Morgunblaðið - 15.01.2002, Page 43
MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 15. JANÚAR 2002 43
✝ Ásdís MargrétGuðjónsdóttir
fæddist í Saurbæ á
Vatnsnesi í Vestur-
Húnavatnssýslu 11.
apríl 1922. Hún lést
á hjúkrunarheim-
ilinu Eir 5. janúar
síðastliðinn. Foreldr-
ar hennar voru Guð-
jón Guðmundsson
bóndi í Saurbæ, f. 27.
maí 1893, d. 27. júlí
1975, og Ragnheiður
Björnsdóttir hús-
freyja í Saurbæ, f.
14. maí 1890, d. 8.
apríl 1947. Systkini Ásdísar eru:
1) Jónas Þorbergur, f. 4.11. 1916,
maki: Ingibjörg Björnsdóttir, f.
20.11. 1918. 2) Björn, f. 17.5.
1919, d. 27.3. 1989, sambýliskona:
Vigdís Bjarnadóttir, f. 12.11.
1925. 3) Þorgrímur Guðmundur,
f. 18.11. 1920, d. 14.4. 1985, maki:
Lilja Björnsdóttir, f. 12.3. 1921.
4) Hólmfríður Þóra, tvíburasystir
Ásdísar, f. 11.4. 1922, maki: Frið-
rik Jónsson, f. 21.7. 1908, d. 6.11.
1986. 5) Gunnar, f. 7.8. 1925, d.
12.2. 1995, maki: Sólveig Sigurð-
ardóttir, f. 8.8. 1922. 6) Ólafur, f.
1.6. 1928, d. 12.2. 1975, maki:
Ingibjörg Guðlaug Jónsdóttir, f.
22.6. 1926. Hálfsyst-
ir Ásdísar, sam-
feðra, dóttir Ólafar
Magnúsdóttur, f.
21.7. 1896, d. 3.11.
1982: 7) Rósa, f.
25.4. 1933, maki
Magnús Jónsson, f.
6.9. 1933.
Ásdís ólst upp hjá
foreldrum sínum í
Saurbæ. Hún fór til
náms í Kvennaskól-
ann á Blönduósi
1941–1942, flutti til
Reykjavíkur rúm-
lega tvítug og vann
þar ýmis störf. Hún fór til Kaup-
mannahafnar og lærði þar að
sníða og sauma í fjögur ár. Eftir
námið réð hún sig sem þernu til
Eimskipafélagsins. Hún vann á
Gullfossi og Brúarfossi. Eftir að
Ásdís hætti störfum hjá Eimskip
hóf hún störf við saumaskap og
stofnaði Klæðagerðina Elísu og
Elísubúðina ásamt fleirum. Ásdís
seldi hlut sinn í Elísu og vann síð-
an í nokkur ár hjá Vinnufatagerð
Íslands. Hún var ógift og barn-
laus.
Útför Ásdísar verður gerð frá
Háteigskirkju í dag og hefst at-
höfnin klukkan 13.30.
Dísa frænka. Þetta nafn bar hún
föðursystir mín í mínum huga og var
það sveipað dálítilli dulúð og spenn-
ingi fyrir framandi hlutum og stöðum.
Systur mínar, Ragnheiður og Hrafn-
hildur, sögðu mér sögur frá heim-
sóknum sínum til Dísu í skipið Gull-
foss en þar starfaði hún sem
skipsþerna í mörg ára. Einhvers stað-
ar djúpt í hugskoti minninganna er
heimsókn í skip til að taka á móti
Dísu. Hvort þetta er mín endurminn-
ing eða frásögur systra minna get ég
ekki greint á milli. Í farteski Dísu
voru oft hlutir sem ekki voru aðgengi-
legir eða fengust hreinlega ekki á
þessum tíma hér á landi og þetta fékk
ég að heyra hjá systrum mínum. Í
heimsóknum til Dísu var ýmislegt á
boðstólum, margt forvitnilegt að
skoða og margt sem gaf gott bragð í
munninn. Framandlegir hlutir,
myndir, frásagnir af vinum í öðrum
löndum og framkoma Dísu við mig
drenginn eins og maður væri eitthvað
sérstakur. Allt þetta gerði það að
verkum að Dísa var frekar sem álf-
kona í mínum augum heldur en systir
hans pabba míns.
