Morgunblaðið - 08.10.2004, Qupperneq 32

Morgunblaðið - 08.10.2004, Qupperneq 32
32 FÖSTUDAGUR 8. OKTÓBER 2004 MORGUNBLAÐIÐ UMRÆÐAN BRÉF TIL BLAÐSINS Morgunblaðið Kringlunni 1 103 Reykjavík  Bréf til blaðsins | mbl.is MIG langar að koma á framfæri nokkrum orðum um geðklofa. Ég er 37 ára gömul og þegar ég var 26 ára greindist ég með geð- klofa. Hins vegar veiktist ég fyrst þegar ég var 17 ára gömul án þess þó að fá sjúkdómsgreiningu frá lækni. Að veikjast svo snemma á lífsleiðinni gerir það að verkum að maður missir seinni hlutann af unglingsárunum. Þar af leiðandi flosnaði ég fljótt upp úr námi og hef ekki klárað neitt framhalds- nám. Oft tekur langan tíma að finna rétt lyf sem henta hverjum ein- staklingi fyrir sig og í því lenti ég, það var sífellt verið að skipta um lyf hjá mér. Ég á margar innlagnir að baki og er ég reynslunni ríkari eftir það. Að mínu mati gefur það manni alveg nýja sýn á lífið að vera með geðklofa. Ástæða fyrir því að ég rita þessa grein er að mér finnst ég vera beitt órétti og ég mæti fordómum og fáfræði í þjóðfélaginu. Eitt nýlegt dæmi um fordóma í þjóðfélaginu er að í haust innritaði ég mig í skóla og var alsæl að kom- ast inn í skólann og geta fetað menntaveginn á nýjan leik. Þetta var sjúkraliðabraut og var ég mjög áhugasöm um námið og mér leið virkilega vel að hafa eitt- hvert hlutverk og eitthvað að stefna að á hverjum degi. En svo kom áfallið, við vorum að ræða um geðsjúkdóma og þá varð einum nemandanum að orði að það ætti að loka alla geðklofa inni, nú, ég bara eins og sagt er fríkaði út, sagðist vera geðklofi í meðferð og hvort þetta væri virkilega viðhorf þeirra sem eru að mennta sig í heilbrigðisgeiranum. Það kom fát á kennarann sem skipti um umræðuefni. Ekki nóg með það, heldur hafði ég samband við brautarstjóra námsbraut- arinnar sem ráðlagði mér að hætta á þessari braut sökum geðklofa míns. Hún sagðist þekkja til geð- klofa og þetta hentaði mér nú ekki alveg vegna þess að ég gæti ekki með nokkru móti starfað inni á sjúkrastofnun. Á þessum tíma- punkti gafst ég upp og sagði mig úr skólanum sökum fordóma. Ég hélt að allir hefðu sama rétt til náms og eftir því sem ég best veit þá er sjúkraliðastarfið mjög fjöl- breytt og það einskorðast ekki við heilbrigðisstofnanir. Það sem ég hafði hugsað mér með því að mennta mig var að auka tækifæri mín til að stunda vinnu í framtíðinni og víkka sjón- deildarhring annarra til geðklofa. En í dag er ég hætt í skóla. Ég er byrjuð að sækja námskeið hjá Fjölmennt og staðráðin í því að halda áfram að mennta mig. Hver veit nema ég fari aftur í umræddan skóla og vona þá að það verði betur tekið á móti mér. Með vinsemd og virðingu, HEIÐRÚN SÓLVEIG JÓNASDÓTTIR, Álfabyggð 4, Akureyri. Eru fordómar gagnvart geðsjúkum í skólakerfinu? Frá Heiðrúnu Sólveigu Jónas- dóttur, sem greinst hefur með geðklofa: ÉG hef verið viðloðandi Morgun- blaðið í 70 ár, fyrst sem blaðberi, síðan sendisveinn, rukkari fyrir auglýsingar og síðast sem áskrif- andi. Blaðið hefur alltaf höfðað til mín með sínum skrifum og borið af öðrum blöðum. Eins og gengur birtast greinar sem ekki höfða til mín, en það er jú eðlilegt. Blaðið er mjög fundvíst á grein- ar sem eru fræðandi, skemmtileg viðtöl, þar sem komið er víða við. Lýsingar af ferðum innanlands og utan þar sem skemmtilega er sagt frá mannlífi á viðkomandi stöðum. Ég hef mikið velt fyrir mér hversvegna að þið Morgunblaðs- menn hafið smækkað