Morgunblaðið - 11.01.2004, Qupperneq 18
18 SUNNUDAGUR 11. JANÚAR 2004 MORGUNBLAÐIÐ
Samband íslenskra sparisjóðahefur gagnrýnt áformaðasölu á SPRON til KBbanka, en hún var kynntmeð viljayfirlýsingu í des-
ember sl. Samband sparisjóða telur
aðför að íslenska sparisjóðanetinu
standa yfir og Jón Kr. Sólnes, for-
maður stjórnar SÍSP, segir að gangi
áform SPRON og KB banka eftir,
skapist mikil óvissa fyrir íbúa fjöl-
margra byggðarlaga og starfsmenn
sparisjóðanna vítt og breitt um land-
ið.
Breytingar á lögum um fjármála-
fyrirtæki voru samþykktar í árslok
2002 og þ.m.t. breytingartillaga sem
gerð var á síðustu stundu þess efnis
að við mat á hlut stofnfjár skyldi hafa
til hliðsjónar arðsvon stofnfjárhluta
annars vegar og arðsvon og áhættu
hlutabréfa í sparisjóði hins vegar. Og
að eðlilegt væri að tryggja eins og
kostur er að stofnfjáreigendur væru
jafn vel settir fyrir og eftir hluta-
félagavæðingu.
Með þessari breytingartillögu telja
m.a. forsvarsmenn SPRON að opnað
hafi verið fyrir þá túlkun að meta
stofnfé verðmætara við hlutafjárvæð-
ingu sparisjóðs og í tilviki SPRON
eykst verðmæti stofnfjár úr 540 millj-
ónum króna í 1.400 milljónir með beit-
ingu þessarar aðferðar.
Breytingartillagan veldur úlfaþyt
Jón er ekki sáttur við hvernig lögin
eru túlkuð. „Haustið 2002 þegar
frumvarp til laga um fjármálafyrir-
tæki var til meðferðar í þinginu,
mælti fyrir því þáverandi formaður
efnahags- og viðskiptanefndar. Þegar
hann fjallaði um breytingartillöguna
sem nú hefur valdið svo miklum úlfa-
þyt sagði hann að breytingartillagan
gengi ekki út á að stofnfjáreigendur
ættu að eiga eitthvað meira en þeir
áttu samkvæmt lögum heldur einung-
is að eignin sem þeir fengju væri jafn-
gild þeirri sem þeir létu af hendi. Ég
lít svo á að ekki hafi verið farið eftir
þessum orðum,“ segir Jón.
Hann bendir einnig á að í greinar-
gerð með frumvarpinu segi m.a. um
sjálfseignarstofnunina að megintil-
gangur hennar sé að stuðla að við-
gangi og vexti í starfsemi sparisjóðs-
ins. Jón segir að í greinargerðinni
komi fram að sjálfseignarstofnun
sinni þessu hlutverki sínu best með
eignarhlut í sparisjóði og stór hluti
efnahagsreiknings sjálfseignarstofn-
unar hljóti því að vera hlutafjáreign
hennar í sparisjóði. „En þegar vilja-
yfirlýsing SPRON og KB banka var
kynnt, sögðu forsvarsmenn þeirra
berum orðum að þegar hlutafjárvæð-
ingu SPRON væri lokið, yrði eign
sjálfseignarstofnunar SPRON um
81% af hlutum í SPRON hf. og sam-
komulagið gerði ráð fyrir að KB
banki greiði um sex milljarða fyrir
þessa eign með hlutabréfum í sjálfum
sér. Það þýðir að sjálfseignarstofnun-
in mun standa uppi með efnahag sem
er eitt hlutabréf í KB banka en ekki
hlutabréf í SPRON eins og gert er
ráð fyrir í greinargerðinni. Þetta tel
ég ganga algjörlega í berhögg við
vilja löggjafans,“ segir Jón.
