Morgunblaðið - 02.02.2001, Qupperneq 45
MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 2. FEBRÚAR 2001 45
hress til nýrra starfa á hverjum
morgni. Nýr dagur mun rísa og er
sjálfsagður. Jafnvel kemur fyrir að
því sem hægt er að gera í dag sé
frestað til morguns af því að á
morgun verður tími aflögu. En á
stundum sem þessum sjáum við að
á morgun gæti verið of seint.
Þetta vissi Sigurður Valdimars-
son og þetta var ekki hans háttur.
Hann vildi gera strax það sem gera
þurfti. Ef eitthvað stóð til eða hafði
verið ákveðið gekk hann til verks,
helst tafarlaust. Það gat stundum
virst óþolinmæði en svona vildi
hann hafa það. Og við hljótum að
sjá að svona er rétt að hafa það.
Kynni tókust með okkur Sigurði
fyrir 13 árum. Og stuttu síðar hög-
uðu örlögin því þannig að við urðum
nánir samstarfsmenn og enn síðar
nágrannar. Við unnum saman um
fjögurra ára skeið. Ég lærði mikið á
þeim tíma. Sigurður bjó yfir mikilli
reynslu og þekkingu og hann kunni
glögg skil á mönnum og málefnum.
Það er gott þegar menn vinna í
banka. Hann var áhugamaður um
ættfræði og á örskoti tengdi hann
saman menn og kynslóðir. Hann
var eiginlega áhugamaður um fólk
því honum var ekkert mannlegt
óviðkomandi og hann mátti ekkert
aumt sjá. En hann gat líka verið
fastur fyrir og stóð þá á sínu. Og
væri honum mikið niðri fyrir orðaði
hann hlutina umbúðalaust. Hann
var hreinskiptinn og sagði það sem
þurfti að segja en gerði það ein-
hvern veginn þannig að kjarni máls-
ins varð aðalatriðið en persónunum
sem við sögu komu var haldið fyrir
utan.
Það var gott að tala við Sigurð,
það var gott að hlæja með honum,
það var gott að þegja með honum.
Einn af mælikvörðum á gæði
samskipta er hvernig mönnum
gengur að þegja saman. Okkur
gekk það vel. Hann átti gott með
samskipti. Stundum þurfti ekki orð
en samt skiptumst við á skoðunum.
Þegar ég kynntist Sigurði hafði
ég oft heyrt hans getið. Sonur Silla
og Valda eins og honum var lýst. Sú
lýsing dugði til að skipa honum sess
því Silli og Valdi voru stórveldi á
sinni tíð og áttu húseignir um allan
bæ. Þeirra „lykilatriði til árangurs“
eins og það heitir núna var að koma
sér fyrir með rekstur sinn í hús-
næði á götuhorni. Þegar þetta var
voru þeir báðir gengnir og fyrir-
tækið hætt starfsemi. Mér fannst
merkilegt að maður sem var eins
ágætlega efnum búinn og Sigurður
skyldi velja að vinna hjá öðrum. Á
þeim árum var hann í umsvifamikl-
um fasteignarekstri en lét öðrum
eftir að mæðast í því og mætti
fyrstur manna hvern dag til vinnu
sinnar og sinnti skyldum sínum þar.
Hann hafði mikla ánægju af starfi
sínu og naut þess að vinna í fjöl-
mennum hópi samstarfsmanna og
hitta viðskiptavini og greiða götu
þeirra. Það er stundum sagt að pen-
ingar skipti þá eina máli sem ekki
eiga þá. Það passar vel við Sigurð
því af þeim átti hann nóg en hann
talaði aldrei um þá. Hann kaus að
lifa fremur einföldu lífi og ekki
hvarflaði að honum að berast á. Og
af lífsstíl hans varð ekki ráðið að
þar færi stórefnamaður því ekki var
hægt að merkja annað en að hann
byggi við sambærileg kjör og sam-
starfsmenn hans. Veraldlegur auð-
ur skipti hann ekki miklu. Andlegur
auður var honum þeim mun eftir-
sóknarverðari.
