Morgunblaðið - 23.05.2004, Side 34
LISTIR
34 SUNNUDAGUR 23. MAÍ 2004 MORGUNBLAÐIÐ
Nemendur
stjórna
flutningi á
kantötum
Í TÓNSKÓLA þjóðkirkjunnar hef-
ur staðið yfir námskeið í kór- og
hljómsveitarstjórn sl. þrjá mánuði,
þar sem Hörður Áskelsson, org-
anisti í Hallgrímskirkju, hefur leið-
beint í flutningi kantata eftir J.S.
Bach. Námskeiðinu lýkur með því
að þátttakendur stjórna flutningi á
tveimur kantötum í Grensáskirkju í
dag kl. 17. Þrír ungir einsöngvarar,
kór þátttakenda og kammersveit,
að mestu skipuð félögum úr Sinfón-
íuhljómsveit áhugamanna, syngja
og leika, en köflum kantatanna hef-
ur verið skipt á milli stjórnendanna.
Hörður Áskelsson kynnir verkin.
Kantöturnar eru Wachet auf, ruft
uns die Stimme BWV 140 og Wer
nur den lieben Gott lässt walten
BWV 93. Einnig leika nemendur
fylgirödd í sumum þáttum og er það
hluti þjálfunar þeirra að leika fylgi-
rödd eftir tölusettum bassa. Á milli
kantatanna leika orgelnemendur
tvær orgelútsetningar Bachs á köfl-
um úr sömu kantötum, sálmforleiki
sem kenndir eru við Schübler.
Stjórnendur eru Arngerður María
Árnadóttir, Bjartur Logi Guðnason,
Björn Thorarensen, Hreiðar Ingi
Þorsteinsson og Sveinn Arnar Sæ-
mundsson. Einsöngvarar eru Elfa
Margrét Ingvadóttir sópran, Hugi
Jónsson bassi og Gunnhildur Bald-
ursdóttir alt.
Flestir þátttakenda í námskeið-
inu eru nemendur í kórstjórn í Tón-
skóla Þjóðkirkjunnar. Kórstjórn er
nú þriggja ára samfellt nám við
Tónskólann og kennari í kórstjórn
er Hákon Leifsson.
Fella- og Hóla-
kirkja kl. 16 og
kl. 21 Tvennir
söngtónleikar
nemenda frá Tón-
listarskóla Mos-
fellsbæjar verða í
dag. Píanóleikari
er Douglas A.
Brotchie. Á fyrri
tónleikunum
syngur Gunnlaug Dröfn Pálsdóttir
sópran m.a. ensk, þýsk og íslensk
söngljóð og ítalskar aríur. Tónleik-
arnir eru liður í 8. stigs prófi Gunn-
laugar Drafnar. Kennari hennar er
Jón Þorsteinsson.
Á seinni tónleikunum syngur Hrönn
Helgadóttir mezzósópran, sem held-
ur burtfararprófstónleika frá skól-
anum. Með henni koma fram Björn
Thorarensen tenór, Kristjana
Helgadóttir þverflautuleikari og
Jónína Auður Hilmarsdóttir víólu-
leikari. Hrönn hefur lært söng hjá
Jóni Þorsteinssyni.
Í DAG
Hrönn Helgadóttir
LISTAHÁTÍÐIN í Reykjavík er
blómlegir dagar fyrir listir í borginni
og þótt áhersla kunni að vera lögð á
sviðslistir þetta árið taka listasöfn og
gallerí vel við sér og reyna að bjóða
upp á sýningar sem teljast til stærri
viðburða en gengur og gerist hér á
landi. Helsta framlag Listasafns
Reykjavíkur til hátíðarinnar er sýn-
ing á verkum ítalska listmálarans,
Francesco Clemente í vestursal
Kjarvalsstaða. Þetta eru nýleg verk,
gerð eftir að umfangsmikil yfirlits-
sýning á verkum listamannsins var
haldin í Guggenheim-safninu í New
York árið 1999. Sýningin er unnin í
samvinnu við írska nútímalistasafnið
(IMMA) í Dublin og fylgir henni veg-
leg sýningarskrá. Í ábæti kom lista-
maðurinn til landsins til að vera við-
staddur opnun og var gestum boðið
upp á listamannaspjall með Clem-
ente og Einari Garibaldi á miðviku-
daginn var. Þykir mér það vel gert að
hálfu safnsins því nærvera lista-
manns vegur þungt í kynningu og
umræðu um verkin hans.
