Morgunblaðið - 18.12.2004, Blaðsíða 65
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 18. DESEMBER 2004 65
MINNINGAR
um lúðu og lúðuverkun með því að
skjótast upp á loft, ná í lúðurikling og
útskýra svo verkunarferlið og Ástu
kenndi hann að vera ekki eyða of
miklu leirtaui í matartímanum, það
mætti vel borða grautinn af sama
diski og matinn sjálfan.
Það líður að jólum en öll aðfanga-
dagskvöld bernskunnar tengjast
ömmu og afa í Silfurgötunni. Þar
safnaðist öll fjölskyldan saman þegar
nokkuð var liðið á kvöld, drakk
súkkulaði, borðaði kökur og átti nota-
lega stund saman. Þessum sið héldum
við eins lengi og hægt var þrátt fyrir
að við sjálf værum komin með okkar
eigin fjölskyldur, hjá ömmu og afa var
alltaf nóg pláss. Fyrir okkur systkinin
eru jólin því órjúfanlega tengd ömmu
og afa og víst að tilfinningar okkar
verða blendnar um þessi jól. Við
huggum okkur við að afi lifði langa og
góða ævi, þó síðustu árin hafi honum
hrakað smátt og smátt og erfitt hafi
verið að horfa á þennan verkmann
smám saman missa getuna til að
sinna sínum hugðarefnum. En mitt í
sorginni erum við ósegjanlega glöð
yfir að afi skyldi ná að halda upp á 95
ára afmælið sitt með ömmu og öllum
afkomendunum s.l. sumar sem og að
lifa 70 ára brúðkaupsafmæli sitt og
ömmu 1. desember s.l.
Hugsanir okkar dvelja mikið hjá
ömmu sem nú hefur misst manninn
sinn eftir 70 ára hjónaband. Við vitum
að afi er kominn á betri stað og það
verða fagnaðarfundir þegar við öll
verðum aftur sameinuð í nýja lífinu
hjá Guði. Við biðjum algóðan Guð að
veita ömmu huggun í sorginni. Hvíli
afi í friði.
Stefán Haukur, Jakob
Ólafur, Heiðrún og Ásta.
Hann afi er fallinn frá. Hugsanir
okkar leita til þeirra tíma sem við átt-
um með honum.
Við systkinin eyddum mörgum
sumrum fyrir vestan hjá ömmu og afa
og alltaf var það jafn mikið tilhlökk-
unarefni að hitta þau. Húsið þeirra
var ævintýri líkast. Það var eins kon-
ar kastali. Það var gífurlega stórt,
með mörgum herbergjum, meira að
segja sparistofu með glerstyttum og
ekki má gleyma garðinum sem var á
stærð við fótboltavöll, með rólu og
risa trjám. Afi var kóngurinn og
amma drottningin. Afi og amma voru
mjög rík af afkomendum og því var
ávallt mikill erill í kastalanum þar
sem háir sem lágir kepptust við að
koma skoðunum sínum á framfæri. Í
dag eru afkomendurnir komnir vel yf-
ir hundraðið.
Síðastliðið sumar fórum við vestur
til að fagna 95 ára afmæli afa og 90
ára afmæli ömmu. Kastalinn var nú
ekki alveg eins stór og áður og garð-
urinn var nú eitthvað minni en það
sem mestu máli skipti var að þarna
voru kóngurinn og drottningin mætt
með alla hirð sína í kringum sig.
Við eigum ógleymanlegar minning-
ar um afa sem okkur þykir mjög vænt
um.
Elsku afi, við munum aldrei gleyma
þér.
Kveðja.
Helgar stjörnur, háreist fjöll,
himininn og sæinn,
líka norðurljósin öll
og ljúfan vestan blæinn
og allt sem fagurt augað sér
á ævilöngum vegi
bið ég kveðju að bera þér
bæði að nóttu og degi.
(Páll Ólafsson.)
Elsku amma, mamma og aðrir að-
standendur. Hugur okkar er hjá ykk-
ur.
Þórdís, Selma, Silja,
Sigtryggur og fjölskyldur.
