Morgunblaðið - 02.03.2002, Page 6
FRÉTTIR
6 LAUGARDAGUR 2. MARS 2002 MORGUNBLAÐIÐ
GEÐHJÁLP er félagsskapur sem
stofnaður var formlega haustið 1979.
Félagið hefur barist fyrir hags-
munum geðsjúkra og aðstandenda
þeirra og stuðlað að fræðslu um geð-
raskanir. Geðhjálp hefur verið með
aðstöðu á Túngötu 7 í Reykjavík frá
vordögum 1999 þegar húsið var
formlega tekið í notkun. Haustið áð-
ur hafði félagið fengið húsnæðið af-
hent frá ríkinu, sem hafði nokkru áð-
ur fengið það að gjöf frá Önnu E.Ó.
Johnsen, ekkju Gísla J. Johnsen,
stórkaupmanns og konsúls, en Anna
setti það sem skilyrði að húsið yrði
notað undir líknarstarf. Húsið stóð
ónotað í mörg ár og þurfti á miklum
endurbótum að halda. Það hefur nú
fengið fyrri glæsileika en húsið var
byggt á árunum 1946–47 og teiknað
af Einari Erlendssyni arkitekt. Þor-
geir Jónsson arkitekt sá um að
hanna endurbæturnar á húsnæðinu
en reynt var eftir megni að líkja sem
mest eftir upprunalegu útliti þannig
að skapa mætti sem heimilislegastar
aðstæður.
Er okkur bar að garði í vikunni
tóku á móti gestunum þau Sveinn
Magnússon, framkvæmdastjóri Geð-
hjálpar, og Auður Axelsdóttir iðju-
þjálfi. Auk þeirra eru í launuðum
störfum í húsinu forsvarsmaður fé-
lagsmiðstöðvar, Ingibjörg Gunn-
laugsdóttir, Jóhanna Guðlaug Er-
lingsdóttir ritari, Jónína G.
Kjartansdóttir matráðskona og Stef-
anía M. Ágústsdóttir, starfsmaður
við mötuneyti og ræstingar.
Labradorhundurinn Varði, sem
Sveinn á, var á vappi um húsið en
hann er í raun orðinn sjöundi starfs-
maðurinn sem tryggur vinur margra
fastagesta hússins. Þau Sveinn og
Auður kynntu starfsemina sem fram
fer innan dyra fyrir Morgunblaðs-
mönnum en að þeirra sögn koma 60–
70 manns að jafnaði á dag í Túngötu
7 og hátt á fjórða tug fólks þiggur
heitar og heimilislegar máltíðir í
mötuneytinu á niðurgreiddu verði
alla daga ársins, jafnt virka daga sem
um hátíðir. Er við vorum á ferðinni
var einmitt farin að liðast um húsið
girnileg matarangan og eftir því sem
nær dró hádeginu fjölgaði þeim sem
komu til að setjast að snæðingi.
Endurbætur fyrir söfnunarfé
frá Kiwanis-hreyfingunni
Fyrir 15,5 milljóna króna söfn-
unarfé frá Kiwanis-hreyfingunni,
með sölu K-lykilsins, var ráðist í end-
urbætur á húsinu og ríkið kom með
20 milljóna kr. mótframlag. Húsið er
540 fermetrar að stærð á fjórum
hæðum ef kjallari og ris eru með-
talin. Túngata 7 er um leið fé-
lagsmiðstöð Geðhjálpar ásamt því að
vera afdrep stjórnar félagsins og
starfsmanna sem alls eru sex í fimm
og hálfu stöðugildi. Einnig eru þar
tvær litlar íbúðir og tveir starfsmenn
verkefnisins Geðrækt hafa aðstöðu í
húsinu. Áður hefur verið minnst á
mötuneytið og nýlega var tölvuver
sett upp í kjallaranum. Ýmis önnur
aðstaða er þar til húsa ásamt smíða-
verkstæði í áföstum bílskúr.
Félagsmiðstöð Geðhjálpar er opin
frá kl. 9–17 yfir veturinn og frá kl. 8–
16 á sumrin, alla virka daga. Þar er
heitt á könnunni alla daga og fjöl-
breytt dagskrá í gangi fyrir þá sem
hana vilja nýta. Boðið er upp á að-
gang að tölvuveri, ýmsa virkni og fé-
lagsskap. Fastir húsfundir eru einu
sinni í viku og unnið er að því að efla
hópastarf.
Sveinn sagði að Geðhjálp velti um
30 milljónum króna á ári og þar af
væri framlag ríkis og borgar um
35%. Afgangurinn væri sjálfsaflafé
félagsins. Til langs tíma nam op-
inbert fjármagn um 20% af rekstr-
inum. Sveinn benti á að hjá sambæri-
legum félögum erlendis væri þessum
hlutföllum öfugt farið.