svo letrið og þétt að það liggur við að það renni samam í eitt og verði þar af leið- andi mjög ólæsilegt, þannig að í mörgum tilfellum dettur manni í hug að þeir sem ekki eru því þol- inmóðari gefist upp á að lesa greinarnar. Ég vil taka fram að þó ég noti gleraugu þá sé ég vel með þeim þannig að því er ekki um að kenna að ég hef þessa skoðun. Þetta er sérstaklega slæmt við lestur Lesbókarinnar og er það miður því hún býður upp á afburða góðar greinar og frásagnir. Að sjálfsögðu óska ég ykkur til hamingju með nýju prentsmiðjuna og velfarnaðar í framtíðinni. JÓN MAGNÚSSON, Álfheimum 34, Reykjavík. Hugleiðing öldungs Frá Jóni Magnússyni: DARFUR-hérað í Súdan hefir verið í fréttum að undanförnu. Þar eiga að vera einhverjir dularfullir arab- ískir vígamenn, myrðandi almenn- ing með leyfi yfirvalda. Þrátt fyrir mikinn áhuga vestrænna fjölmiðla hefir ekki náðst ein einasta mynd af þessum mönnum, aðeins óljósar frá- sagnir hrjáðs fólks sem gæti átt heima hvar sem er í Afríku. Hvað skyldi svo valda þessum skyndilega áhuga á högum þessara svörtu snill- inga? Jú, Súdanir eru farnir að dæla ol- íu upp úr jörðinni og er nú dælt 345.000 tunnum á sólarhring, dæl- ing fer vaxandi. Þarna á greinilega að búa til nýtt stríð til að geta stolið olíu. Sauðfjárrækt er stunduð af mikl- um þrótti í Súdan, ærnar bera tvisv- ar á ári. Hjarðirnar eru geymdar í girðingum við vatnsból og nýslegið gras flutt að á vörubílum. Kjötið er selt á þrjá dollara kílóið. Hér á Ís- landi eru rollurnar látnar naga upp landið og heyrúllurnar notaðar í uppgræðslu. Við gætum margt af Súdönum lært. GESTUR GUNNARSSON, Flókagötu 8, Reykjavík. Súdan Frá Gesti Gunnarssyni tæknifræðingi: UM þessar mundir mættu menn með nokkru stolti minnast aldar- afmælis merkrar vegagerðar austur á Seyðisfirði: Skömmu eftir alda- mótin 1900 létu Seyðfirðingar leggja fyrir eigin reikning mjóan en vel akfæran kerruveg – frá kaup- staðnum 7 km út með ströndinni sunnan- verðri að litlu þorpi sem þá var við lýði á Hánesstaðaeyrum og að Þórarinsstöðum. Um svipað leyti var ruddur álíka vegslóði frá kaupstaðnum norð- anmegin fjarðar um Háubakka og Vestdals- eyri út fyrir Dverga- stein, Selstaði og allt út í Brimnes. Verktæknin í þá daga fólst þó fyrst og fremst í járnkarli, haka, skóflu og hestakerru, allt unn- ið hægt og bítandi en af stakri vand- virkni og þrautseigju, vegkantar hlaðnir af natni úr því grjóti sem hendi var næst og úr torfsniddum. Vegalagning þessi fyrir um hundrað árum var gerð fyrir atbeina framtakssamra athafnamanna á Seyðisfirði en núna síðsumars árið 2004 situr enn allt við það sama varðandi vegalagningu á Seyðisfirði; í tæknivæddu og fjárhagslega vel- stæðu landi okkar reynist hvorki til fé, framtak né vilji hins opinbera til að tengja þennan hundrað ára gamla nú endurbætta akveg á Seyðisfirði um Dalaskarð yfir til Mjóafjarðar – og vantar þó einungis eitthvað um 12 kílómetra upp á til þess að á árinu 2005 eða 2006 verði loksins orðið ak- fært milli þessara nágrannabyggða. Miðað við þær milljarðafúlgur sem á undanförnum áratugum hafa runnið í ríkissjóð frá Seyðisfirði gæti það naumast talist nein ofrausn þótt nokkrir fjármunir væru loks veittir úr þeim sama ríkissjóði í síðbúna vegtengingu milli Seyðisfjarðar og Mjóafjarðar. Það er helst brattinn í Dalaskarði sem þykir tálma slíkri vegagerð. Hvorki Seyðfirðingar né íbúar Mjóafjarðar hafa þó hingað til haft uppi ýkja háværa