Ég man aldrei eftir afa öðruvísi en
við einhverja iðju. Eftir vinnu smíðaði
hann gogga fyrir línubáta, steypti
steina og herti fisk. Eitt sinn reif hann
gamalt hús úti í Krók og byggði, úr
timbrinu sumarbústað inni í firði. Það
lýsir honum vel sem hann sagði fyrir
nokkrum árum, að hann hefði aldrei
verið þreyttur um ævina, en stundum
svolítið lúinn. Þrátt fyrir þetta þá
hafði hann alltaf tíma fyrir lítinn afa-
strák og oft var komið við á slökkvi-
stöðinni hjá honum og ekki sjaldnar í
Silfurgötunni þar sem amma hélt rúg-
sigtibrauðinu heitu á ofninum og gaf
„sull“ að drekka.
Á þrettánda ári fluttist ég til
Skagastrandar. Um vorið fermdist ég
og komu amma og afi keyrandi að
vestan. Ég man ekki hvort það var þá
eða seinna sem dekkin hjá afa voru
orðin svo slitin að það sprakk sjö sinn-
um á leiðinni. Í hvert skipti skellti
hann sér með dekk og felgulykla út í
móa og bætti, hélt svo áfram.
En dekk voru ekki það eina sem
hann afi gat bætt. Tveimur dögum
fyrir fermingu komu fermingarfötin í
pósti og pössuðu þau mér engan veg-
inn. Ég neitaði að vera í þeim og sagð-
ist vera hættur við að fermast. Ég
rauk út og gekk aðeins út fyrir bæinn.
Stuttu seinna er kallað á eftir mér að
bíða og er þar afi kominn. Við gengum
saman um stund og spjölluðum, ekki
um fötin heldur bara það sem fyrir
augu bar, mýrarrauða og framleiðslu
á járni. Á heimleiðinni bárust svo föt-
in í tal og auðvitað endaði með því að
ég fermdist - í fötunum. Svona var afi,
alltaf að bæta og laga.
Iðjusemin og eljan minnkaði ekki
með aldrinum. Eftir að ég fór á sjóinn
kom ég oft inn á Ísafjörð og leit þá við
í kaffi niður í Silfurgötu. Oftast var
amma þar ein heima þar sem afi land-
aði úr togurum á daginn og vaktaði á
nóttunni.
En núna fær afi hvíld eftir erilsama
ævi. Hans verður sárt saknað en ætíð
minnst með gleði. Megi guð veita
ömmu styrk.
Meðan ég þjóð og ættjörð ann
og íslenska tungu skrifa
virði ég þá, sem virtu hann.
Ég veit engan sannari og betri mann
af öllum, sem eftir lifa.
(Davíð. Stef.)
Guðjón Guðjónsson og fjölskylda.
Þegar ég kveð bróður minn hinstu
kveðju þá er margs að minnast þegar
litið er til baka. Við ólumst upp í
stórum systkinahópi við gott atlæti
foreldra okkar. Það var mikið að gera
á stóru heimili og allir höfðu verk að
vinna enda efnin ekki mikil í þá daga.
Svo liðu árin og mín eldri systkini fóru
að heiman hvert af öðru í leit að lífs-
viðurværi sínu. Leiðir okkar Tryggva
lágu saman aftur þegar að ég flutti til
Ísafjarðar þar sem Tryggvi var giftur
Hjálmfríði Guðmundsdóttur. Þau
hjón var gott heim að sækja, með af-
brigðum gestrisin og ekki kom til
greina annað en að þiggja kaffisopa
og meðlæti þegar ég ætlaði rétt sé
svona að kíkja inn.
Árin liðu og barnahópurinn stækk-
aði ört hjá þér og Fríðu. Um 1950
fluttist ég til Reykjavíkur með eigin-
manni mínum og börnum, þá hittumst
við ekki eins oft og fyrr en alltaf heim-
sóttir þú litlu systur þegar að þú
komst til höfuðstaðarins og mig þótti
mikið vænt um það. Á ættarmótinu á
Núpi í Dýrafirði hittumst við í síðasta
sinn og þar áttum við góðar og ynd-
islegar stundir saman ásamt Sigur-
jóni heitnum bróður, öllum börnun-
um, barnabörnunum og
barnabarnabörnunum okkar allra.
