Morgunblaðið - 06.07.2001, Qupperneq 43
MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 6. JÚLÍ 2001 43
tileinkað sér landbúnaðinn í sam-
ræmi við breyttar aðstæður.
Með þessum fátæklegu orðum
kemst ég ekki hjá að hugsa, þvílík
ævi, þvílík örlög, hvaða rétt hef ég,
drottinn gaf og drottinn tók. Ef gleði
eða lífshamingja eru sett undir mæli-
ker hver er þá með þyngsta lóðið?
Axel minn, Guð blessi minningu þína.
Ellý Þórðardóttir.
Okkur starfsfólk dvalarheimilis
aldraðra, Hraunbúðum Vestmanna-
eyjum, langar til að kveðja kæran vin
og heimilismann.
Axel, eða „Púlli“ eins og hann var
oftast kallaður, kom á Hraunbúðir 1.
desember 1992, þá frá Kópavogshæli
en þangað fór hann í Heimaeyjargos-
inu 1973. Þegar ákvörðun hafði verið
tekin um endurkomu hans til Eyja
varð hann mjög glaður. Hann söng
að sögn fylgdarmanns alla leiðina
með Herjólfi gömul og góð Eyjalög.
Flestallir tóku fljótt miklu ást-
fóstri við hann. Hann varð eins og
eitt af börnum starfsfólksins og naut
hann þess út í ystu æsar. Hann var
fljótur að finna hvort „gamalt“
starfsfólk var að annast hann og vissi
þá sín takmörk en var sniðugur að
snúa á nýtt starfsfólk og lét það jafn-
an gera fyrir sig hluti sem hann vissi
að hann átti að gera sjálfur. Hann
var skapmikill, glaðsinna og stríðinn
og hafði mikið gaman af allri tónlist.
Hann átti sín uppáhaldslög og voru
Eyjalögin honum afar hugleikin.
Hann gat ekki sungið texta en kunni
laglínurnar og var mjög lagviss.
Púlli gat ekki tjáð sig með heilum
setningum en með látbragði og örfá-
um orðum gat hann komið öllum sín-
um þörfum á framfæri og var starfs-
fólkið fljótt að skilja hann. Hann
skildi allt sem við hann var sagt og
svaraði ætíð beinum spurningum
með já eða nei.
Hann gerði mikinn mannamun
enda fljótur að finna hverjir voru
honum heilshugar góðir og hverjir
ekki. Hann var elskur að kvenfólki
og höldum við að hann hafi verið að
leita eftir móðurumhyggju með því.
Hann var bara barn í sér og hafði
mikla þörf fyrir hlýju og gott atlæti.
Hann gat hvorki vaknað né sofnað án
þess að fá faðmlög og „knús“ og ekki
laust við að aðrir hafi öfundað hann
af öllum þessum faðmlögum. Púlli
var mjög fínn með sig og vildi helst
alltaf bara vera í silkiskyrtum með
bindi, í vesti og með hatt á höfði.
Ekki mátti gleyma að hafa seðla-
veskið í rassvasanum. Munnharpan
var lengi vel ekki langt undan. Hann
var líka glaður að hafa vasadiskó á
eyrum og hlustaði hann á alla létta
tónlist og var fljótur að láta vita ef
snúa þurfti spólunni við.
Hann sást heldur ekki á gangi
öðruvísi en að vera með vörubílinn
sinn í togi. Margar skemmtilegar
uppákomur eru tengdar Púlla, eins
og eitt sinn þegar hann var á leið í
búðina, að kvöldi til, með vörubíls-
pallinn fullan af glerjum sem hann
ætlaði að selja og fá sér kók, en kók
var í miklu uppáhaldi hjá honum.
Eitt sinn hurfu skór hjúkrunarfor-
stjórans og í fyrstu lá samstarfsfólk
undir grun um að vera stríða við-
komandi en allir sóru þetta af sér.
Mörgum mánuðum seinn sást Púlli á
gangi, í skónum, harla glaður. Hann
vissi upp á sig skömmina þegar mál-
in voru rædd við hann en auðvitað
fékk hann að eiga skóna. Hann vildi
lítið ræða þessi mál síðar. Við eigum
ógrynni af sögum og skemmtilegum
minningum tengdum honum en of
langt mál væri að rekja það hér.
Við viljum þakka Púlla fyrir sam-
veruna og fyrir að hafa kallað fram
allt það besta í okkur. Við kveðjum
með miklum söknuði ljúfan dreng.
Starfsfólk Hraunbúða,
Vestmannaeyjum.
og sé hana fyrir mér, hressa og
glaða og frá henni kemur einhver
hnittin athugasemd með heimatil-
búnum orðum. En þetta er rétt, hún
er farin og ekkert fær því breytt.
Hanna Maja var fimm ára þegar
hún kom fyrst inn á heimilið okkar
á Laugarveginum á Siglufirði. Þar
var á ferð feimin stelpa sem óx og
dafnaði í frábæra unga konu sem
allt lék í höndunum á. Þá var sama
hvort heldur um var að ræða ein-
hvers konar handavinnu eða það
sem hún galdraði fram í eldhúsinu.
