Norðurljósið - 01.01.1986, Page 1
„Beinum sjónum vorum til Jesú“
Þótt fíkjutréð blómgist ekki
og víntrén beri engan ávöxt,
þótt gróði olíutrésins bregðist
og akurlöndin gefi enga fæðu,
þótt sauðfé hverfi úr réttinni
og engin naut verði eftir í
nautahúsunum,
þá skal ég þó gleðjast í Drottni,
fagna yfir Guði hjálpræðis míns.
Drottinn Guð er styrkur minn!
Hann gjörir fætur mína sem hindanna
og lætur mig ganga eftir hæðunum.
Habakkuk 3: 17-19.
Þessi kafli úr bæn spámannsins leiðir hugann að því að um skamma
stund dveljum við á þessari jörð og allt sem upp er talið í bæninni, fyrir
utan gjafarann sjálfan, eru gæði þessa heims er ekki verða tekin með sér
yfir landamæri lífs og dauða. Sá sem fest hefir von sína á Drottni sínum og
frelsara á þau verðmæti sem varanlegri eru, því miskunn hans varir að
eilífu. Guð er vissulega meiri en allt sem hann hefir skapað og gjört og þess
vegna erum við rík þótt við fáum ekki alla hluti, ef við eigum hann 1
hjörtum okkar.
Hann (eða hún) er langt niðri, er stundum sagt um þunglynt fólk en
spámaðurinn segir: „Hann gjörir fætur mína sem hindanna og lætur mig
ganga eftir hæðunum." Guð gefi okkur öllum að ganga eftir hæðum og að
beina sjónum okkar ennþá hærra, að höfundi og fullkomnara trúar okkar
sem, Guði til hægri handar, ávallt lifir til að biðja fyrir þeim sem á hann
vona.
Með kærri kveðju frá
S. G. J. og Þ. P.