Átthagana við Ingjaldssand heimsótt-
um við í leiðinni og það var gaman að
koma þangað eftir öll árin frá því að
við slitum barnsskónum þar. Komu
þá margar minningar upp í hugum
okkar frá þeim árum sem við geym-
um öll. Margra fleiri stunda er að
minnast sem ég mun geyma í minn-
ingu minni um þig.
Elsku bróðir, með þessum fáu orð-
um langar mig og fjölskyldu mína að
þakka þér fyrir allar stundirnar sem
við áttum saman og kveðjum þig með
djúpum söknuði.
Nú langar mig að líða
um landið bernskutíða
við sumarheiðið hátt.
Þar milli hárra hlíða
rís hafið fagurblátt.
Þótt ellin bakið beygi
og bjartar vonir hneigi
sitt höfuð hinsta sinn.
Í hugans hylling eygi
ég hýra svipinn þinn.
(G. M.)
Ég og fjölskylda mín sendum þér
okkar innilegustu samúðarkveðjur,
Fríða mín, börnunum og fjölskyldum
þeirra.
Guðrún Jörundsdóttir.
www.mosaik.is
LEGSTEINAR
sendum myndalista
MOSAIK
Hamarshöfði 4 - sími: 587 1960
Guðmundur
Jóhannsson
f. 10. 6. 1932
d. 8. 3. 1989
Minning þín lifir
Hvíl í friði
✝ Stefanía JóhannaGuðmundsdóttir
fæddist á Hróalds-
stöðum í Vopnafirði
5. apríl 1934. Hún
lést á Landspítalan-
um við Hringbraut
13. desember síðast-
liðinn. Foreldrar
hennar voru Guð-
mundur Björnsson
bóndi, f. 23. desem-
ber 1904, d. 15. maí
1974, og Ólöf Anna
Stefánsdóttir hús-
freyja, f. 21. mars
1897, d. 10. febrúar
1969. Systkini Stefaníu eru Sigur-
björg, f. 1926, d. 1988, Sólveig, f.
1927, Sigurður, f. 1929, Björn, f.
1930, og Valborg Stefanía, f. 1932,
d. 1994.
Stefanía giftist 23. mars 1958
Þorsteini Frímanni Sigurgeirs-
syni, flugmanni frá Blönduósi, f.
29. júní 1934. Barn hennar og
Ólafs Tryggvasonar er Tryggvi
Ingvar, f. 1. mars 1954, maki
Ragnhildur Rún Elíasdóttir, f. 21.
apríl 1959, börn Kristján Hólm,
Katla Ingibjörg og Ólafur. Börn
Stefaníu og Þorsteins eru: 1) Guð-
mundur Frímann, f. 6. janúar
1960, maki Þórhalla Bóasdóttir, f.
9. júní 1958, börn Torfi Pálmar,
Þórður Vilberg og Stefanía
Hrund. Barn Guð-
mundar og Grétu
Sjafnar Guðmunds-
dóttur er Þorsteinn
Frímann. 2) Torf-
hildur Guðrún, f. 16.
ágúst 1961, maki
Hlynur Óli Krist-
jánsson, f. 15. ágúst
1954, börn Jónas
Torfi, Kristján Hall-
dór, Hildur Hlín og
Íris Rós. 3) Ólöf
Ásta, f. 12. maí 1963,
maki Kristján Örn
Kristjánsson, f. 11.
desember 1952, börn
Eydís Stefanía og Þorsteinn Her-
mann. Barn Ólafar og Birgis Ell-
ertssonar er Ellert Stefán Birgis-
son. 4) Sigurgeir Orri, f. 23. júní
1965, maki Sigurbjörg Guð-
mundsdóttir, f. 19. janúar 1968,
börn Þorsteinn Frímann og Guð-
mundur Orri. Fósturdóttir Sigur-
geirs er Sigurbjörg Díana. 5) Jó-
hanna, f. 6. febrúar 1967, maki
Hermann Kristinn Bragason, f.