Clemente telst á meðal málara
Nýja tjástílsins (Neo expressionism)
sem átti mikilli velgengni að fagna á
níunda áratug síðustu aldar og náði
yfir megnið af Vesturheimi, allt frá
New Image painting og graffitílist í
Bandaríkjunum til listhópa eins og
Figuration libre í Frakklandi, Neuve
wilde í Þýskalandi og Transavant-
gardia á Ítalíu sem Clemente til-
heyrði. Nýi tjástíllinn markaði nokk-
urskonar endurreisn málaralistar-
innar þar sem listamenn sem höfðu
hlotið listrænt uppeldi í hugmynda-
legum gildum módernismans höfn-
uðu þeim og leituðu í fígúratíft mál-
verk. Uppreisninni var aðallega beint
gegn konseptlist og mínimalisma en
einnig gegn „góðum smekk“, þar sem
listamennirnir tileinkuðu sér gróf og
oft ruddaleg efnistök. Af þeim sökum
hlaut stefnan líka viðurnefnið „Bad
painting“ (slæmt málverk). Listin á
það til að þróast í andhverfu sína og
fljótlega þótti það sýna ágætis smekk
að eiga málverk eftir listamenn nýja
tjástílsins s.s. Jean-Michel Basquiat,
Walther Dahn eða Francesco Clem-
ente.
Veruleiki í sjálfu sér
Viðhorf til myndlistar og myndlist-
armanna er æ meira að líkjast því
sem þekkist í dægurlistum. Lista-
menn úreldast fljótt eftir tísku-
straumum og falla af vinsældalistan-
um eins og gerist í popptónlistinni ef
þeir ná ekki að endurnýja sig, enda er
framboðið mikið og köllun eftir nýj-
ungum enn meiri. Margar af stjörn-
um nýja tjástílsins eru algerlega
horfnar af sjónarsviðinu, enda eðli-
legt að úrtak sé gert þegar öldu læg-
ir. Af listamönnum Transavantgardia
hópsins er Francesco Clemente sá
sem hefur náð að halda sér hvað mest
inni á vinsældalistanum og átt fleiri
smelli en hinir. Honum hefur líka tek-
ist að endurnýja sig með samstarfs-
verkefnum við ljóðskáld, kvikmynda-
gerðarmenn, tónskáld og
myndlistarmenn, s.s. Allan Ginsberg,
Robert Creely, Gus Van Sandt, Jean-
Michel Basquiat og Andy Warhol.
Clemente hefur starfað jöfnum
höndum í Róm, New York og sveitum
Indlands og tekið inn áhrif frá þess-
um ólíku stöðum. New York sem
heimsborg auðs og efnishyggju, Róm
sem stórbrotin menningarborg og
höfuðstöðvar kaþólskunnar og Ind-
land sem er samsafn af öllum and-
stæðum heimsins, ringulreið og
reglu, „andardráttur guðs“ eins og
indverski dulspekingurinn Sri Bagh-
wan Rajsneesh kallaði það. Það er því
ekki laust við að málverk Clementes
séu rökrænum huga ráðgáta ef hann
vill festa sig við einhver skýr mörk,
meiningu eða væntir þess að fatta
eitthvað í myndunum. Hér er skyn-
ræn upplifun í fyrirrúmi og myndirn-
ar veruleiki í sjálfu sér. Það er þó
margt í táknfræðinni sem vísar til
austurlenskra fræða en annars virð-
ast myndirnar samsettar úr ólíkum
brotum, einhverju sem hefur snert
listamanninn á lífsleiðinni, sem hann
svo færir í myndræna frásögn, án
upphafs og enda.
Helstu breytingar sem sjá má í
mörgum af nýrri verkum Clementes
miðað við þau eldri er fráhvarf
mannslíkamans, en líkaminn hefur
jafnan verið í áberandi hlutverki hjá
listamanninum. Það þýðir þó ekki að
líkaminn sé á brott í þessum verkum
heldur stendur hann fyrir utan
myndina eins og listamaðurinn benti
á í áðurnefndu listamannaspjalli.