Gagnrýni hans beinist m.a. að því
að SPRON verði seldur samhliða fyr-
irhugaðri hlutafjárvæðingu. „Það hef-
ur verið öllum ljóst að hlutafjárvæð-
ing sparisjóða hefur ákveðna hættu í
för með sér. Við þekkjum þá þróun í
nágrannalöndunum að sparisjóðir
hverfa og eru tíndir upp með þeim
hætti sem við sjáum að gæti gerst hér
á Íslandi. Ef staðið hefði verið að
hlutafjárvæðingunni eins og ég les úr
lögunum, það er að segja að ef sjálfs-
eignarstofnunin myndi starfa sem
sjálfstæð og óháð stofnun og fara með
hlutabréf í sparisjóðnum, hefði ekki
verið nein hætta á ferðum. Sú leið
sem valin hefur verið er ekki í anda
laganna og ekki í þágu sparisjóða-
samstarfsins. Saman unnu sparisjóð-
irnir að vörnum sumarið 2002 þegar
Búnaðarbankinn ásældist SPRON.
Við sjáum engan reginmun á núna.
Sparisjóðirnir standa áfram vörð um
sína starfsemi.“
Yfirtökuskylda gæti skapast
Að hans mati verður það ekki endi-
lega í valdi einstakra hluthafa hvort
þeir haldi sínum hlutabréfum eftir að
SPRON hefur verið gerður að hluta-
félagi og færður í eigu KB banka, þar
sem stutt getur verið í að yfirtöku-
skylda geti skapast.
„Það er verið að rétta yfir borðið
81% hlutafjár í SPRON hf. til KB
banka og ef um helmingur stofnfjár-
eigenda er reiðubúinn að selja, kann
að vera stutt í að yfirtökuskylda geti
skapast,“ segir Jón.
Jón vonast til þess að löggjafar-
valdið láti málið til sín taka þegar
þingið kemur saman á ný. „Löggjaf-
inn getur fjallað um málið og gert
orðalagið í lögunum skýrara þannig
að tekin verði af öll tvímæli um hugs-
anlega heimild til að ráðstafa fjár-
mununum sem eiga að fara inn í
sjálfseignarstofnunina. Það er hægt
að gera með ýmsu móti. Meðal annars
væri hægt að hugsa sér að stjórn yfir
sjálfseignarstofnuninni væri ekki
kjörin af stofnfjáreigendum, heldur
skipuð fulltrúum ríkisvaldsins og
sveitarstjórna með einhverjum hlut-
lausum aðila og að ríkisendurskoð-
andi væri endurskoðandi fyrir hana,
þannig að alveg væri skilið á milli.“
Jón telur geysilega hagsmuni í
húfi, ekki síst í dreifbýli á Íslandi.
„Þetta er mjög stórt byggðamál.
Fulltrúar dreifbýlissparisjóða hafa
m.a. séð fyrir sér að til verði enn einn
viðskiptabankinn sem sinni lands-
byggðinni með sama hætti og við-
skiptabankarnir gera í dag og hafa
gert. Þar gætir sjónarmiða um hag-
ræðingu en ekki þá þjónustu sem
sparisjóðirnir veita. Þeir hafa verið
hornsteinar í héraði og sinnt sínu um-
hverfi mjög vel,“ segir Jón.
„Sparisjóðirnir eru fjórða aflið í ís-
lensku viðskiptabankaumhverfi. Það
er vilji neytenda, mikils meirihluta
allra landsmanna, að hér verði áfram
val. Þar höfum við skyldur, ekki bara
við okkar viðskiptavini, heldur lands-
menn alla. Það er engin tilviljun að
bankarnir ásælast sparisjóðina, bank-
arnir hafa reynt að líkjast sparisjóð-
unum á sviði persónulegrar þjón-
ustu.“
Áform sem leiða til óheillagöngu
Sparisjóðir starfa sem sjálfstæð
fyrirtæki og eiga með sér samstarf á
sviði upplýsingavinnslu, markaðs-
mála og rekstrar Sparisjóðabankans
og nýta þannig hagkvæmni stærðar-
innar og jafnframt kosti þess smáa,
að sögn Jóns. SÍSP mótar sameigin-
lega heildarstefnu og megingildi
sparisjóðanna og myndar faglegan
vettvang fyrir sameiginlegar stefnu-
markandi ákvarðanir. Hann telur að
aðrir sparisjóðir myndu samt vel
spjara sig ef SPRON hyrfi úr SÍSP,
eins og bent hefur verið á að gerist ef
og þegar SPRON rennur inn í KB
banka.