Hann lagði mörgum málefnum
lið. Hin síðari ár átti Gideon-hreyf-
ingin hauk í horni þar sem Sigurður
var. Ég sá hve stoltur hann var af
þátttöku sinni í því starfi sem þar er
unnið þegar hann lýsti ferðum
þeirra félaga um landið sem farnar
voru með Nýja testamentið handa
skólabörnum. Og í hverjum skólan-
um á fætur öðrum héldu þeir fundi
og kynntu bókina fyrir æskulýðnum
sem var grundvallarbók í þeirra lífi.
Hin síðari árin hittumst við
sjaldnar. Sigurður hafði látið af
störfum í bankanum og helgaði
krafta sína hugðarefnum, þ.á m.
ættfræði. Reglulega hittumst við þó
og þá var sem við værum enn að
vinna saman. Hann bar hag bank-
ans og fyrrum samstarfsmanna fyr-
ir brjósti og spurði tíðinda. Það var
alltaf gott að hitta Sigurð. Hann
hafði hlýja og afslappandi nærveru.
En nú er hann farinn. Hefur lagt
út á þær óravíddir sem bíða okkar
allra. Eftir sitjum við og reynum að
meðtaka. Fyrir hönd Íslandsbanka-
FBA og fyrrum samstarfsmanna
eru færðar þakkir fyrir vel unnin
verk. Ingibjörgu, dætrunum þrem-
ur og fjölskyldum þeirra og fóst-
ursonum tveimur er vottuð djúp
samúð. Sigurður Valdimarsson var
góður drengur. Guð blessi minn-
ingu hans.
Jón Þórisson,
framkvæmdastjóri
Íslandsbanka-FBA.
Ég hef þekkt Sigurð B. Valdi-
marsson frá því við áttum heima í
Austurbænum á barnsaldri, hann á
Freyjugötu og ég á Bergstaða-
stræti. Báðir skírðir og fermdir í
Fríkirkjunni. Eftir að ég hóf störf
hjá Útvegsbanka Íslands, 1. júní
1966, endurnýjuðust forn kynni
okkar og styrktust svo að ég get
með sanni sagt að Sigurður hafi
verið besti vinur minn undanfarna
áratugi.
Ég hef lengi lagt stund á stang-
veiðar og rennt fyrir silung og lax
víða um land. Það var ekki síst
stangveiðin sem tengdi okkur Sig-
urð vinarböndum. Nokkru eftir að
ég byrjaði í Útvegsbankanum, um
1970, fór Sigurður til laxveiða í
Stóru-Laxá í Hreppum. Ég hafði oft
veitt í ánni og þekkti hana vel. Sig-
urður leitaði ráða hjá mér fyrir
þessa ferð og var svo heppinn að fá
lax. Upp úr þessu fórum við að fara
saman í laxveiðiferðir og urðu þær
býsna margar áður en yfir lauk. Oft
fórum við í Stóru-Laxá í Hreppum,
Norðurá, Grímsá, Kjarrá, Miðfjarð-
ará, Laxá á Ásum og Laxá í Aðaldal
svo þær helstu séu nefndar. Við
vorum svo heppnir að konur okkar
samþykktu að við færum í veiðitúra
sem tóku allt upp í hálfan mánuð.
Veiddum við saman 20–40 daga á
ári. Lengi fórum við eina fjölskyldu-
veiðiferð á ári með konum okkar og
börnum. Oftast var þá farið um
verslunarmannahelgina og gjarnan
í Stóru-Laxá í Hreppum. Þá var
fyrsti áfangastaður Eden í Hvera-
gerði þar sem borðaður var hádeg-
isverður. Síðan haldið austur, gist í
veiðihúsi á svæði 4, og verið við
veiðar í þeirri óviðjafnanlegu perlu
sem Stóra-Laxá er. Þessi árlega
ferð var okkur öllum tilhlökkunar-
efni og uppspretta ómetanlegra
minninga.
