Bókasafnið


Bókasafnið - 01.04.1997, Side 6

Bókasafnið - 01.04.1997, Side 6
daga, að væri Paradís. En í þeirri Paradís ráfuðu Adam og Eva um í nekt sinni og gerðu ekki neitt. Eina vinnan sem þau höfðu nokkru sinni innt af hendi, var að gefa dýrum nöfn, en það var í árdaga og svo leið langur afarlangur tími og þau gerðu ekki neitt nema að ráfa um á milli þessara nafna og kannski í mesta lagi að dytta að blómum, sem er auðvitað engin vinna; þessu húðlata fólki hraus hugur við vinnunni og ekki bara það, þau voru nefni- lega of hugmyndasnauð til að finna uppá leikjum og slæptust þess vegna bara um eins og útreyktir hippar. Ég sá þau fyrir mér, ég sá Adam og Evu ráfa um með starandi dauð augun. Og ég vissi hversvegna augun voru dauð, ojá, ég vissi það: Vegna þess að þau tóku letina framyfir vinnuna, og í hugskoti mínu skrapp iðgrænn Edensgarðurinn saman í dautt auga og bak við það beið myrkrið. Beið þess að gleypa sól og birtu. Ég entist ekki lengi í sunnudagsskólanum, því næsta sunnu- dag fór þessi brosandi maður, þessi brosandi áróðursvél letinnar, að segja okkur frá postulunum og þegar hann var búinn að lýsa því í ótrúlega mörgum orðum, hvernig þeir eltu Jesú á röndum bara vegna þess að þeir nenntu ekki að vinna, byrjar hann að dásama hvíludaginn og spyr síðan: jæja, börnin mfn, segið mér nú hvernig postularnir héldu hvíldardaginn heilagan? Og án þess að hugsa, rétti ég upp höndina og sagði eins og andinn blés mér í brjóst: Með því að slappa af og slefa, reka við og þefa. Nei. Ég entist ekki lengi í sunnudagsskólanum. En slapp ekki undan þessari Paradís slæpingja. Komst ekki undan því að heyra söguna aftur og aftur; skólakerfið sá til þess. Sú risavaxna og vel smurða áróðursvél hamraði inní okkur réttum skilningi, tróð fordómum inní barnshausana, svona eins og maður fyllti hlöðurnar í sveitinni, þjappaði vel til að koma heyinu öllu fyrir, nákvæmlega þannig var fordómum og þröng- sýni vesturlandabúans troðið í okkur uns við stóðum á blístri. En mér þótti alltaf launvænt um snákinn. Þarna í Edensgarði. Eða rak hann ekki slyðruorðið af forfeðrum okkar og fékk þau til að vinna? Já, og opnaði augu þeirra? Nema hvað. Þegar kristnifræðinni var bætt við stundartöfluna og mér þröngvað til að dásama ómerkilegan Edensheim, neyddur til að fordæma snákinn, píndur til að þylja letinni lof, ella vofði lág einkunn og umkvörtun til foreldra yfir mér; það var einmitt á þeirri þrautagöngu að ég hnaut um eitthvað skelfilegt í Paradís. Hvað það var gat ég ekki sagt til um, nema að með hægðinni vék stæk fyrirlitning mín fyrir þungri, afarþungri depurð. Ekki að ég væri að velta henni fyrir mér, þessari depurð, ég meina, ég reyndi ekkert að koma henni í orð. Nefnilega ekki fyrr en Iöngu siðar, ekki fyrr en með fullorðinsárunum, eða þegar tók að sneyðast um ímyndunaraflið að baráttan við að koma hlutunum í orð hófst. En þarna í æskunni þá blundaði depurðin, blundaði bara í blóði mínu sem þögul spurn: hvað vantaði í Paradís? hvers vegna þessi depurð? Árin liðu. Sigu áfram. Og það er vetrardagur í Kaupmanna- höfn, gráleitur þokudagur og ég flý undan rökum kuldanum, inní fornbókabúð þar sem tíminn situr á trékolli og les í bók. Ég heilsa honum, gríp sjálfur bók, hún er ekki gömul, Læsehest med æselprer heitir hún, eða var það Læsehest med gásepjne, man það ekki alveg, en man að þama stóð ég, bækur hvert sem ég leit, frá gólfi og upp og hillurnar hlykkjuðust djúpt inní húsið, ég gekk lengra inn með bókina, gekk inn þar til ég stóð inná milli hillna, varð bóknuminn og ég las í þessari bók eftir Johannes Mpllehave; rammdanskur, kafskeggjaður maður með snarleg og gneistandi augu og djúpar broshrukkur, prestur og bókamaður í gegn, og þarna stóð ég bóknuminn, samt ögn dapur en það var gamalkunnug tilfinning á stað sem þessum, depurð skyld ljúfsárri örvæntingu: eða það sem vaknar í hverjum bóka- manni þegar hann stígur inní fornbókabúð með tóma vasa. Samt fer maður alltaf inn, eins og ég þennan vetrardag í Kaupmanna- höfn fyrir þremur árum rúmum, gekk inn, heilsaði tímanum, fór dýpra inní húsið með Mpllehave og las: „Það versta við Paradís er, að þar var ekkert bókasafn." Orð eru stundum eins og elding. Og þarna laust einni slíkri niður í mig og lýsti upp hálfgleymda fortíð. Þarna kom það. Þarna var það! Loksins gat ég klætt hana í orð, depurðina sem hafði fylgt Paradís eins og skugginn, tómleikann sem hafði fyllt mig hrolli. Svarið var komið til mín. Og það var ekki sjoppu- leysið, ekki að það vantaði tindáta, eða sjódregin grásleppunet, nei aldeilis ekki. Það vantaði nefnilega bókasafn. Fyrst og fremst. Vantaði bækur. Ég sá þetta allt fyrir mér. Sá og skildi. Sá þau fyrir mér, þau Adam og Evu, ráfa um í tíðindaleysi, heltekin sárri þrá eftir ein- hverju sem þau ekki þekktu. Sá þau ráfa um með dauð augu. Og ég skildi til fulls hversvegna mér varð alltaf um megn að for- dæma snákinn í Paradís. Það var ekki bara að hann gerði menn úr þessum slæpingjum, heldur gaf hann þeim augu til þess að sjá. Til þess að lesa. Þetta með djöfulinn og allt það, það er bara tóm vitleysa. Eða kannski áróður þeirra sem nærast á fáfræðinni. Orð eru elding og þau lýsa upp hálfgleymda fortíð, því þarna í fornbókabúðinni kom hún til mín, stundin þegar stæk fyrir- litning vék fyrir þungri depurð: Ég stend stuttfættur á Söbeks- planinu og bíð, ég bíð svo lengi og sá óttalegi grunur hellist yfir mig, að veröldin hafi gengið til, að einhver illska sé búin að dæma mig til eilífðar vistar í Paradís; bráðum vex kæfandi gróð- urinn mér yfir höfuð, drungalegt tíðindarleysið drýpur af hverju laufi og í runna einum liggur snákurinn, myrtur. En þá, og mér fannst það vera á alsíðustu stundu, birtist bjargvætturinn, þá birtist bókabíllinn stóri, birtist bláhvítur, nálgaðist Safamýrina á hægu en svo þungu skriði og á eftir honum vappaði sólin. Nálgaðist hægt, staðnæmdist dæsandi skammt frá mér, huiðin opnaðist og ég steig inní heim þrjúhundruð vídda. 6 BÓKASAFNIÐ 21. ÁRG. 1997

x

Bókasafnið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bókasafnið
https://timarit.is/publication/245

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.