Morgunblaðið - 14.10.2003, Blaðsíða 6
FRÉTTIR
6 ÞRIÐJUDAGUR 14. OKTÓBER 2003 MORGUNBLAÐIÐ
Nú bjóðum við síðustu sætin í sólina í 3 vikur á
hreint ótrúlegu verði. Beint flug til Kanarí þann
25. nóvember. Það er um 25 stiga hiti á Kanarí í nóvember, og hér er auðvelt að njóta
lífsins við frábærar aðstæður. Þú bókar ferðina núna og tryggir þér síðustu sætin. 4
dögum fyrir brottför hringjum við í þig og
látum þig vita hvar þú gistir og á meðan á
dvölinni stendur nýtur þú þjónustu reyndra
fararstjóra okkar allan tímann.
Síðustu sætin
Skógarhlíð 18, sími 595 1000
www.heimsferdir.is
Munið Mastercard
ferðaávísunina
Verð kr. 39.950
Verð fyrir mann, m.v. 2 í íbúð.
25. nóvember, flug, gisting, skattar,
Heimkoma, 19. des. M.v. netbókun,
símbókunargjald kr. 2.000 á mann.
Stökktu til
Kanarí
25. nóvember
frá 32.963
Verð kr. 32.963
Verð fyrir mann, m.v. hjón með 2 börn,
2–11 ára. 25. nóv., flug, gisting og
skattar. Heimkoma, 19. des. M.v. net-
bókun, símbókunargjald kr. 2.000 á mann.
LANDSTJÓRI Kanada,Adrienne Clarkson, fluttiminningarfyrirlestur Vil-hjálms Stefánssonar á
vegum Stofnunar Vilhjálms Stef-
ánssonar í fyrirlestrarsal Háskól-
ans á Akureyri í Oddfellowhúsinu í
gær. Stofnun Vilhjálms Stef-
ánssonar er fimm ára um þessar
mundir. Evelyn Stefansson Nef,
ekkja Vilhjálms Stefánssonar var
viðstödd fyrirlesturinn.
Adrienne Clarkson landstjóri
Kanada hefur síðustu daga verið í
opinberri heimsókn á Íslandi í boði
Ólafs Ragnars Grímssonar forseta
Íslands. Hún var á Akureyri í gær
og heimsótti fyrst Stofnun Vil-
hjálms Stefánssonar og kynnti sér
starfsemi Háskólans á Akureyri, en
flutti að því loknu fyrirlestur sinn.
Adrienne sagði það mikinn heið-
ur fyrir sig að fá tækifæri til að
flytja minningarfyrirlestur Vil-
hjálms Stefánssonar einmitt nú á
fimm ára afmæli stofnunarinnar
sem við hann er kennd. Það væri
virðing við Kanada og þá íbúa
landsins sem hefðu trú á norð-
urslóðum og sæju fyrir sér sameig-
inlega framtíð sína á heim-
skautasvæðinu.
Adrianne sagði Vilhjálm Stef-
ánsson oft hafa gert skriffinna bál-
reiða og mætt mikilli mótspyrnu,
en það hefði leitt til hans bestu og
mest skapandi verka. Vilhjálmur
hefði verið flókinn persónuleiki, en
vilji hans til að lýsa veruleika þess
fólks sem bjó á hrjóstrugu svæð-
unum í norðrinu hefði heillað les-
endur bóka hans um landkönn-
unarleiðangra sína. Hann hefði
eignast marga aðdáendur, en einn-
ig fengið á sig gagnrýni. Hún sagði
að því meir sem menn læsu og
kynntust Vilhjálmi gegnum bækur
hann því meira yrði dálæti þeirra á
manninum. Adrianne Clarkson
sagði að þó svo að ágreiningur
hefði verið um Vilhjálm og verk
hans hefði hann átt stóran þátt í að
breyta viðteknum hugmyndum
manna um heimskautasvæðin og þá
sér í lagi þeirra sem þangað hefðu
aldrei stigið fæti.
Vilhjálm sagði hún hafa verið
óvin þeirra sem teldu sig geta
þröngvað skoðunum sínum og vilja
upp á fólk á heimskautasvæðunum,
þeirra sem börðust gegn norðrinu
og vildu jafnvel leggja það undir
sig. Enn nú um stundir hefði okkur
ekki tekist að losna að fullu við
slíkar hindranir. Menn væru samt
enn að berjast gegn þessum gömlu
hugmyndum og reyna af mætti að
breyta þeim. Það væri m.a. gert
með heimsóknum til þeirra landa
sem liggja að heimskautinu, líkt og
hún nú væri í, þar sem menn bæru
saman bækur sínar og færu yfir
það sem löndunum og íbúum þeirra
væri sameiginlegt.
