Ársrit Ræktunarfélags Norðurlands - 02.02.1969, Blaðsíða 68
aðeins tæp 100 sýni og þó engin úr Norður-Þingeyjarsýslu.
Auk þessara jarðvegssýna frá bændum á Norðurlandi, voru
efnagreind um 50 sýni úr tilraunum og um 100 sýni úr
Vopnafirði. Hafin var efnagreining þessara sýna stuttu fyrir
jól og lokið í apríl. Rannsakað var í þeim eins og undanfar-
in ár sýrustig, fosfór-, kalí- og kalsíummagn.
Nú má spyrja: Hver er gagnsemi allra þessara mælinga?
Ýmsir hafa haldið því fram, að lítið gagn sé að jarðvegs-
efnagreiningum í þá veru að gera sér grein fyrir áburðarþörf
túna. Ég álít, að þeir menn séu of svartsýnir. Vissulega eru
rannsóknir á því hvert samband er á milli niðurstaðna
efnagreininga og uppskeru, ekki eins miklar eða eins vel
kynntar hér á landi og þyrfti að vera. En þó hefur það, sem
ég hefi sjálfur gert, og það sem ég hefi séð af annarra verk-
um, verið mjög jákvætt í þá átt að segja fyrir um áburðar-
þörf. Reynslan af töku jarðvegssýna hér á Norðurlandi
undanfarin ár finnst mér einnig benda í þá átt, að vel sé það
ómaksins vert að taka moldarsýni og efnagreina. Eins og er,
finnst heldur engin önnur aðferð betri þar sem hægt er að
kanna áburðarþörf túna í stórum stil. Áburður er dýr vara,
og eins og verðlagskerfi landbúnaðarins er háttað, er það
ábyrgðarhluti að nota svo dýrt efni. Því er nauðsyn brýn,
að notuð séu öll þau ráð, sem tiltæk eru, svo áburðarefnin
verði sem bezt nýtt, helzt hvorki of eða van. Gerð áburðar-
áætlana, studdar niðurstöðum jarðvegsefnagreininga ásamt
færslu áburðarbóka, ætti að auðvelda lausn á áburðarvanda-
málum bænda. Hitt er þó rétt að taka skýrt fram, að þær
efnagreiningar, sem framkvæmdar eru nú, hafa sínar tak-
markanir. Þó þær gefi nokkura tryggingu hvað viðvíkur
fosfór-, kalí- og e. t. v. kalkþörf, eru þættir þeir, sem sprettu
ráða, miklu fleiri og því er rétt áburðargjöf af téðum efnum
ekki örugg trygging fyrir góðri uppskeru. Verður því sí-
fellt að leita hvar skórinn kreppir; sífellt að hafa vakandi
auga á grösum og gróðri og reyna að finna hvað að er hverju
sinni. Ég las í blaði fyrir stuttu grein um búskap á Finn-
mörk í Noregi. Á Finnmörk er búskapur svipaður og hér,
nær eingöngu grasrækt. í greininni stóð, að það væri meira
70