Sigurði var það mikil ráðgáta að
ég er berdreyminn. Snemma fór
hann að segja mér frá draumum
sínum og ég reyndi að ráða
draumana. Oftar en ekki gat ég
sagt fyrir um hvað við fengjum
marga laxa í veiðiferð og réð það af
draumum hans og mínum. Það varð
viðkvæði að Sigurður spurði þegar
við fórum í veiðitúra: Hefur þig
dreymt eitthvað?
Það er sagt að ef barnið komi
ekki fram í manni í veiðitúr, þá geti
hann aldrei tjáð sig af hjarta. Við
Sigurður kynntumst mjög vel í
veiðiferðunum og lærðum að meta
hvers virði íslensk náttúra er. Eins
hve mikilvægt er að taka tillit til
annarra. Ég kenndi Sigurði að
fylgjast með fuglum og hlusta á
náttúruhljóðin. Skoða hvaða æti var
að detta í veiðivatn þar sem silung-
ar vöktu undir og gripu flugur sem
voru að kvikna. Velja agn eftir því.
Læra að lesa náttúruna. Nálgast
veiðina sem sport en ekki akkorðs-
vinnu.
Mig langar að rifja upp eina ferð
okkar í Grímsá. Við komum í ármót
þar sem Tunguá rennur í Grímsá.
Ég segi við Sigurð: Nú byrjar þú að
veiða. Þú skalt henda maðkinum
þarna upp að bakkanum og sjá
hvort hann tekur ekki. Sigurður
kastaði án þess að fá nokkuð, en
fiskur fór að stökkva niður eftir
allri á. Ég sagði að nú þyrftum við
að setja á flugu, því fiskurinn væri í
því stuðinu. Sigurður setti á Þing-
eying, en fiskurinn tók hann ekki
heldur. Þá sagði ég honum að setja
á litla flugu. Við völdum White
Wing númer 10 og ég sagði honum
að henda alveg upp að bakkanum
hinum megin. Viti menn, flugan var
ekki búin að fara nema 30–40 senti-
metra þegar hún var tekin. Lax-
inum var landað og ég sagði Sigurði
að kasta aftur nákvæmlega eins.
Hann kastaði og aftur var flugan
tekin. Svona fékk hann níu laxa í
röð á sama blettinum. Þá var kom-
inn hvíldartími og við urðum að
hætta.
Það fyrsta sem Sigurður gerði
þegar hann kom í bæinn var að
kaupa sér tíu flugur af White Wing
númer 10 til að verða örugglega
aldrei uppiskroppa! Eftir þetta
brást ekki að hann kastaði þessari
flugu í Grímsá, en ekki man ég eftir
að hann fengi nema tvo laxa á hana
eftir þetta. Sigurður fékk þvílíka
tröllatrú á þessari flugu að hann
ráðlagði öllum sem ekki voru að fá-
’ann að prófa White Wing númer
10!
Þrátt fyrir að árin færðust yfir
hættum við aldrei að veiða saman.
Það var föst regla að fara vor og
haust til heiðurshjónanna Péturs
Steingrímssonar og Önnu Maríu í
Nesi og renna í Laxá í Aðaldal. Ef
það kom fyrir að Siggi færi með
dætrum sínum eða öðrum til veiða
hafði hann alltaf samband og lét
vita hvernig gengi. Ef honum gekk
ekkert þá leitaði hann gjarnan ráða.
Ég spurði hvar hann ætti að vera og
gat yfirleitt sagt honum til. Það
brást ekki að hann fengi fisk. Lang-
ar veiðiferðir geta reynt á dreng-
skap og vináttu manna. Öll þessi ár
varð okkur aldrei sundurorða,
skildum alltaf sáttir. Það sýndi mér
hve mikill drengur og góður hann
var.
Varla leið svo vika, frá því við
hættum að vinna hjá Útvegsbank-
anum, að við værum ekki í sam-
bandi. Sigurður hafði gaman af að
hlusta á sögur og það var gaman að
segja honum sögur. Við leituðum
oft ráða hvor hjá öðrum.
