Morgunblaðið - 18.12.2005, Side 38
38 SUNNUDAGUR 18. DESEMBER 2005 MORGUNBLAÐIÐ
S
ystkinin Arnór, Geir-
finnur, Guðrún, Inga
Dagmar og Jón Karls-
börn hafa afsalað til
Háskólans á Akureyri
öllum eignarhlutum
sínum í jörðinni Vé-
geirsstöðum í
Fnjóskadal. Jörðin er þar með nánast
öll í eigu háskólans, því árið 1995
færðu systkinin og fleiri ættmenni
skólanum hluta jarðarinnar að gjöf.
Að auki afsöluðu Arnór og Geirfinnur
nú í sumar þremur sumarhúsum,
bænahúsi og fleiri eignum á Végeirs-
stöðum til háskólans. Þá afhenti Geir-
finnur Végeirsstaðasjóði 10 milljónir
króna sem nýta skal til uppbyggingar
á Végeirsstöðum. Fyrir 10 árum
færði Arnór Háskólanum á Akureyri
að gjöf 40 listaverk eftir ýmsa af
bestu listamönnum þjóðarinnar og
þrjá skúlptúra eftir japanskan lista-
mann í tilefni af flutningi skólans á
framtíðarsvæðið á Sólborg. Árið 1998
færði Arnór háskólanum að gjöf tvær
fasteignir, íbúð í raðhúsi við Furul-
und og verslunarhúsnæði í Sunnu-
hlíð. Að auki ánafnaði Arnór háskól-
anum allt innbú sitt í Furulundi, þar á
meðal 30 málverk. Gjafirnar voru
bundnar því skilyrði að andvirði eign-
anna yrði notað til stofnunar gjafa-
sjóðs til uppbyggingar rannsóknar-
starfs á Végeirsstöðum.
Blaðamaður Morgunblaðsins
heimsótti þá bræður, Geirfinn og
Arnór, en þeir búa saman í raðhúsa-
íbúðinni í Furulundi, og forvitnaðist
um þessa miklu velgjörðarmenn Há-
skólans á Akureyri. Arnór sagði að
það hefði verið full eining innan
systkinahópsins um að færa háskól-
anum jörðina í Fnjóskadalnum að
gjöf. „Við höfum haft mikla trú á skól-
anum frá upphafi. Uppbygging hans
hefur gengið vel og það er í raun ótrú-
legt að nemendur skuli vera orðnir
1.500 á ekki lengri tíma. Háskólinn á
eftir að stækka og dafna enn frekar á
næstu árum og við erum því ánægð
með að geta lagt okkar að mörkum.
Haraldur Bessason, fyrrverandi
rektor, hóf starfið í skólanum með
þrjár bækur í farteskinu. Skólinn er
aðeins kominn á unglingsaldur en
hefur alla burði til þess að verða
stærsti háskóli landsins.“ Arnór
sagði jafnframt að ríkisvaldið þyrfti
að leggja meiri áherslu á að efla há-
skólastigið við Eyjafjörð, slíkt væri
nauðsynlegt fyrir byggð á Norður- og
Austurlandi.
Lagði 10 milljónir króna í sjóð
til uppbyggingar á jörðinni
Geirfinnur sagði að samvinna Há-
skólans á Akureyri og Fjórðungs-
sjúkrahússins á Akureyri væri mjög
jákvæð og í raun lykilatriði í starfi
beggja stofnana. Fjölgun lækna og
sérfræðinga við FSA gerði það að
verkum að hægt yrði að taka á móti
fleiri sjúklingum, líka af höfuðborg-
arsvæðinu. Geirfinnur lagði 10 millj-
ónir króna í Végeirsstaðasjóð, sem
nýta á til uppbyggingar á jörðinni.
Arnór sagði að framlag Geirfinns
væri undirstaða sjóðsins en að fleiri
þyrftu að leggja fram fjármagn svo
hægt yrði að efla hann enn frekar og
standa að frekari uppbyggingu á Vé-
geirsstöðum. Þeir bræður sjá fyrir
sér að reist verði stórt og myndarlegt
hús á Végeirsstöðum, ráðstefnu-,
funda- og kennsluhúsnæði, þar sem
verði aðstaða fyrir nemendur og gesti
háskólans. „Ég hvet alla þá sem
áhuga hafa á tækni, vísindum og
mannlegum eiginleikum til að leggja
sjóðnum lið,“ sagði Arnór.