Þar til að Túngata 7 kom til sög-
unnar hafði Geðhjálp verið í hálf-
gerðum húsnæðishrakningum alveg
frá stofnun félagsins en fyrsta fé-
lagsmiðstöðin var tekin í notkun við
Bárugötu árið 1982. Til ársins 1999
var félagið í leiguhúsnæði víða um
borgina, auk Bárugötu var það m.a.
við Öldugötu og í Hafnarbúðum.
Efla á starfsemina í húsinu
Auður Axelsdóttir hefur ekki verið
lengi að störfum sem iðjuþjálfi hjá
Geðhjálp, eða síðan í desember sl.
Áður hafði hún starfað á geðdeild
Landspítalans til nokkurra ára og
hefur því mikla reynslu af því að
starfa með geðfötluðum. Hún sagði
sitt helsta verkefni að efla starfsemi
félagsins í húsinu og fá neytendur til
að hafa áhrif á þjónustuna sem væri í
boði, jafnt innan húss sem utan.
Mætti í því sambandi nefna neyt-
endahóp sem væri nýlega kominn í
gang. Auður sagði að þetta starf væri
í mótun hjá Geðhjálp, byrjunin lofaði
góðu og félagið mætti velvild allra.
Hún hefur einnig unnið að því að
efla hópastarf þannig að það hentaði
breiðum hópi fólks og gæti nýst til
endurhæfingar, allt eftir færni hvers
og eins. Að sögn Auðar hefur starf
aðstandenda sömuleiðis verið aukið,
en meðal fjögurra sjálfshjálparhópa,
sem koma reglulega saman til funda
í húsinu, er aðstandendahópur. Hún
vildi líka koma þeim skilaboðum á
framfæri frá aðstandendum um að
hvetja fleiri til að vera í sambandi við
hópinn. Til viðbótar eru starfandi
eineltishópur, geðhvarfahópur og
fælni- og kvíðahópur. Þeim er ætlað
að deila reynslu sinni með öðrum og
hlusta á hvað aðrir hafa að segja.
Auður sagði góða reynslu vera af
þessu hópastarfi.
„Húsið er öllum opið, jafnt sjúk-
lingum sem aðstandendum þeirra, en
við viljum efla starfsemi Geðhjálpar
enn frekar og koma fleiri verkefnum
af stað. Við reynum að hafa aðstæður
allar sem heimilislegastar og lítum
heldur ekki á húsið sem einhverja
stofnun. Það er af og frá. Miklu
skiptir að gestirnir upplifi hér þægi-
legt viðmót og virðingu,“ sagði Auð-
ur og Sveinn tók undir þetta. Sagði
það vera eitt meginmarkmið félags-
ins í dag að virkja sem flesta til að
hjálpa bæði sér og öðrum.
Þau sögðu að auk mikils gesta-
gangs væri mikið hringt í Geðhjálp,
símalínurnar væru á stundum
rauðglóandi, og reynt væri eftir
megni að sinna öllum erindum sem
mest og best. Þetta sannaðist vel þá
rúmu klukkustund sem heimsókn
blaðamanns og ljósmyndara stóð yfir
en það var rétt svo að Sveinn og Auð-
ur gætu gefið gestum sínum tíma,
svo mikill var erillinn.
Höggva þarf á hnút
milli félagsmálakerfisins og
heilbrigðisgeirans
Sveinn sagði að eitt mikilvægasta
verkefni Geðhjálpar í dag væri að
koma á virkara samstarfi þeirra aðila
sem á einn eða annan hátt ynnu að
málefnum geðsjúkra. Hann sagði að
töluvert vantaði upp á að þetta sam-
starf gengi sem best, samskiptin
væru á stundum frekar stíf. Höggva
þyrfti á hnút milli félagslega kerf-
isins og heilbrigðisgeirans.
„Við höfum verið í góðu samstarfi
við landlækni og viðræður standa yf-
ir meðal annars um stöðu þeirra 60
einstaklinga sem haldnir eru alvar-
legum geðröskunum og eru heim-
ilislausir. Geðhjálp er einnig í sam-
starfshópi fagaðila er koma að
málefnum geðsjúkra um bætta þjón-
ustu við þennan hóp. Þessir ein-
staklingar hafa brennt allar brýr að
baki sér, sjúkdómsins vegna, og
þeim er ekki sinnt. Einnig er fjöldi
geðsjúkra einstaklinga í eigin hús-
næði sem standa frammi fyrir því að
vegna kvartana frá nágrönnum, sem
hafa misst alla þolinmæði, eru þeir
bornir út án þess að varanleg lausn
finnst. Þeir fara bara í annað hús-
næði og vandinn endurtekur sig. Úr-
ræðaleysið er algjört en sem fyrr
hefur málið strandað á fjármagns-
skorti. Landlæknir hefur tekið vel í
okkar erindi og lofað að taka á mál-
inu,“ sagði Sveinn.