Þegar ég var að hugleiða að hefja
rekstur eigin fyrirtækis, Laxakorts
ehf., hvatti Sigurður mig manna
mest. Ég sagði sem svo að ég væri
lærður matreiðslumaður, en kynni
ekkert á fyrirtækjarekstur. Þú get-
ur þetta! sagði hann aftur og aftur
og ég gat treyst orðum hans, enda
var Sigurður þaulreyndur fjármála-
maður.
Oft voru samtöl okkar á heim-
spekilegum nótum. Við ræddum
lífsgátuna, hvernig lífið væri og
hvað væri framundan. Ekki tókst
okkur að leysa hina miklu lífsgátu,
en leyfðum okkur að láta hugann
reika og spekúleruðum mikið í
framhaldinu. Hvar við værum
staddir og hvert við værum að fara.
Niðurstaða samræðnanna var oft
samhljóma: Eitt mesta lán sem
maður gæti notið væri að eignast
góð og vönduð börn. Meira lán væri
að eiga jafngóð og vönduð barna-
börn og að fá að snúast með þeim.
Að fá að vera með barnabörnum
sínum væri óverðskulduð ábót á líf-
ið.
Ég varð afi á undan Sigurði og
vissi að hann langaði mikið í barna-
börn. Í fyllingu tímans varð honum
að þeirri ósk sinni. Sigurður var
bæði stoltur og glaður yfir því að
verða afi. Þegar barnabörnin voru
orðin fjögur talsins man ég þegar
hann kom með þau í bílnum sínum,
auðvitað öll í barnabílstólum, til að
sýna mér hvað hann væri orðinn
ríkur. Barnabörnin voru hans dýr-
mætustu auðæfi og höfðu algeran
forgang. Áður en yfir lauk voru
barnabörn Sigurðar orðin sjö tals-
ins og öll jafn dýrmæt í hans aug-
um. Ég hef aldrei kynnst neinum
öðrum sem þótti jafn vænt um
barnabörnin sín og sýndi þeim því-
líka umhyggju.
Sigurður var mikill öðlingur og
sérstakt ljúfmenni. Þótt hann væri
sterkefnaður barst hann aldrei á og
kunni vel með fé að fara. Hann var
hlédrægur, tranaði sér ekki fram,
en reyndist traustur vinur vina
sinna. Þrátt fyrir efnahagslega vel-
sæld og barnalán fékk Sigurður
sinn skammt af erfiðleikum. Það
urðu kaflaskipti í lífi hans þegar
hann eignaðist Ingibjörgu Daníels-
dóttur að lífsförunaut, hún reyndist
honum sannkallaður sólargeisli.
Að leiðarlokum vil ég þakka fyrir
að hafa eignast Sigurð B. Valdi-
marsson að vini. Ég er þakklátur
fyrir allar ógleymanlegar stundir
sem við áttum saman, jafnt í veiði-
skap og við ræktun vináttunnar.
Þakka vinsemd hans í garð fjöl-
skyldu minnar og samveru á stórum
stundum, eins og þegar Guðrún
Helga dóttir mín gaf fyrsta barni
sínu, Þóreyju Huld, nafn. Nú er
skarð fyrir skildi, en minningin um
góðan dreng lifir.
Guð blessi minningu Sigurðar B.
Valdimarssonar og huggi ástvini
hans.
Eyþór Sigmundsson og
Hulda S. Jónsdóttir.
Mann setur ósjálfrátt hljóðan
þegar fréttir berast um að einn úr
vinahópnum sé látinn. Næstu við-
brögð eru svo að vilja ekki trúa að
fréttin sé rétt en þegar ekki er
hægt að breyta staðreyndum reynir
maður að skilja það sem virðist svo
óskiljanlegt. Sætta sig við að fá ekki
lengur að faðma vin sinn að sér á
góðum stundum, geta hlegið með
honum, rætt um ættfræði, veiði-
ferðir og rifjað upp gamlar minn-
ingar eða tekið í spil.
Og svo rifjar maður upp í hug-
anum allar samverustundirnar.