kröfugerð á hend- ur Vegagerð ríkisins um þennan ör- stutta vegspöl sem upp á vantar til að vegtengja loks Seyðisfjörð við Mjóa- fjörð – hundrað árum eftir ofangreint einka- framtak. Kröfurnar eru aftur á móti þeim mun háværari frá öðr- um og þéttbýlli stöðum á landinu um tvöföldun þessa vegkafla fyrir nokkra milljarða, um mislæg vegamót þarna eða um nýjan og betri veg hér og þar á Vest- urlandi. Þær kröfur hljóta undantekninga- laust áheyrn og eru nær alltaf upp- fylltar fljótt, umyrðalítið og hósta- laust og þá liggur nægilegt fram- kvæmdafé jafnan á lausu. Ríkissjóð- ur borgar brúsann. Tugþúsundir íslenskra og er- lendra ferðamanna koma árlega til Seyðisfjarðar bæði sjóleiðis erlendis frá og einnig landveginn yfir Fjarð- arheiði, þennan fremur varhuga- verða háfjallaveg sem enn í dag er einasta aðkomuleið ökutækja til Seyðisfjarðar. Þótt segja megi að á margan hátt hafi vel verið staðið að hönnun og lagningu vegarins yfir Fjarðarheiði þar sem víða var unnið við erfiðustu aðstæður í snarbratta og þrengslum, þá býður fjallvegur- inn yfir Fjarðarheiði samt enn þann dag í dag ógætnum ökumönnum upp á 15–75 metra frjálst fall í bifreiðum sínum við nokkrar krappar beygjur. Engin vegrið, engin grjótvörn hindr- ar mögulega flugferð sem hæglega gæti upphafist sé ekið gáleysislega eða ef bíllinn skyldi taka upp á því að renna til í hálku. Vegrið eru greini- lega allt of dýr munaður til að sóað sé á Austfirðinga, þau eru ætluð verðugri Íslendingum. Þær þúsund- ir erlendra ferðamanna sem koma í fyrsta skipti til Íslands sjóleiðis til Seyðisfjarðar, margir hverjir með vel útbúna fjallabíla, fá á þjóðveg- inum yfir Fjarðarheiði fullkomna og rækilega lexíu í gæðastöðlum vega- gerðar á Austurlandi. Ferðamenn, íslenskir sem erlendir, á alls konar ökutækjum komast þó með gætni yfir Fjarðarheiði til Seyðisfjarðar en þangað komnir eru þeir aftur á móti innikróaðir í kaupstaðnum sjálfum, komast þaðan hvorki lönd né strönd áfram og þurfa því að aka sömu leið til baka yfir heiðina. Enginn akveg- ur er úr kaupstaðnum suður til Mjóafjarðar, enginn akvegur er enn þann dag í dag norður í Loðmundar- fjörð og vantar þó einungis um 15 kílómetra vegaspotta upp á sitt hvoru megin fjarðarins til þess að opna þar tilkomumikla ferðamanna- leið sem örugglega á eftir að verða afar fjölfarin þótt síðar verði. Það skiptir ferðamannabæinn Seyðis- fjörð vissulega mjög miklu máli að þessi tenging nái brátt fram að ganga, skiptir einangrað byggðarlag í Mjóafirði höfuðmáli að fá sem fyrst þennan örstutta vegkafla lagðan um torfæruna Dalaskarð, og það skiptir raunar Austurland í heild miklu að vegakerfið innan fjórðungsins þurfi ekki öllu lengur að haldast þannig slitrótt og síholótt sem á miðalda- stigi væri. Vegleysa Halldór Vilhjálmsson skrifar um vegagerð milli Seyðis- fjarðar og Mjóafjarðar ’Gæti það naumast tal-ist nein ofrausn þótt nokkrir fjármunir væru loks veittir úr þeim sama ríkissjóði í síðbúna vegtengingu milli Seyðisfjarðar og Mjóa- fjarðar.