Clemente er mistækur listmálari
og sumt á sýningunni finnst mér allt
eins eiga heima á gluggasýningu á
Skólavörðustígnum. En ritskoðun,
eða réttara sagt myndskoðun, hefur
aldrei verið í hávegum höfð á meðal
listamanna nýja tjástílsins, enda ekki
kallað „bad painting“ að ástæðu-
lausu. Stíleinkenni Clemente eru líka
breytileg eftir því hvaða efni hann
vinnur með. Í freskumyndunum, sem
dæmi, teiknar hann með litnum, olíu-
málverkin eru síðan formföst og oft
kubbsleg með þurra áferð og vatns-
litamyndirnar eru flæðandi, lifandi
en samt dulrænar og eru algerlega
sér á báti.
Alfræðibók um einleika
Í miðrýminu á Kjarvalsstöðum
hefur verið sett upp nýtt verk eftir
bandarísku listakonuna Roni Horn
sem telst á meðal hinna margrómuðu
Íslandsvina, en hún hefur sótt inn-
blástur og efnivið sinn til Íslands síð-
an 1975. Horn er ekki síður kunn í
myndlistinni en Clemente en þá fyrir
ljósmyndaverk og skúlptúr.
Form, rými og vangaveltur um
tungumálið einkenna verk Roni
Horns og eru þau einskonar alfræði-
bók um einleika hlutar eða fyrirbæris
þar sem að listakonan varpar ótal
sýnishornum á sama hlutinn eða fyr-
irbæri með endurtekningum. Sem
dæmi má nefna hundrað andlits-
myndir af listakonunni Margréti
Blöndal í bláa lóninu, ljósmyndir af
frænku Roni Horn í hlutverkaleik
sem sýnt var í gallerí i8 í fyrra, ljós-
myndir af yfirborði Thames-árinnar
sem einnig voru sýndar í i8 og svo má
lengi telja.
Verkið á Kjarvalsstöðum nefnist
„Hún, hún, hún og hún“ og saman
stendur af ljósmyndaröð úr kvenna-
klefanum í sundhöllinni í Reykjavík.
Þetta er órætt ferðalag um klefann
sem er svo samsett í einn ferhyrndan
myndflöt svo rýmiskenndin bjagast.
Myndirnar eru í tveimur hlutum sem
hanga andspænis hvor öðrum í sér-
hönnuðu rými. Þær eru svo sýndar í
glerboxum á vegg sem dregur fram
skúlptúríska eiginleika myndanna.
Það má vel skoða verkið sem fem-
inískt sbr. kvennaklefa og tengingu í
bútasaumsteppi, enda hefur listakon-
an aldrei farið leynt með álit sitt á
karlaveldi myndlistarheimsins. Mér
finnst þó skynrænn þátturinn sá
sterkasti að þessu sinni og form og
rými eða arkítektúr augljóslega í for-
grunni hjá listakonunni.
Án upphafs
og enda
MYNDLIST
Listasafn Reykjavíkur –
Kjarvalsstaðir
Opið alla daga frá 10–17.
Sýningunum lýkur 22. ágúst.
FRANCESCO CLEMENTE
RONI HORN
Jón B.K. Ransu
Roni Horn leiðir okkur um kvennaklefann í sundhöllinni í verki sínu. Spádómur Clementes unninn með olíulit á striga.
Vatnslitamyndir Francesco Clemente eru algerlega sér á báti.
Fæst í apótekum
og lyfjaverslunum
ER NEFIÐ STÍFLAÐ?
STERIMAR
Skemmir ekki slímhimnu
er náttúrulegur
nefúði sem losar stíflur
og léttir öndun.
Fyrir 0-99 ára.
SJÓN
Sjón - Skáld mánaðarins
í Þjóðmenningarhúsinu.
Dagskrá í flutningi
bókmenntaklúbbs Hana-nú
í dag kl. 14.00.
Ókeypis aðgangur
www.thjodmenning.is
Sunnudagur 23. maí