Síðar komu ógleymanleg matarboð
hjá Dísu með margréttuðum mat og
fordrykkjum sem maður þekkti ekki
til og vera hennar með okkur um jólin
var föst hefð í jólahaldinu.
Hrafnhildur, systir mín, og Rafn
maður hennar eignuðust dóttur á
fæðingardegi Dísu og Fríðu, tvíbura-
systranna. Dóttirin var skírð Ásdís
Margrét í höfuðið á Dísu. Þá hófst nýr
kafli í lífi hennar og barnið fékk
óskipta athygli hennar og foreldra
minna sem fyrsta barnabarn.
Það var ljúft fyrir fjölskyldu mína
að heimsækja Dísu í Stórholtið og
sást þá í augum Lilju dóttur minnar
undrun og gleði yfir ýmsu sem þar
var í boði. Vegna heyrnarskerðingar
sinnar þurfti Lilja að vera um tíma í
Reykjavík átta ára gömul. Þá var það
Dísa frænka sem sótti hana á daginn
þegar hún var búin í skólanum og
saman ferðuðust þær í strætó um alla
Reykjavík, versluðu, skoðuðu sig um
og gerðu hitt og annað. Þetta var
ógleymanlegt fyrir Lilju dóttur mína.
Dísa kom nokkrum sinnum til
Hvammstanga í heimsókn til okkar
og til að hitta aðra ættingja og vini frá
því hún var að alast upp í Saurbæ á
Vatnsnesi. Er eitt skiptið mjög minn-
isstætt.
Það var á einstökum góðviðrisdegi
að við ókum út á Vatnsnes. Í róleg-
heitum var þá margt rifjað upp er far-
ið var framhjá Kárastöðum, Stöpum,
Illugastöðum og síðan var ekið upp í
dal og áð á Ásbjarnarstöðum. Í gegn-
um Saurbæjarland var ekið mjög ró-
lega og meðal annars benti hún mér á
hólmana sem pabbi hennar og systk-
inin bjuggu til í tjörninni og komu þar
upp æðarvarpi. Leiðin lá síðan inn
Síðuna og inn í Vesturhópið og þar
var farið heim að Syðri-Þverá þar
sem Auðbjörg, ein af hennar dyggu
æskuvinkonum, bjó. Þar varð Dísa
eftir og gisti um nóttina. Þessi ferð
var okkur, fjölskyldu minni, mjög
ánægjuleg og minnisstæð.
Dísa frænka var ákveðin kona sem
hafði ekki alltaf þolinmæði handa öðr-
um en gerði miklar kröfur til sjálfrar
sín. Hún var vinum sínum trygg og
trú og systkinabörnum sínum alveg
meiri háttar eins og börnin segja í
dag.
Dísa greindist með Alzheimer í árs-
byrjun 1993. Borið hafði á þessu
nokkru fyrr. Þetta var mjög þung-
bært og erfitt fyrir alla. Í byrjun var
reynt að hjálpa Dísu til að vera heima
eins lengi og hægt var en hún bjó ein í
íbúð sinni. Meðal annars var reynt að
tryggja öryggi hennar og annarra
með hita- og reykskynjurum en
drýgst var þó unga fólkið sem bjó með
henni í húsinu. Dísa komst inn í
Foldabæ, stoðbýlið við Logafold, um
mitt ár 1994 og var þar í rúm tvö ár.