Vilhjálmur hefði verið kallaður
málsvari norðursins og líkt og slík-
ir talsmenn hefði hann stundum
ekki notið virðingar, m.a. í eigin
landi. Landkönnunarleiðangrar
hans um heimskautasvæði væru
einkar merkilegir og augljóslega
hefði hann á stundum orðið fyrir
skelfilegri reynslu, mest líklega í
leiðangri sem stóð frá 1913 til 1918
og greint er frá í bókinni Heim-
skautalöndin unaðslegu.
Aukinn skilningur á
lífskjörum fólksins
Adrienne sagði að með bókum
Vilhjálms hefði fólk öðlast aukinn
skilning á lífskjörum þess fólks
sem byggi á heimskautasvæðunum
og með rannsóknum sínum hefði
hann átt mikinn þátt í að eyða
þeim hugmyndum sem menn höfðu
um ástandið þar. Þetta væri eitt
þýðingarmesta framlag Vilhjálms,
en samtíðarmenn hans hefðu ekki
allir á sínum tíma skilið hvað hann
var að fara.
Hún bar líf og starf Vilhjálms
saman við Leif heppna og sagði
Vilhjálm að mörgu leyti einnig hafa
verið lánsaman. Hann hefði vissu-
lega oft komist í hann krappan á
ferðum sínum, barist við óblíð nátt-
úruöfl og margt reynt. Hann hefði
samt alltaf búið yfir óbilandi sann-
færingu og tekist á við hverja þá
þrekraun sem að höndum bar, en á
þann hátt tókst honum að styðja
eigin kenningar, hugmyndir og
hugsjónir. Þá hefði hann einnig bú-
ið yfir þeim eiginleika að eiga auð-
velt með að sannfæra aðra og
þannig fengið marga á sitt band.
Líf hans hefði verið skáldsögu
líkast og fólk í kringum hann, sam-
tíðarmenn, leikið stór hlutverk í
þessari sögu.
Afrek Vilhjálms sagði hún ekki
einskorðuð við verk hans sem
mannfræðings, hann hefði lagt sinn
skerf fram með landafundum og
þannig auðveldað kortagerð-
armönnum að skilgreina ný landa-
mæri á vesturhluta heimskauta-
svæðisins. Ætla mætti að
Vilhjálmur hefði lagt að baki um 32
þúsund kílómetra á ferðum sínum
og kannað þannig geysistórt svæði.
Þá hefði hann með verkum sín-
um vakið áhuga Kanadamanna á
svæðunum í norðri.
Í huga hans var þetta heim-
skautasvæði ekki óbyggðir, heldur
staður þar sem fólk bjó og gat búið
sér og sínum ágæt kjör.
Annað sjónarhorn
Landstjórinn spurði hvað við
hefðum lært um Vilhjálm Stef-
ánsson sem gæti varpað nýrri sýn
á norðrið nú. Hún sagði hann hafa
fært okkur annað sjónarhorn á
fyrri hugmyndir um hvernig hugs-
að var um þetta svæði. Nú hugsuðu
menn ekki endilega um það sem
kaldranalegt og óbyggilegt. Menn
vissu að á þessum slóðum væri
hægt að búa, íbúarnir byggju við
sterkt þjóðfélagskerfi og hefðu trú
á umhverfi sínu.
Fólk sem byggi á norðurslóðum
hefði tekið höndum saman og ætti í
góðu samstarfi. Þannig hefði hún á
ferð sinni hitt fólk í Rússlandi,
Finnlandi og nú á Íslandi og rætt
við það um sameiginleg mál. Komið
hefði verið inn á hvernig hægt væri
að færa hugmyndir manna út fyrir
þau takmörk sem þeim væru nú
sett varðandi norðurslóðir. Enn
væri fólk sem ekki skildi hlutverk
íbúa norðurslóða og reyndi jafnvel
að þröngva þeim hugmyndum sín-
um upp á aðra. Þörf væri á að
stokka upp spilin og sýna fram á
lífvænleika þessara samfélaga og
hvað þau hefðu upp á að bjóða. En
heimskautalöndin stæðu einnig
andspænis vanda af öðrum toga,
sem væru loftslagsbreytingar í
heiminum. Þær hefðu mikil og vax-
andi áhrif á norðurslóðum. Löndin
byggju yfir miklum náttúruauðæf-
um, s.s. gasi, olíu og fleiru, sem
væru að verða æ aðgengilegri fyrir
iðnað af margvíslegu tagi. Því væri
mikilvægt að bregðast við aðsteðj-
andi vanda.