Hún bjó fjölskyldu sinni fallegt
heimili þar sem gaman var að
koma, njóta og spjalla. Handa-
vinna, föndur, jólin og jólaundir-
búningur voru sameiginleg áhuga-
mál hjá okkur og gátum við rætt
það áhugamál fram og aftur og
skipst á hugmyndum. Jólin voru
rædd á hvaða árstíma sem var enda
mikið tilhlökkunarefni hjá okkur
jólakerlingunum. Í haust ætluðum
við saman á brúðunámskeið og ekki
efast ég um að þar hefði orðið til fal-
leg brúða, gerð af mikilli þolinmæði,
alúð og natni.
Þegar ég hitti Hönnu Maju dag-
inn sem hún dó brosti hún og sagði:
„Þetta er ég, fer alltaf lengri leið-
ina.“ Þó svo að hennar leið hafi ekki
verið löng skilur hún margt eftir sig
og skarðið er stórt. Það er svo að
gleðin er aldrei ein á ferð. Hún leið-
ir sorgina sér við hlið og eins og við
höfum heyrt verður sorgin að telj-
ast náðargjöf því einn sá getur
syrgt, sem elskað hefur og sá einn
hefur mikið misst, sem mikið hefur
átt.
Er sárast sorg okkar mætir
og söknuður hug okkar grætir,
þá líður sem leiftur af skýjum
ljósgeisli af minningum hlýjum.
(Hallgr. J. Hallgr.)
Í dag þegar við göngum síðustu
skrefin með Hönnu Maju þökkum
við fyrir þær stundir sem við áttum
með henni og ég trúi að söknuðurinn
víki um síðir fyrir birtu minning-
anna.
Elsku Böddi, Lísa Rut, Erik
Helgi, Berta, Sveinn og aðrir að-
standendur, ég votta ykkur mína
dýpstu samúð.
Blessuð sé minning Hönnu Maju.
Fanney Þorsteinsdóttir.
Síðustu dagana í júní tengja lík-
lega fæstir við dauðann. Sólar nýtur
lengur við, gróðurinn hefur tekið vel
við sér eftir vetrardvala og sumar-
leyfistíminn að hefjast. Fólk vakir
gjarnan lengur, nýtur birtunnar og
hins milda veðurs. Fylgist með
fuglaforeldrunum bera mat til
svangra unganna í hreiðrunum og
hlúir að gróðrinum sem tekið hefur
svo vel við sér eftir vetrardvalann
og svo framvegis.
Jónsmessan er sem sagt á flestan
hátt tími upphafs lífsins. Dauðinn er
fjarlægur. Raunveruleikinn segir
hins vegar annað. Jóhanna María
Sveinsdóttir, Hanna Mæja, hafði
ákveðið gangast undir aðgerð á
sjúkrahúsi, aðgerð sem í langfelst-
um tilvikum er talin smávægileg.
Þessi unga kona, móðir tveggja
barna og eiginkona, sneri ekki til
baka. Það dró því fyrir sólu hjá fjöl-
skyldunni og aðstandendum. Bjartir
sumardagar breyttust í langa
myrkvaða daga. Gróðurinn sýndist
ekki lengur iðagrænn. Hanna Mæja
og Björn Gunnar höfðu búið sér og
börnum sínum fallegt og afskaplega
hlýlegt heimili á Akranesi. Hreið-
urgerðin heppnast þar vel, líkt og
fyrra heimili þeirra á Siglufirði.
Eins og hjá fuglunum á Jóns-
messunni eru börnin, Lísa Rut og
Erik Helgi, bráðum að verða svo
gömul að þau geta séð um sig sjálf.
Flogið úr hreiðrinu. Og víst er að vel
hefur verið vandað til alls undirbún-
ings.
Hanna Mæja var greinilega vin-
sæl og vinkonurnar völdu eldhúsið
hennar sem samastað góðra og
notalegra stunda. Í návist hennar
var hægt að hugsa upphátt án þess
að sjá eftir því síðar. Samband fjöl-
skyldna okkar var með ágætum.
Þrátt fyrir að landshlutar skildu
fjölskyldurnar að síðustu árin, var
reglulega talast við í síma. Stund-
irnar sem við áttum saman voru
hins vegar of fáar. Það veit sá sem
allt veit að okkur þykir fráfall
Hönnu Mæju eins óréttlátt og hægt
er að hugsa sér. Lífið rétt um það bil
hálfnað, miðað við lífslíkur hér á Ís-
landi.
Minningin um Hönnu Mæju mun
lifa um ókomin ár. Þegar fram líða
stundir mun Jónsmessutíminn
minna okkur á vin sem nýtur sól-
arinnar og gróandans á öðrum og
betri stað. Við sendum Birni Gunn-
ari, Lísu Rut og Erik Helga sam-
úðarkveðjur og öllum öðrum sem
sárt eiga um að binda. Guð blessi
sómakonuna Jóhönnu Maríu Sveins-
dóttur.