Erla Valtýsdóttir, sem verið hafði
heimilishjálp Dísu síðasta árið í Stór-
holtinu, fylgdi henni upp í Logafold
og vann þar. Erla, Guðrún forstöðu-
kona heimilisins og annað starfsfólk
reyndist Dísu einstaklega vel og skal
það þakkað sérstaklega hér.
Í Logafold átti ég oft ljúfsárar
heimsóknir. Í huga hennar Dísu var
ég oft orðinn að föður mínum en Þor-
grím son minn ávarpaði hún með
mínu nafni.
Skortur var á hjúkrunarrýmum
fyrir þessa sjúklinga en hún komst
inn á Hjúkrunarheimilið Eir í lok árs
1996 og dvaldist þar allt til dauða-
dags. Á Eir naut hún góðrar aðhlynn-
ingar hjá starfsfólki sem vinnur erfitt
starf við aðhlynningu sjúklinga eins
og hennar. Sérstaklega viljum við að-
standendur Dísu þakka Jónu frænku,
systurdóttur Dísu, og öðru starfsfólki
á Eir sem annaðist hana.
Ég vil fyrir mína hönd og Ragn-
heiðar systur minnar sem býr í Sví-
þjóð nota þetta tækifæri og þakka
Hrafnhildi systur okkar og Rafni
manni hennar fyrir að standa oft
langa og stranga vakt.
Ég bið góðan Guð að varðveita þig,
Dísa frænka, og veit að minningin um
þig mun lifa áfram með okkur.
Björn Ingi Þorgrímsson.
Í dag kveðjum við hinstu kveðju
Ásdísi Margréti Guðjónsdóttur, áður
til heimilis í Stórholti 45.
Andlát hennar kom ekki á óvart. Til
margra ára var hún sjúk af Alzheimer
og heilsu hennar hrakaði stöðugt.
Hvort hún gerði sér fulla grein fyrir
því vitum við ekki. Enginn veit, hvað í
annars huga býr, hvað þá þegar fólk
getur ekki tjáð sig með orðum.
Ásdís var ógift og barnlaus en hún
átti stóra fjölskyldu. Systkini hennar
voru sjö, þar af fimm bræður og tvær
systur. Önnur var tvíburasystir henn-
ar en hin hálfsystir, samfeðra. ,,Dísa
frænka“, eins og hún var oft kölluð af
frændfólki sínu, hélt hópnum vel sam-
an. Hún átti íbúð og bjó sér þar fallegt
heimili. Þangað bauð hún frændfólki
og vinum og hafði bæði getu og kunn-
áttu til að veita vel enda voru heimboð
hennar rómuð fyrir rausn og smekk-
vísi. Hjá systkinum sínum var hún
sannkallaður aufúsugestur.
Þannig var það til margra ára en
svo kom ógæfan í líki ólæknandi sjúk-
dóms sem hún barðist við í mörg ár.
Ásdís var fædd 11. apríl 1922 í
Saurbæ á Vatnsnesi ásamt tvíbura-
systur sinni Hólmfríði. Þrír bræður
voru eldri en þær, Jónas, Björn og
Þorgrímur.
,,Blessun fylgir barni hverju,“ segir
gamalt máltæki. Með mikilli vinnu og
hagsýni bjargaðist þetta allt vel og
börnin urðu fleiri. Við bættust tveir
synir, Gunnar og Ólafur. Við, sem
eldri erum, vitum að allir urðu að
leggja sitt af mörkum svo fjölskyldan
kæmist sæmilega af. Unglingar fóru
að vinna störf fullorðinna svo fljótt
sem kostur var. Þetta átti líka við um
systkinin í Saurbæ. Þau lágu ekki á
liði sínu enda urðu þau öll dugnaðar-
fólk.
Ég, sem þetta rita, er gift elsta
bróðurnum, þeim eina sem nú er á lífi.
Ég þekkti Ragnheiði tengdamóður
mína síðustu fimm árin af ævi hennar.