Hann benti meðal annars á að eitt
meginmarkmið landssöfnunarinnar
væri að afla fjár til að koma á fót nýj-
um meðferðarúrræðum og atvinnu-
tækifærum í formi starfsendurhæf-
ingar fyrir geðsjúka.
Auður tók undir með Sveini um
mikilvægi þess að efla samstarf Geð-
hjálpar við aðra aðila innan heil-
brigðiskerfisins, einkum þá sem geð-
sjúkum er vísað á þegar aðstoðar er
þörf. Hún sagði frá því að í norrænu
samstarfi fyrir tveimur árum hefði
verið unnið að því að kortleggja þá
þjónustu sem geðsjúkum væri boðið
upp á í samfélaginu. Geðhjálp hefði
komið að því starfi ásamt öðrum fag-
aðilum. Þá hefði berlega komið í ljós
að tengingu vantaði milli þessara að-
ila og koma þyrfti á einhvers konar
teymishópi eða upplýsingamiðstöð
sem samhæfði allar aðgerðir varð-
andi meðferð og annað því tengt, og
væri starfandi allan sólarhringinn.
„Menn eru ekki bara geðsjúkir
milli klukkan níu og fimm,“ skaut
Sveinn inn í og tók sem dæmi um að-
kallandi verkefni að koma á símalínu
sem hægt væri að hringja í allan sól-
arhringinn. Fá þyrfti fagfólk og fólk
með persónulega reynslu til að sinna
því verkefni og sagði Sveinn vel hægt
að koma upp aðstöðu í Túngötunni
fyrir þjónustu sem þessa. Þarna
mætti t.d. koma á samstarfi við geð-
deild Landspítalans.
Eyða þarf fordómum
Geðhjálp er í samstarfi við ýmis
innlend samtök eins og Ör-
yrkjabandalagið og Rauða krossinn
vegna athvarfa sem þau starfrækja.
Þá er gott samstarf við Geðvernd-
arfélagið og klúbbinn Geysi. Geð-
hjálp er einnig í samstarfi við sam-
bærileg félög erlendis, einkum á
Norðurlöndunum og í Evrópu, og er
aðili að alþjóðasamtökum geðfatl-
aðra. Sveinn sagði að þar á milli
skiptust menn á upplýsingum og
fróðleik sem kæmi að gagni í barátt-
unni við geðsjúkdóma og ekki síst þá
fordóma sem ríkja í öllum sam-
félögum gagnvart fólki með geðrask-
anir. Eyða þyrfti einnig fordómum
meðal geðsjúkra sjálfra.
Með þessum orðum kvöddum við
Svein og Auði og þökkuðum fyrir
fróðleikinn og móttökurnar. Það var
líka kominn tími fyrir þau að komast
í mötuneytið áður en maturinn klár-
aðist.
Valdimar Viðar Leifsson, fjær, og Gísli Óskarsson nýta sér tölvuverið í húsi Geðhjálpar. Mötuneytið hjá Geðhjálp sækja daglega 30 til 40 manns, en boðið er upp á heitar máltíðir.
Morgunblaðið/Golli
Sveinn Magnússon og Auður Axelsdóttir fyrir framan húsnæði Geðhjálpar að Túngötu 7.
Ekki stofnun
heldur hús sem
er öllum opið
Í tilefni landssöfnunar Geðhjálpar í dag heimsóttu
Björn Jóhann Björnsson og Kjartan Þorbjörnsson
höfuðstöðvar félagsins á Túngötu 7 í Reykjavík og
kynntu sér fjölbreytta starfsemi sem þar fer fram.
bjb@mbl.is
Á HEIMASÍÐU Geðhjálpar,
www.gedhjalp.is, má nálgast upp-
lýsingar um landssöfnunina en há-
punktur hennar verður í kvöld í
Sjónvarpinu í þætti Steinunnar
Ólínu Þorsteinsdóttur, Milli himins
og jarðar. Einnig munu Kiwanis-
menn ganga í hús um land allt með
söfnunarbauka.
Minnt er á söfnunarnúmerin,
590-7070 fyrir frjáls framlög og
907-2070 fyrir 1.000 kr. fast fram-
lag sem skuldfærist sjálfkrafa af
símreikningnum. Þá er Geðhjálp
með reikning í SPRON þar sem
leggja má inn framlög. Númerið er
1158-26-65000.
Landssöfnun
Geðhjálpar