Ólíkir menningarheimar
mætist í friði
Adrianne lýsti því hvernig Vil-
hjálmur brást við þegar hann hitti
Kopar-indíána í fyrsta sinn. Hann
lagði niður vopn sín og gekk á
móts við þá með uppréttar hendur,
frumbyggjarnir fóru að dæmi hans
og lögðu niður stafi sína og skutla.
Þannig hefðu tveir ólíkir heimar
mæst í friði og með virðingu og
vilja til að læra hvor um annars
hagi. Hvatti Adrianne menn til að
fara þessa sömu leið, það væri mik-
ilvægt að menn öðluðust dýpri
skilning á ólíkum menningar-
heimum. Það væri undir okkur,
íbúum norðurslóðanna, komið að
gera þetta að ríkjandi viðhorfi um
það hvernig við hugsuðum um
norðurslóðir.
Hún nefndi að heimskautalöndin
ættu í margvíslegu samstarfi nú
þegar á vettvangi ýmissa stofnana
og væri það til mikilla bóta, en
löndin gætu einnig skapað sér fleiri
tækifæri með því að taka í þjón-
ustu sína nýja tækni og eins gætu
menn gert sér far um að kynnast
menningu hver annars. Mikið verk
væri framundan, en landstjóri Kan-
ada kvaðst þess fullviss að þar
myndi Stofnun Vilhjálms Stef-
ánssonar á Akureyri taka fullan
þátt. Þannig yrði minningu hans
haldið á lofti um ókomna tíð og
nafni hans sýnd virðing, reynsla
hans gæti enn verið okkur leið-
arljós. Verk hans hefði þannig ekki
verið takmarkað við sérstakan stað
og stund, með því að tileikna okkur
hugsjónir hans yrði áfram unnið í
hans anda. Að halda áfram að upp-
götva norðurslóðirnar og kosti
þess, hvað þýðingu þær hefðu fyrir
heimskautalöndin og fyrir hvert og
eitt okkar sem þar búum.
Lífvænleiki samfélaga í norðri
Að fyrirlestrinum loknum var
efnt til hringborðsumræðna í Ket-
ilhúsinu þar sem rætt var um
menningu og lífvænleika samfélaga
á norðurslóðum. John Ralston Saul,
eiginmaður landstjórans, sagði í lok
umræðunnar að sér virtist sem
hefðbundnar vísindagreinar væru
orðnar mjög sérhæfðar og menn
væru að missa sýn á aðalatriði lífs-
ins og umhverfisins, væru nánast
að grotna niður í frumeindir. Lagði
hann áherslu á að vísindamenn
yrðu að horfa heildrænt á viðfangs-
efni sín.
Adrianne Clarkson og föruneyti
heimsóttu Útgerðarfélag Akureyr-
inga eftir hádegi í gær og eftir að
hópurinnhafði kynnt sér land-
vinnslu félagsins kynnti Guð-
brandur Sigurðsson forstjóri starf-
semi þess og Hlynur Veigarsson
sölu- og markaðsstjóri hjá Sam-
herja gerði grein fyrir starfsemi fé-
lagsins.
Kanadísku gestirnir voru mjög
áhugasamir um landvinnslu, útgerð
og fiskeldi á vegum félaganna
tveggja og spurðu margs. Þá bar
kvótakerfið á góma og forseti Ís-
lands, Ólafur Ragnar Grímsson, fór
yfir fiskveiðisögu Íslendinga, land-
helgismál og skýrði framsalsmögu-
leika innan kvótakerfisins. Þá
spurði landstjórinn sérstaklega um
leikskólamál á Akureyri og fékk
greinargott svar þar um hjá Guð-
brandi.
Landstjórinn verður á faralds-
fæti í dag, þriðjudag, en m.a. mun
hún ásamt föruneyti halda austur í
Mývatnssveit og þá verður einnig
farið í Skagafjörð.
Landstjóri Kanada flutti minningarfyrirlestur um Vilhjálm Stefánsson á Akureyri
Átti þátt í að breyta hugmynd-
um um heimskautasvæðið
Adrienne Clarkson flutti minningarfyrirlestur um Vilhjálm
Stefánsson á vegum Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar.
John Ralston Saul, eiginmaður landstjórans, við hlið konu sinnar, Adrienne Clarkson,
ásamt Dorrit Moussaieff og Ólafi Ragnari Grímssyni á lóð Háskólans á Akureyri.
Morgunblaðið/Kristján
Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra, David Anderson, umhverfisráðherra
Kanada, og Tómas Ingi Olrich menntamálaráðherra hlýða á hringborðs-
umræður um menningu og lífvænleika samfélaga á norðurslóðum.