði mátt vera stutt greinargerð um fyrri fornleifa-
rannsóknir og íslenska húsagerðarsögu. Virðist höfundur forðast
slíka umfjöllun, sem sett hefur mark sitt á rannsóknina. Vegna mikil-
vægis þekkingar á íslenskri menningarsögu og sérstöðu íslenskra
fornleifafræði mætti af þessu draga þá ályktun að varhugavert sé að
útlendingar stjórni fornleifarannsóknum hér á landi. Þó gæti verið mikill
styrkur að því að fá erlenda sérfræðinga til liðs við íslenska fornleifafræð-
inga við hvers kyns sérhæfðar rannsóknir.
í kafla um jarðfræði á blaðsíðu 9—10 er fjallað ítarlega um landnáms-
lagið svonefnda, sem talið er að hafi fallið við eldgos rétt fyrir alda-
mótin 900. Ekki er fjallað um önnur gjóskulög, svo sem miðaldalagið
og Kötlulögin, sem einnig finnast í jarðvegssniðum í Reykjavík og enga
skýringu er að finna á þessu misræmi. í kaflanum er gerð grein fyrir
berggreiningu á smásteinum og steináhöldum. Að lokum eru almennar
upplýsingar (bls. 10) um tæknilegar aðferðir við rannsóknina. Kemur
fram að bein í neðstu lögunum hafi enn ekki verið greind (bls. 10) þótt
langur tími sé liðinn frá því að rannsókn lauk.
Annar kafli greinir lauslega frá sögu Reykjavíkur, en umfjöllunin er
grunn og lítið fjallað um heimildagildi Landnámu og íslendingabókar.
Hefði mátt fara ítarlegar í saumana á efninu. Þarna er þó ágætur
útdráttur um starfsemi Innréttinganna. Ekki er getið um markmið og
spurningar við fornleifarannsóknina að því frátöldu að finna leifar elstu
byggðar.
Þriðji kaflinn fjallar um niðurstöður fornleifarannsóknanna á hverri
lóð. Greint er frá hverju byggingarstigi í sérstökum kafla og byrjað á
yngstu rústunum. Það á þó ekki við Suðurgötu 3-5 þar sem byrjað er
á elstu rústunum. Ekki er að sjá neina skýringu á þessu misræmi. Síðast