Hún var aðeins 57 ára þegar hún lést.
Hún var mikil og hagsýn húsmóðir og
börnum sínum ákaflega góð móðir.
Það sama gilti um tengdabörnin þeg-
ar þau bættust við. Öll gáfum við
börnum okkar nafn hennar, oftast
sem aðalnafn.
Guðjón í Saurbæ var greindur,
glaðsinna og skemmtilegur maður,
hjónin bæði bráðdugleg og komu
barnahópnum sínum vel til manns.
Saurbæjarsystkinin voru dugleg og
verklagin. Til dæmis Ásdís sem var
úrvals saumakona.
Eins og önnur sveitabörn var Ásdís
í farskóla. Seinna fór hún í Kvenna-
skólann á Blönduósi 1941–1942. Þeg-
ar hún var rúmlega tvítug fór hún til
Reykjavíkur og vann þar við ýmis
þjónustustörf svo sem á Landspítal-
anum og fleiri stöðum. En löngunin til
að fara víðar brann henni í brjósti.
Hún fór til Kaupmannahafnar og
vann þar fyrst algeng þjónustustörf
en fór svo að læra að sníða og sauma
fatnað. Þannig liðu fjögur ár.
Þá flutti hún aftur til Íslands og réð
sig fljótlega sem þernu hjá Eimskipa-
félaginu, var í mörg ár á Gullfossi og
síðar Brúarfossi. Alls staðar var henni
viðbrugðið fyrir dugnað. En það er
hægt að fá nóg af sjónum og hún fór í
land og hóf störf við fatagerð. Um
þetta leyti keypti hún sér íbúð í Stór-
holti 45 og stofnaði ásamt fleirum
Klæðagerðina Elísu og seinna Elísu-
búðina.
Þessi fatagerð varð þekkt fyrir
vandaða framleiðslu og gekk vel um
nokkurra ára skeið. Þarna hafði Ásdís
umsjón, sneið og sagði fyrir verkum,
ásamt konu sem einnig var meðeig-
andi, Ingibjörgu Hallgrímsdóttur.
Ásdís var vandvirk og ósérhlífin og
ætlaðist til mikils af sjálfri sér og
einnig þeim sem hjá henni unnu.
Þetta var á þeim tíma sem rýmkað
var um innflutning og byrjað að flytja
inn óvandaðan og ódýran fatnað. Það
varð ofurefli fyrir Elísufötin að keppa
á þessum grundvelli. Þetta sá Ásdís,
seldi sinn hlut í fyrirtækinu og fór að
vinna hjá Vinnufatagerð Íslands.
Eins og áður er vikið að var Dísa
frænka nokkurs konar miðpunktur
fjölskyldunnar. Þorgrímur bróðir
hennar hafði þó nokkra sérstöðu.
Hann var kvæntur góðri vinkonu Ás-
dísar, Lilju Björnsdóttur frá Neðri-
Þverá í Vesturhópi. Hjá þeim var
hún um jól og áramót og börn hennar
urðu henni öðrum frændbörnum
kærari. Hrafnhildur, dóttir Þor-
gríms og Lilju, eignaðist stúlkubarn
á afmælisdegi Ásdísar, sem hlaut
nafnið Ásdís Margrét, og eftir það
fannst okkur Dísa frænka vera kom-
in í ömmuhlutverkið. Ef til vill hefur
Ásdís haft eitthvert hugboð um að
hún gæti átt erfiðleika í vændum. Eft-
ir lát Þorgríms bróður síns bað hún
Hrafnhildi að sjá um sín mál þegar
ellin færi að gera vart við sig. Hrafn-
hildur varð við þessari bón ásamt
manni sínum, Rafni Kristjánssyni
byggingartæknifræðingi og átti hann
drjúgan hlut í þeirri hjálp. Varla
hefðu þau getað reynst móður sinni
betur en þau reyndust Ásdísi hin síð-
ustu ár.