21. nóvember 1965, börn Ásdís
Birna og Kristinn Freyr.
Þorsteinn og Stefanía bjuggu
lengst af í Reykjavík en síðustu
árin á Mýrarbraut 6 á Blönduósi.
Útför Stefaníu verður gerð frá
Blönduóskirkju í dag og hefst at-
höfnin klukkan 14.
Elsku mamma, tengdamamma
og amma. Nú er baráttunni lokið.
Og því miður varðst þú að láta
undan, enda við erfiðan andstæð-
ing að etja. Eftir langa og erfiða
baráttu við krabbamein, fékkst þú
þó loksins hvíld. Baráttan var erf-
ið. Og þú barðist eins og sönn
hetja. Þú varst alltaf viss um að þú
mundir vinna baráttuna. En svo
fór þó ekki.
Við sem eftir erum, minnumst
nú allra ánægjustundanna sem við
áttum saman. Og við erum svo
þakklát fyrir að þú, þrátt fyrir
mikla vanlíðan, komst til okkar í
Danmörku í apríl til að vera við
fermingu Hildar. Við sáum öll að
þér leið mjög illa, en þú kvartaðir
ekki.
Við munum öll sakna þess að fá
þig í heimsókn til okkar í Dan-
mörku, og krakkarnir eiga eftir að
sakna allra vísnanna og þulnanna
sem þú fórst alltaf með fyrir þau.
Eins og tildæmis kvæðið um hana
Grýlu og söguna um hana Fóu
feykirófu. Þau áttu margar
ánægjustundir með þér við að
hlusta á það. En við minnumst þín
með gleði og söknuði.
Þakka þér, elsku mamma,
tengdamamma og amma, fyrir allt.
Við vitum að þú fylgist með okkur,
og að þú nú hefur það gott.
Elsku pabbi, tengdapabbi og afi.
Við sendum þér okkar innilegustu
samúðarkveðjur.
Þú, Guð, sem stýrir stjarna her
og stjórnar veröldinni,
í straumi lífsins stýr þú mér
með sterkri hendi þinni.
(V. Briem.)
Ástarkveðjur.
Torfhildur, Hlynur, Jónas,
Kristján, Hildur og Íris,
Danmörku.
Elsku mamma. Nú er baráttu
þinni lokið og þú hefur fengið
hvíldina.
Við vitum að nú líður þér vel.
Við þökkum fyrir allar ánægju-
stundirnar með þér og vitum að þú
vakir yfir okkur.
Takk fyrir, elsku mamma.
Hvíl í friði.
Þín dóttir,
Jóhanna.
Hún amma er dáin og við barna-
börnin sitjum með minningarnar
einar eftir. En þær eru góðar.
Alltaf var jafngott að koma í heim-
sókn til ömmu og afa í Reykjavík
og alltaf var tekið jafn vel á móti
manni. Amma var alltaf tilbúin að
gera allt fyrir okkur, hvort sem
það var að gefa okkur kvöldkaffi
eða segja okkur sögur. Einnig var
alveg dásamlegt sumarfríið sem
við áttum með þeim ömmu og afa
úti í Danmörku þar sem elsta dótt-
ir þeirra býr ásamt sinni fjöl-
skyldu. Og jafnvel undir það síð-
asta, þegar ljóst var hvert stefndi,
tók hún samt á móti okkur með
hlýhug og vildi allt fyrir okkur
gera.
Amma var kona sem ekki gafst
upp og kom það best í ljós þegar
hún lá á spítalanum og barðist við
hin illvíga sjúkdóm sem hún hafði
verið dæmd til að ganga með. Hún
ætlaði sér ekki að gefast upp og
barðist hetjulega allt til loka, og
aldrei fann maður það að hver
dagur gæti verið sá síðasti.
En nú er hún farin og það eina
sem við getum gert er að ylja okk-
ur við þær góðu minningar sem við
eigum um hana. Og eins og Stef-
anía Hrund sagði þegar hún vissi
að amma var dáin: Nú getur amma
alltaf fylgst með mér og séð mig
hvar sem ég er. Þessi stund er erf-
ið en við vitum öll að nú er amma
komin á betri stað þar sem henni
líður betur. Guð geymi þig, amma.