Man eftir því þegar við fórum að
hitta Sigga reglulega á fundum og
samkomum veiðiklúbbsins Fjaðra-
foks, þegar við veiddum saman í
Norðurá, oft rétt eftir að veiðitíma-
bilið hófst og vorum að reyna að fá
‘ann í kulda og strekkingi eða mikl-
um vorleysingum. Man skemmti-
legar veiðiferðir í Laxá á Ásum sem
hófust stundum deginum fyrr með
spilamennsku í Víðigerði í Víðidal,
þar sem gist var því Siggi vildi allt-
af vera mættur tímanlega í veiði og
vera kominn norður kvöldinu fyrir
veiðidag, þótt veiði hæfist ekki fyrr
en klukkan þrjú næsta dag. Man
eftir deginum sem hann kom í
heimsókn til okkar á Sólbrautina
með ljóma í augunum og Gunna
sagði við hann: „Þú ert ástfanginn!“
og hann kinkaði kolli og brosti svo
sæll og ánægður. Man eftir fyrsta
matarboðinu sem við buðum honum
og Ingibjörgu í, því við ætluðum að
koma þeim saman eins og sagt er.
Minna gat maður nú ekki gert fyrir
vin sinn en leggja honum lið fyrst
hann var ástfanginn. Man eftir
fyrstu veiðiferðinni sem við fjögur
fórum saman í norður í Laxá á Ás-
um og kappi Sigga til að fá Ingi-
björgu til að ánetjast veiðidellunni.
Hún var nú sennilega inngrónari í
okkur hin en hana, en samt áttum
við með þeim margar skemmtilegar
veiðiferðir eftir þessa fyrstu.
Man eftir gönguferðum um Sel-
tjarnarnesið og innliti í Bolla-
garðana, góðum móttökum og hlýju
vinarþeli. Man eftir því að hafa
hvatt Sigga til að halda upp á stór-
afmæli sín og svari hans um að það
væri aldrei hægt að halda upp á af-
mæli sitt þegar það væri að sumri
til, því allir vinirnir væru í veiðitúr-
um. Man eftir að hafa komist að
raun um að þetta var rétt og þykja
það miður, því þessi hógværi dreng-
ur átti það svo sannarlega skilið að
vinir hans heiðruðu hann á merk-
isdögum. Man eftir svo ótal mörg-
um atvikum með þessum manni
sem nú er fallinn frá sem hafa litað
líf manns og gert það merkilegra af
því við þekktum hann.
Þegar við fluttum vestur á Snæ-
fellsnes dró úr veiðiferðunum og við
hittum Sigga sjaldnar en þegar við
hittumst voru alltaf sömu fagnaðar-
fundirnir. Nú var frekar rætt um
barnabörn, hunda og ættfræði en
veiðiferðir. Hann hafði fengið sér
hús á Eyrarbakka, Ingibjörg gefið
honum hund og öll dásömuðum við
veru okkar í sveitinni, hvort sem
var fyrir austan eða vestan. En nú
eigum við ekki lengur von á að sjá
Sigga bregða fyrir einhvers staðar í
bænum.
Okkar missir er mikill þegar góð-
ur drengur sem Siggi hverfur úr
vinahópnum en missir fjölskyldunn-
ar er mun meiri. Við vottum þér,
Ingibjörg, Gunnari Daníel, Svein-
birni og dætrunum, Önnu Maríu,
Þórunni og Elínu, tengdasonum og
öðrum aðstandendum okkar dýpstu
samúð og biðjum fyrir Sigga vini
okkar í nýrri tilvist. Minningin um
góðan dreng mun áfram fylgja okk-
ur og við eru þakklát fyrir að hafa
orðið þeirrar lukku aðnjótandi að
leiðir okkar mættust og lágu sam-
síða í þessari tilvist.
Guðrún og Guðlaugur
Bergmann.
Haust 1952. Í heiðri glaðværð
æskunnar komu 40 ungmenni, 14–
16 ára, saman í gamla Verzló við
Grundarstíg til að taka þátt í
námskeiði til inntökuprófs við skól-
ann.