Sem eitt sinn litin yndis-sjón
í ástarhug fær geymst,
sem indælt sönglag eitt sinn heyrt
fær aldrei síðan gleymst,
svo varstu mér, hið væna sprund,
mín vera greip við þér,
og göfug, fögur, góð og blíð
þú gleymdist aldrei mér.
Og því var það, mér brá í brún,
er barst sú fregnin þung
sem þytur lofts úr þrungnum geim,
að þú varst dáin ung,
því einnig eg fann tregans til,
þó tungan mælti fátt.
Eg syrgði þig af hjarta og hug
sem hefði’ eg geð þitt átt.
(Steingrímur Thorsteinsson.)
Jóhanna Hlín Ragnarsdóttir,
Karl Eskil Pálsson og börn.
Þegar okkur barst sú frétt að góð
vinkona okkar, Hanna Mæja, væri
látin, trúðum við því alls ekki. Frétt-
ina þurfti að segja okkur oftar en
einu sinni. Okkur fannst við vera
fastar í óskiljanlegri martröð. Fljót-
lega rann þó upp fyrir okkur að
þetta var staðreynd.
Minningarnar streymdu fljótlega
fram og hugurinn leitaði til bernsku
okkar vinkvennanna á Sigló. Við
vorum jafngamlar, alltaf í sama
bekk í barnaskólanum og gagn-
fræðaskólanum. Við vorum nánast
óaðskiljanlegar á þessum árum.
Ævintýrin sem hægt er að rifja
upp frá uppvaxtarárunum eru því
mörg og ekki síður prakkarastrikin.
Enda gátum við líka hlegið mikið og
innilega þegar fundum okkar bar
saman á fullorðinsárunum. Hanna
Mæja var alltaf til í tuskið þegar átti
að gera eitthvað. En eitt þvertók
hún fyrir að gera með okkur. Hún
spilaði alls ekki á spil. Eins og okkur
fannst gaman að spila vist. Hanna
Mæja lét sig ekki heldur prjónaði
eða föndraði eitthvað á meðan.
Prjónaskapinn og föndrið þróaði
Hanna Mæja með sér og heimili
hennar á Skaganum bar þess svo
sannarlega vitni. Sömuleiðis heim-
ilið þeirra á Sigló. Alls staðar voru
hlutir sem hún hafði sjálf búið til.
Það var mikið gæfuspor þegar
Hanna Mæja giftist Birni Gunnari.
En hvílíkar raunir sem þau áttu eft-
ir að upplifa saman. Bæði börnin
þeirra, Lísa Rut og Erik Helgi,
fæddust eftir aðeins 24 og 26 vikna
meðgöngu. Lísa Rut vó innan við
tvær merkur og Erik Helgi rétt lið-
lega tvær merkur. Skilja þurfti
börnin eftir á spítala fyrir sunnan í
margar vikur en styrkur hjónakorn-
anna var í bæði skiptin ótrúlegur.
Þá reyndi sjálfsagt á sambandið
sem styrktist frekar en hitt. Árin
eftir fæðingu barnanna voru anna-
söm, skiljanlega. Nú, hátt í tveimur
áratugum síðar, blasir framtíðin
björt við hraustum og heilbrigðum
unglingum. Hvílíkt lán, hvílík gæfa.
Leiðir okkar vinkvennanna skildi
fyrir nokkrum árum. Hanna Mæja
flutti búferlum til Akraness, Anna
til Akureyrar en Stína passar fyrir
okkur æskustöðvarnar, Siglufjörð.
Sambandið slitnaði en þegar við
hittumst vorum við sammála um að
sambandið væri síður en svo á enda.
Enda við stelpurnar á besta aldri.
Við ætluðum sko sannarlega að
bralla ýmislegt saman í ellinni.
Enda vanar ýmsum uppátækjum frá
því í æsku! Ekki málið! Sá tími mun
hins vegar aldrei renna upp í þessu
lífi. Okkur sem eftir sitjum er það
nú loks ljóst. Hanna Mæja er farin.
Martröðin er raunveruleg. Hanna
Mæja sem átti svo sannarlega skilið
að njóta þess að sjá á eftir börn-
unum sínum út í lífið eftir allt sem á
undan hafði gengið. Og svo auðvitað
að prjóna á allt liðið! Við þökkum
góðri vinkonu fyrir allar þær sam-
verustundir sem við áttum saman.
Við varðveitum þær í huganum, uns
við hittumst á nýjum stað. Þá verður
hægt að taka upp þráðinn að nýju.
Með þessum orðum kveðjum við Jó-
hönnu Maríu Sveinsdóttur, Hönnu
Mæju.
Við sendum innilegustu samúðar-
kveðjur til Björns Gunnars, Lísu
Rutar, Eriks Helga, Bertu, Sveins,
Eivorar og annarra aðstandenda.
Anna Júlíusdóttir og
Kristín Bogadóttir.
Fleiri minningargreinar um Jó-
hönnu Maríu Sveinsdóttur bíða
birtingar og munu birtast í blaðinu
næstu daga.