Þar sem englarnir syngja sefur þú,
sefur í djúpinu væra.
Við hin sem lifum í trú
á að ljósið bjarta skæra
veki þig með sól að morgni,
veki þig með sól að morgni.
(Bubbi Morthens.)
Torfi Pálmar, Þórður
Vilberg og Stefanía
Hrund.
Ég á enga ömmu. Það var það
fyrsta sem mér datt í hug þegar
mamma hringdi með slæmu frétt-
irnar.
Amma er farin, amma mín sem
var mér svo góð.
Minningar mínar um ömmu eru
svo góðar. Ég man eftir ömmu
sem hressri og skemmtilegri konu,
sem fannst gaman að fá barna-
börnin í heimsókn.
Ég man oft eftir mér heima hjá
ömmu, fékk oft að gista hjá henni
þegar ég var yngri.
Mér fannst alltaf gott að koma
til ömmu því hjá henni og afa var
alltaf svo hlýtt og notalegt.
Hjá ömmu fékk maður alltaf
eitthvað gott að borða og á ég mik-
ið eftir að sakna brúnu jólakök-
unnar hennar.
Helsta minning mín um ömmu
er þegar hún söng mig í svefn með
laginu ,,Með vísnasöng“, þetta lag
minnir mig alltaf á hana.
Nú er amma komin á góðan stað
og bið ég Guð um að geyma hana
vel fyrir okkur.
Guð gefi afa mínum og allri fjöl-
skyldunni styrk til þess að komast
í gegnum þennan mikla missi.
Þín
Eydís Stefanía.
Vertu yfir og allt um kring
með eilífri blessun þinni.
Sitji Guðs englar saman í hring
sænginni yfir minni.
(Sig. Jónsson.)
Elsku amma, takk fyrir allar
góðu stundirnar okkar saman.
Þú verður alltaf langbesta amma
okkar og við söknum þín mikið.
Hvíl í friði, elsku amma.
Kveðja.
Ásdís Birna og Kristinn
Freyr Hermannsbörn.
Mig langar að skrifa nokkur
kveðjuorð um Stefaníu sem lést
hinn 13. desember síðastliðinn. Ég
var mjög ung þegar ég kom inn í
fjölskyldu hennar og Þorsteins á
Snorrabrautinni. Þrátt fyrir að
barnahópurinn væri stór var ég
velkomin í hópinn og tekið opnum
örmum af þeim hjónum og reynd-
ust þau mér og syni mínum alla tíð
vel.
Þegar litið er til baka er ljóst að
heimilið veitti börnunum ekki að-
eins uppeldi, heldur einnig vináttu
og félagsskap. Var oft mikið um að
vera og líf og fjör einkenndi
barnahópinn. Seinna fékk sonur
minn að njóta þess að vera á heim-
ili afa og ömmu á Snorrabrautinni
og var það hans annað heimili
fyrstu árin og ljúfustu stundir
hans var að vera hjá Stefaníu
ömmu. Þrátt fyrir að leiðir skildu
fylgdist Stefanía áfram með mér
og lífshlaupi ömmustráksins síns.
Stefanía var hæglát manneskja, og
ef til vill bar ekki mikið á henni í
daglegu lífi en persónuleiki hennar
var djúpur og hlýr. Lífið var Stef-
aníu það að lifa fyrir aðra og gefa
þeim. Hún átti mikið til að gefa, og
hún gaf það allt með gleði. Bestu
þakkir fyrir góð og mikilvæg
kynni. Ég þakka fyrir að hafa
fengið að kynnast þér.
Ég kveð þig, hugann heillar minning
blíð,
hjartans þökk fyrir liðna tíð.
Lifðu sæl á ljóssins friðarströnd,
leiði sjálfur Drottinn þig við hönd.
(Guðrún Jóh.)
Megi góður Guð blessa minn-
ingu Stefaníu og votta ég aðstand-
endum hennar mína dýpstu samúð.
Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir.
STEFANÍA
JÓHANNA
GUÐMUNDSDÓTTIR