Námskeiðið fór prýðisvel fram:
Við kynntumst hinu hægláta göf-
ugmenni Inga Þ. Gíslasyni, bróður
skólastjórans, Vilhjálms Þ., en sá
var í fríi þetta skólaár og dvaldi í
Ameríku að læra að verða útvarps-
stjóri. Frú Guðrún Arinbjarnar
kenndi ensku og kom allt að því
reykjandi inn í tímana og var ekki
að kippa sér upp við smánuni.
Vegna stöðunnar í stjórnunar-
málum skólans voru síðan ekki
haldin nein inntökupróf þetta haust
– í einasta skiptið í sögu skólans til
þessa tíma. Svo við sluppum öll inn.
Síðan var dr. Jón Gíslason eðallynd-
ur lærdómsmaður skipaður skóla-
stjóri og var það til starfsloka.
Sigurður B. Valdimarsson var í
hópi þessara glaðsinna ungmenna,
sem settust í skólann þetta haust.
Þetta var anzi frjálslegur skóli,
nokkuð agalítill fyrstu misserin, unz
dr. Jón hafði náð tökum á liðinu,
sem hann gerði með festu af sann-
gjörnu mannviti. Kennarar þessara
mótunarára höfðu margvísleg áhrif
á nemendurna í skólanum: Þor-
steinn Bjarnason bókhaldskennari
var fyrirferðarmikill á velli og hafði
hörku lag á nemendum og þeir virtu
hann mikils. Grímur M. Helgason
íslenzkukennari varð mörgum okk-
ar góð fyrirmynd sakir drenglyndis
og þolinmæði við mis-áhugalitla
nemdur um fræði hans. Sigurður
„lærer“ dönskukennari varð sem
betur fer engum bein fyrirmynd, en
nemendur höfðu nokkuð frjálsar
hendur í tímum hans, sem óspart
var nýtt.
Siggi Baddi lauk verzlunarprófi
vorið 1956 og hóf mjög fljótlega
störf hjá Útvegsbanka Íslands. Þar
og hjá erfingja hans, Íslandsbanka,
vann hann í 40 ár og gegndi þar
margvíslegum trúnaði alla tíð.
Hann giftist æskuástinni sinni
ungur maður og eignaðist þrjár
góðar og vel gerðar dætur í hjóna-
bandinu. Hann fékk mikinn arf eftir
foreldra sína og var mikill eigna-
maður alla tíð. Og hann vissi vel, að
peningur í kistu græðir ekki.
En hvernig var hann, þessi gamli
skólabróðir, þessi vinsamlegi, pínu
ópersónulegi, duli maður, sem sýndi
öllum viðmælendum vinsemd og
virðingu?
Það var sosum ekki alltaf einfalt
mál að vera „sonur Silla og Valda“.
Og það var heldur ekki alltaf auð-
velt að vera bróðir Kela Valda. Og
það varð með árunum sárt, þegar
veikindi konu hans ágerðust.
En eðlislægt umburðarlyndið í
sál þessa velviljaða drengs, reglu-
festa hans í öllu dagfari og
skemmtileg áhugaefni: Skipulegt
grúsk í ættvísi, veiðiskapur með
góðum félögum og gefandi eigna-
sýsla og ekki sízt einlæg barnatrú,
gerðu honum lífið léttara. Hann
rækti og ræktaði fjölskyldu sína af
einlægri umhyggju, kynnti sér per-
sónugerð forfeðranna af miklum
áhuga og komst að ýmsum sann-
indum um sjálfan sig við þá iðju. Sá
blendni fróðleikur varð honum oft
tilefni bross eða hláturs.
Og svo – á miðjum aldri – batzt
hann Ingibjörgu Daníelsdóttur.
Konu, sem færði þeim báðum jafn-
vægi og heilbrigða gleði á ný.
Og nú er hann genginn, þessi
vammlausi maður. Maður, sem mat
smáhlutina í lífinu ekki síður en hið
mikla og háleita. Og við söknum
hans mikið.
Þrjá erfingja á hver maður:
mennina, moldina og sálarinnar
meðtakara.
Bragi Kristjónsson.
Fleiri minningargreinar um
Sigurð B. Valdimarsson bíða birtingar
og munu birtast í blaðinu næstu daga.