‘ Halldór Vilhjálmsson Höfundur er skógarbóndi á Héraði og fv. menntaskólakennari. Í MORGUNBLAÐINU síðastlið- inn laugardag (2. okt.) gat að lesa frétt um að búið væri að leggja niður 20 rúm fyrir geðsjúka í Arnarholti og að til stæði að leggja niður önnur 20 rúm þar fyrir næstu áramót. Á síðustu átta árum hefur þá verið lokað geðdeildum með 110–120 rúmum á Landspítalanum án þess að nokkuð kæmi í staðinn til þess að mæta þjónustu- og umönnunarþörf mikið veikra langtíma sjúk- linga. Þetta jafngildir rúmlega því að geð- deild Borgarspítalans, sem talin var nauðsyn- leg og gera gagn, hafi endanlega verið lögð niður, en ekki bara sameinuð geðdeild Landspít- alans. Heimatilbúinn vandi Þessar lokanir hafa leitt til mikilla vandræða sem blasa við. Fjöldi lang- veikra sjúklinga er kominn á ver- gang vegna ófullnægjandi meðferð- ar og fjöldi öryrkja vegna geðrask- ana hefur hátt í tvöfaldast á þessu tímabili, skv. rannsókn trygginga- lækna. Það gefur augaleið að ekki er hægt að veita sjúklingunum full- nægjandi meðferð og endurhæfingu þegar geðdeildum er lokað í stórum stíl. Sjúklingar eru útskrifaðir áður en þeir geta almennilega fótað sig. Vill þá sækja í sama horf og þurfa þeir því að komast aftur inn á spít- ala. Vandræðin eru orðin svo mikil að talsmenn Geðhjálpar eru farnir að tala um stofnun lokaðrar geð- deildar fyrir mikið veika sjúklinga sem valda öðrum truflun og fyrir geðveika afbrotamenn sem eru tald- ir sakhæfir og hafa verið dæmdir til fangelsisvistar. Slíkt væri afturhvarf til fortíðar, sem ekki þekktist hér á landi. Stjórnvöld hafa tekið undir þetta án þess að huga að orsök vandans, sem liggur hjá þeim sjálfum. Samkvæmt venju- legri málnotkun er lok- uð deild sú sem ekki er í rekstri, sbr. lokuð búð. En það sem átt er við með lokaðri geð- deild er læst geðdeild til þess að vernda um- hverfið fyrir sjúkling- um og ætti því að réttu lagi að heyra til réttargeðdeildinni að Sogni sem þjónar þeim tilgangi. Það væru hins vegar sorgleg mistök ef slík deild yrði staðsett á Kleppi eins og heil- brigðisráðherra nefndi í blaðaviðtali nýlega. Þar með yrði spítalanum breytt í fangelsi, sem mundi ýfa upp þá fordóma sem barist hefur verið gegn mestalla síðustu öld. Frá þess- um hugmyndum er hættulega stutt yfir í að einhverjir vilji taka upp notkun belta og spennitreyja aftur, en notkun slíkra þvingunartækja var hætt á Kleppsspítala í árslok 1932. Geðdeildir hér á landi hafa síð- an verið til fyrirmyndar í mannúð- legri meðferð og umönnun. Nokkr- um sinnum hafa komið sendinefndir erlendis frá til að kynna sér hvernig hægt væri að komast af án þving- unartækja og hafa eins frjálslegt andrúmsloft og raun var á deildum spítalans. Stefnumótun Á árinu 1998 gerði starfshópur, sem heilbrigðismálráðherra hafði skipað undir forystu Tómasar Zoëga, til- lögur um stefnumótun í málefnum geðsjúkra. Lausn vandans sem nú blasir við er fólgin í að fylgja eftir þessum tillögum og veita nægjan- lega mikið fé til þess að hægt verði að veita geðheilbrigðisþjónustu sem verði ekki lakari en var 1996, helst betri eins og ætlunin var með tillög- um starfshópsins. Lausnin er ekki fólgin í stofnun lokaðrar öryggisdeildar innan geð- sviðs Landspítalans. Slík deild yrði til að ýfa upp og styrkja þá fordóma sem geðsjúkir hafa mátt búa við og allir vilja í orði kveðnu vinna gegn. Ef þörf er fyrir að vista afbrotamenn á geðdeild á það að gerast á sjúkra- deild innan fangelsanna eða á réttar- geðdeildinni að Sogni. Lokanir geðdeilda og „lokuð geðdeild“ Tómas Helgason skrifar um geðheilbrigðismál ’Ef þörf er fyrir aðvista afbrotamenn á geðdeild á það að gerast á sjúkradeild innan fangelsanna eða á réttargeðdeildinni að Sogni.‘ Tómas Helgason Höfundur er prófessor, dr. med., fyrrv. sviðstjóri geðsviðs Landspítalans.

x

Morgunblaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.