Þegar Ásdís var ekki lengur fær
um að sjá um sig sjálf þurfti hún að
komast á stofnun. Í heimi sjúklinga
eru margir um hvert rými og oftar en
ekki koma þeir að lokuðum dyrum.
Rafn og Hrafnhildur gáfust ekki
upp. Þau komu henni fyrst í Foldabæ
og síðar á Eir. Þar var hún þegar hún
lést.
Við ættingjar og venslamenn Ás-
dísar Margrétar Guðjónsdóttur þökk-
um af heilum hug Hrafnhildi og Rafni
fyrir þeirra miklu hjálp og umönnun.
Starfsfólki í Foldabæ og á Eir
þökkum við einnig frábæra um-
hyggju, hjúkrun og hlýju.
Hér er merk kona til moldar borin.
Henni fylgja hjartans þakkir og
kveðjur.
Ingibjörg Björnsdóttir.
Við systkinin viljum hér með
nokkrum orðum minnast uppáhalds-
frænku okkar, hennar Dísu. Við vor-
um eins og ömmubörnin hennar. Hún
var piparkerling eins og hún kallaði
sig sjálf og vildi allt fyrir okkur gera.
Það voru ófá skiptin sem við gistum
hjá Dísu en hún eldaði alltaf það sem
okkur langaði í og lét yfirleitt allt eftir
okkur. Hún var víðförul og ferðaðist
mikið. Þegar hún kom til baka var
hún hlaðin nammi og gjöfum. Hún var
alltaf til staðar fyrir okkur og
reiðubúin að eyða tíma með okkur og
passa okkur. Dísa var alltaf hress og
fór með okkur í leikhús, bíó, tívolí á
Miklatúni og niður Laugaveginn.
Það var því erfitt fyrir okkur að
horfa upp á Dísu fá Alzheimer sjúk-
dóminn. Hún sem var svo skipulögð
og með allt á hreinu. Það var einnig
mjög erfitt fyrir hana sjálfa því að hún
vissi vel af því sem var að gerast. En
við gerðum okkar besta, heimsóttum
hana, hlógum og spjölluðum um
gamla tíma.
Við kveðjum nú Dísu frænku okkar
með hlýhug og óskum að góður Guð
geymi hana.
Ásdís Margrét Rafnsdóttir og
Ólafur Þór Rafnsson.
Hvað boðar nýárs blessuð sól?
Hún boðar náttúrunnar jól,
hún flytur líf og líknarráð,
hún ljómar heit af Drottins náð.
(M. Joch.)
Nýtt ár er rétt í garð gengið þegar
elskuleg vinkona okkar, Ásdís, kveð-
ur þennan heim. Undanfarin ár hefur
Alzheimer-sjúkdómurinn herjað á
hana og hægt og bítandi náð yfir-
höndinni þannig að löngu áður en lík-
aminn gafst upp hvarf sálin á braut.
Nú þykir okkur sem líkami og sál séu
aftur eitt og að við getum kvatt Dísu
okkar og trúað að hún sé komin á
æðra stig hjá almættinu.
Við kynntumst í blóma lífsins. Lífið
var framundan bjart og gott, sól í
heiði. Sumar okkar kynntust og unnu
með Dísu á ms. Gullfossi, en þar var
hún þerna í nokkur ár og síðan á Brú-
arfossi og fór þá oft til Bandaríkj-
anna. Þetta var góður og skemmti-
legur tími. Dísa hafði áður dvalist við
nám í Kaupmannahöfn og var útskrif-
aður kjólameistari þaðan. Alla tíð
unni hún borginni við sundin og gam-
an var að vera með henni þar, enda
þekkti hún sig þar út og inn. Eftir að
Dísa kom í land stofnaði hún versl-
unina Elísu og Klæðagerðina Elísu
ásamt fleirum. Vann hún og rak fyr-
irtækið árum saman af sínum alkunna
dugnaði og myndarskap eða allt þar
til heilsan fór að bila.