Fólkið vaxið með skóginum
Skógrækt hófst á jörðinni fyrir um
50 árum og þar eru hæstu trén orðin
25 metrar á hæð. Geirfinnur sagði að
þar hefðu m.a. verið gróðursettar
margar tegundir af birki, sem væri
alveg stórkostleg planta. Móðir
þeirra bræðra, Karítas Sigurðardótt-
ir frá Draflastöðum í Fnjóskadal,
fékk Végeirsstaði í arf. „Móðir okkar
hafði mikinn áhuga á skógrækt og
það var hún sem hóf þessa vinnu þar
og gerði staðinn að skógræktarjörð.
Við systkinin héldum starfi hennar
áfram, þannig að fólkið hefur vaxið
með skóginum,“ sagði Arnór. Árið
1992 var byggt bænahús á jörðinni og
sagði Arnór að það hefði verið rekið á
eftir sér við það verk. „Það var ein-
hver sem hvíslaði í eyra mér.“ Árið
1986 var byggð vatnsaflsvirkjun á
Végeirsstöðum og var hún endur-
byggð árið 1997. Virkjunin framleiðir
14-16 megavött og sér jörðinni fyrir
rafmagni, sem er notað bæði til lýs-
ingar og til upphitunar á vatni.
Bróðir Karítasar, Sigurður Sig-
urðsson, fyrrverandi búnaðarmála-
stjóri, var skólastjóri á Hólum í
Hjaltadal í 18 ár en síðan tók Krist-
ján, bróðir þeirra Arnórs og Geir-
finns, við skólastjórastöðunni og
gegndi henni í 25 ár. Sigurður plant-
aði fyrstu plöntunum á Hólum en síð-
an tók Kristján við. Þeir Arnór og
Geirfinnur fóru báðir í búnaðarskól-
ann á Hólum á sínum tíma. Geirfinn-
ur starfaði lengst af hjá Guðrúnu
systur sinni og manni hennar, Sigurði
Guðmundssyni, í Klæðaverslun Sig-
urðar Guðmundssonar á Akureyri,
eða frá 1955 til 1997. Hann hafði áður
starfað hjá Prentverki Odds Björns-
sonar og í pappírsverksmiðju í Sví-
þjóð. „Eftir að ég hætti að vinna gat
ég varið enn meira tíma í skógrækt-
ina fyrir austan,“ sagði Geirfinnur.
Var í blómabransanum í 54 ár
Arnór kom til Akureyrar árið 1942
og hann er þekktastur fyrir rekstur
sinn á Blómabúðinni Laufási. Hann
starfaði í blómabransanum í samtals
54 ár. Hann sá um rekstur á blóma-
búð KEA í 24 ár en keypti svo fyr-
irtækið og rak blómabúðina í eigin
nafni í 30 ár til viðbótar. „Það voru
sérstaklega tveir heiðursmenn sem
hvöttu mig til góðra verka og reynd-
ust mér vel, þeir Jakob Frímannsson,
fyrrverandi kaupfélagsstjóri, og Jón
G. Sólnes, fyrrverandi bankastjóri.“
Arnór er 87 ára gamall og Geir-
finnur 84 ára. Heilsu þeirra er farið
að hraka „en öllu skiptir að vera létt-
ur í lund,“ sagði Geirfinnur.
Þeir bræður vildu koma á framfæri
þakklæti til allra þeirra sem lagt hafa
hönd á plóginn á Végeirsstöðum en
þeir eru fjölmargir.
Háskólinn á Akureyri hefur eignast nánast alla jörðina Végeirsstaði í Fnjóskadal
Gefendur vonast til að sjá þar
rísa rannsókna- og kennsluhús
Fimm systkini á Akureyri
hafa afsalað sér eigna-
hlutum sínum í jörðinni Vé-
geirsstöðum í Fnjóskadal til
Háskólans á Akureyri sem
einnig hefur hlotið fjölda
annarra góðra gjafa frá
þeim. Kristján Kristjánsson
ræddi við bræðurna í þess-
um gjafmilda systkinahópi.
krkr@mbl.is
Morgunblaðið/Kristján
Skógrækt hófst á Végeirsstöðum fyrir um 50 árum og eru hæstu trén orðin 25 metra há.
Systkinin Arnór, Guðrún og Geirfinnur fyrir framan bænahúsið á Végeirsstöðum.
Geirfinnur Karlsson, fyrir miðju, sýnir gestum Skógargyðjuna, styttu sem
stendur á landareigninni.
Morgunblaðið/Kristján
Arnór Karlsson í bænahúsinu.