„SPRON hefur leitt þá leið sem
sparisjóðirnir hafa gengið til breyt-
inga á undanförnum árum og átt
stærstan þátt í því samstarfsneti
sparisjóða sem nú er til. Mikil eftirsjá
yrði af SPRON ef þeir hyrfu frá því
mikla uppbyggingarstarfi sem spari-
sjóðirnir hafa lagt í á undanförnum
árum,“ segir Jón.
Ef áform SPRON og KB banka ná
fram að ganga telur Jón og SÍSP að
stofnfjáreigendur fái í sinn hlut mun
meira en þeim er ætlað samkvæmt
lögunum. Jón telur mikla hættu á að
aðrir sparisjóðir fylgi í kjölfarið og
stofnfjáreigendur sparisjóða á Ís-
landi, alls 2.700–2.800 manns eða um
1% þjóðarinnar, muni fá í sinn hlut
óeðlilega mikil verðmæti. „Þarna
verða stofnfjáreigendur ekki jafn vel
settir og áður, heldur miklu betur
settir og það er ekki í samræmi við
lagasetninguna. Þetta mun færa til-
tölulega fámennum hópi landsmanna
mikil verðmæti sem hann getur með
engu móti talist eiga réttlátt tilkall til
umfram almenning í landinu. Við telj-
um að áform SPRON og KB banka
geti hugsanlega ýtt af stað ákveðnu
ferli sem leiði til slíkrar óheilla-
göngu.“
Heildareignir sparisjóðanna í land-
inu eru á bilinu 170 til 180 milljarðar
króna. Þar af nemur stofnfé samtals
2,7 milljörðum, eða innan við 2%.
„Sterk staða sparisjóðanna byggist
því ekki á framlagi stofnfjáreigenda
heldur á áratuga traustum viðskipt-
um sjóðanna við þúsundir viðskipta-
vina um land allt. Stofnfjáreigendur
gengu upphaflega í ábyrgðir fyrir
sparisjóðina og eiga að standa vörð
um starfsemi sjóðanna sem eins kon-
ar trúnaðarmenn byggðanna. Aldrei
var meiningin að stofnfjáreigendur
gætu gert tilkall til þess að njóta arðs
af stofnfjáreign sinni á sama hátt og
hluthafar í hlutafélögum. Sparisjóð-
irnir standa sterkir og hafa mótað sér
framtíðarstefnu um starfsemi á fjór-
um sviðum. Starfsemin er með rætur
á hverjum stað en saman starfa spari-
sjóðirnir í sterku þjónustuneti. Þann-
ig munu og vilja sparisjóðirnir starfa
og verða áfram afl og sá valkostur í ís-
lenskri fjármálaþjónustu sem við-
skiptavinir eru ánægðastir með,“ seg-
ir Jón að lokum.
Ekki farið eftir vilja löggjafans
Morgunblaðið/Brynjar Gauti
Áformuð sala á SPRON til KB banka hefur verið gagnrýnd af Sambandi íslenskra sparisjóða.
Morgunblaðið/Kristján
„Við þekkjum þá þróun í nágrannalöndunum að sparisjóðir hverfa og eru tíndir upp með þeim hætti sem við sjáum að
gæti gerst hér á Íslandi,“ segir Jón Kr. Sólnes, formaður stjórnar Sambands íslenskra sparisjóða.
Jón Kr. Sólnes, formaður stjórnar Sambands ís-
lenskra sparisjóða (SÍSP), telur að áform um hluta-
fjárvæðingu SPRON og sölu til KB banka geti leitt til
þess að aðrir sparisjóðir fylgi í kjölfarið og fáir út-
valdir fái í sinn hlut mikil verðmæti sem þeir eiga
ekki tilkall til. Steingerður Ólafsdóttir ræddi við Jón.
Morgunblaðið/Jim Smart
steingerdur@mbl.is
’ Það er verið aðrétta yfir borðið 81%
hlutafjár í SPRON
hf. til KB banka og ef
um helmingur stofn-
fjáreigenda er
reiðubúinn að selja
kann að vera stutt í
að yfirtökuskylda
geti skapast. ‘