„Gullfossklúbbinn“ stofnuðum við
vinkonurnar fyrir hart nær 40 árum
og eru samverustundirnar margar og
góðar. Alltaf var gaman og gott að
koma í heimsókn í Stórholtið til Dísu á
hennar notalega heimili með vönduð-
um húsgögnum og munum, flestum
frá Kaupmannahöfn. Marga hlutina
hafði hún líka sjálf saumað eða útbúið
enda stórflink í höndunum. Hún
kunni þá list að vera slíkur gestgjafi
að öllum leið vel og við minnumst
þeirra stunda með gleði. Hún lét sér
annt um okkur og börn okkar, sannur
vinur vina sinna. Öll þessi ár hefur líf
okkar verið samtvinnað og við tekið
þátt í gleði og sorg hver annarrar.
Góðir vinir eru dýrmætir í lífinu jafnt
á fagnaðarstund sem í mótlæti. Mörg
skörð hafa verið höggvin í hópinn –
blessuð sé minning þeirra sem horfn-
ar eru.
Á kveðjustund er okkur efst í huga
þakklæti til okkar góðu og vönduðu
vinkonu fyrir samfylgdina. Guð blessi
minningu hennar.
Við vottum aðstandendum hennar
innilega samhug.
„Gullfossklúbburinn“.
„Jesús sagði: Komið til mín allir
þér sem erfiði hafið og þungar byrðar,
og ég mun veita yður hvíld.“ (Matt
11:28.)
Það var fyrir um það bil níu til tíu
árum að ég kynntist Ásdísi eða Dísu
eins og hún var kölluð. Ég var að
byrja að vinna við heimaþjónustu og
kveið svolítið fyrir að fara inn á heim-
ili sem ég þekkti ekki, en fyrsti stað-
urinn sem ég átti að fara á var í Stór-
holti, til konu sem mér var sagt að
væri ansi ákveðin en strax og við vor-
um orðnar einar hvarf hnúturinn úr
maganum.
Strax komum við okkur upp góðri
verkaskiptingu, því ekki kom til
greina að Dísa sæti auðum höndum
svo við ruppuðum bara þrifunum af
og fórum á flandur. Við löbbuðum
Laugaveginn oft og enduðum inni á
kaffihúsi drekkandi kakó. Ef veðrið
var ekki nógu gott þá fórum við bara í
bíltúr. Þegar minnið var farið að
svíkja þig og þú mundir ekki að ég
hafði átt að koma þá var ég farin að
vita hvert þú hafðir farið og alltaf
ljómaðir þú eins og sól þegar ég sá þig
annað hvort í bankanum eða búðinni
að versla því gestrisin varstu og alltaf
að hugsa um að nóg væri til.
Hrafnhildur frænka þín var stór og
ómetanlegur hluti af þínu lífi. Hún og
hennar fjölskylda voru þín stoð og
stytta í veikindum þínum. Hún sá
þegar þú gast ekki lengur verið heima
og fékk fyrir þig inni í Foldabæ. Ég
gat ekki hugsað mér að hætta hjá þér
svo ég fékk vinnu á sama stað og var
þar rúmlega þann tíma sem þú varst
þar.
Alltaf virtist þú þekkja mig og gekk
okkur alltaf vel að gera hlutina. Þú
þurftir alltaf að hafa eitthvað í hönd-
unum því iðjuleysi átti ekki við þig.
Nú ertu búin að fá hvíld og ég trúi
því að þér sé ætlað mikið hlutverk hjá
Guði. Ég þakka fyrir að hafa fengið að
kynnast þér.
„Verið því eigi hryggir, því að gleði
Drottins er hlífiskjöldur yðar.“ (Neh
8:10.)
Erla Valtýsdóttir.
ÁSDÍS MARGRÉT
GUÐJÓNSDÓTTIR