Morgunblaðið - 11.05.2007, Page 58
58 FÖSTUDAGUR 11. MAÍ 2007 MORGUNBLAÐIÐ
MINNINGAR
✝ Magnús Óli Guð-bjargarson
fæddist í Reykjavík
3. janúar 1996.
Hann lést á leið til
Íslands aðfaranótt
2. maí síðastliðins.
Foreldrar hans eru
Guðbjörg Magnús-
dóttir, f. 13. sept-
ember 1974, og Jó-
hann Garðar
Jóhannesson, f. 5.
febrúar 1961. For-
eldrar Jóhanns eru
Jóhannes Óli Garð-
arsson, f. 16. maí 1939, og Hulda
Róselía Jóhannsdóttir, f. 23. jan-
úar 1941. Fósturfaðir Magnúsar
Óla er Kristján Már Hauksson, f.
6. september 1966. Foreldrar
Kristjáns eru Haukur Halldórs-
son, f. 4. júlí 1937, og Sigrún
Kristjánsdóttir, f. 12. febrúar
1944. Systur Magnúsar Óla eru
Birta Ósk Kristjánsdóttir, f. 18.
júlí 2001, og Sigrún Lilja Krist-
jánsdóttir, f. 25. jan-
úar 2006. Hálf-
bróðir Haukur Jarl
Kristjánsson, f. 21.
október 1987. For-
eldrar Guðbjargar
eru Bryndís Val-
geirsdóttir, f. 11.
mars 1953, og
Magnús Hreggviðs-
son, f. 29. maí 1949.
Eiginkona Magn-
úsar er Erla Har-
aldsdóttir, f. 2. júní
1957. Alsystkin
Guðbjargar eru
Sesselja Magnúsdóttir, f. 29. júní
1977, og Hreggviður Steinar
Magnússon, f. 24. mars 1982.
Hálfsystir er Þórdís Erla Magnús-
dóttir, f. 9. janúar 1993. Uppeldis-
systir Guðbjargar er Sandra
Hauksdóttir, f. 21. september
1981.
Magnús Óli verður jarðsunginn
frá Fossvogskirkju í dag og hefst
athöfnin klukkan 13.
Líklega er stærsti draumur hvers
manns að eignast barn. Þeir, sem fá
að upplifa hann, geta tekið undir þá
kenningu. Skylt þessum draumi er
að eignast barnabarn. Þeirri ham-
ingju, sem sú upplifun veitir, verður
ekki auðveldlega lýst með orðum.
Lítill drengur, ljós yfirlitum,
fæddist í janúar 1996 og veitti móður
og öðrum aðstandendum ólýsanlega
gleði. Á fyrstu mánuðum hans kom í
ljós hægari þroski en eðlilegt var.
Eftir rannsóknir skýrðist að litli
drengurinn var fjölfatlaður og átti
sér erfiða framtíð í veikindum og
þjáningum. Þótt fær sérfræðingur
hafi í byrjun með nærgætni dregið
upp nokkuð raunsæja mynd af því
sem líklega væri framundan gátu
aðstandendur engan veginn ímynd-
að sér hversu erfið hún raunveru-
lega varð fyrir drenginn og móður
hans.
Nú hófst barátta þessa litla, fal-
lega drengs með móður sinni.
Drengs, sem læstur var í afar fötl-
uðum líkama sínum. Barátta við
hörð og erfið veikindi, spítalavistir,
sem skiptu hundruðum, oftast fáir
dagar í einu, en gátu varað allt upp í
nokkra mánuði. Barátta lítils ein-
staklings, sem undir slíkum kring-
umstæðum gat einungis tjáð sig með
hljóðum vegna þjáninga. Barátta
með móður, sem barðist af ótrúlegu
þreki og hlúði að og sýndi allt það
fegursta, sem í móðurástinni býr.
Móðurástinni, sem líklega er sterk-
asta aflið í tilveru mannsins. Síðar
barátta með fósturföður til viðbótar
sem frá fyrsta degi kom sterkur inn í
tilveru Magnúsar Óla og opnaði
hjarta sitt upp á gátt fyrir þessum
fjölfatlaða dreng og gekk honum í
föðurstað án skilyrða.
Frá fyrstu tíð hafði litli, ljósi
drengurinn góða návist. Hann
reyndi að koma góðu til skila með
hlýrri nærveru sinni, blíðum augum
og lágum, óskýrum hljóðum. Hann
hafði yndi af því að hlusta á fagra
rödd móður sinnar og þeir, sem við-
staddir voru giftingu hennar og fóst-
urföður hans, gleyma aldrei tilraun
hans til að syngja með móður sinni
og samgleðjast yfir hamingju henn-
ar, þegar hún söng ástaróð í kirkj-
unni til brúðguma síns. Það var
söngur hans til Mömmu.
Þegar þrek móður og fósturföður
var þrotið í erfiðri umönnun drengs-
ins fékk hann vist á sérhæfðu heimili
í Laugardal fyrir fjölfötluð börn í
umönnun góðs starfsfólks. Þar var
vel um hann hugsað og af kærleika.
Pétri Lúðvíkssyni, sérfræðingi á
barnadeild Landspítalans, og öllu
því frábæra starfsfólki, sem þar
vinnur, er þakkað hér af einlægni
fyrir alla þá fjölþættu og frábæru
umönnun sem nafni minn fékk.
Einnig góða fólkinu á heimili hans í
Laugardal síðustu misserin. Peggy
og Sigurði Helgasyni og Icelandair
er sérstaklega þakkað fyrir klúbb-
inn Vildarbörn sem þau komu á fót
og Icelandair styður dyggilega, auk
fjölda einstaklinga. Nafni fékk að
fara með allri fjölskyldu sinni, móð-
ursystur og og Gillian hjúkrunar-
fræðingi í stórskemmtilega hinstu
utanlandsferð sína þar sem hann
naut hverrar mínútu. Veiktist hann
aldrei í ferðinni, svaf á nóttunni, og
brosti hamingjusamur frá morgni til
kvölds. Frá þessari ferð er til fjöldi
ómetanlegra mynda sem sýna hve
vel hann naut sín. Í flugferðinni
heim sofnaði hann brosandi í sjúkra-
rúmi sínu í háloftunum, notalega
þreyttur eftir skemmtiferðina og
vaknaði ekki aftur. Eins og hann
væri að segja við móður sína, fóstur-
föður, systkin sín og okkur hin:
Takk fyrir allt. Ég get ekki meira.
Ég bið Guð almáttugan að blessa
minningu þessa sérstaka drengs og
dóttursonar míns um leið og ég
hugsa til Magnúsar Óla í nýrri til-
vist, án þjáninga, hlaupandi og hlæj-
andi um grænar grundir, sem hann
gat ekki hér.
Magnús Hreggviðsson.
Elsku hjartans vinur Magnús Óli.
Þið megið ei gráta þótt færi’ ég svo fljótt,
burt frá ykkur, pabbi og mamma.
Það hendir svo títt, að það skyggir svo skjótt
og skelfir um blómskreytta hvamma,
en ég á þá vissu, því er mér nú rótt,
að aftur skín sól eftir koldimma nótt,
þið vitið það afi og amma.
Við finnumst brátt aftur, þótt fjarlægjumst
stund,
því fögnum, – við megum ei kvarta,
en minningageislarnir létta’ okkar lund.
þeir lýsa og verma í hjarta.
Sem vorsólin smáblómin vekur á grund,
svo vaknar hver sál eftir andvana blund,
við ársólar ylgeisla bjarta.
(Ágúst Böðvarsson)
Lífsins göngu gekkstu
glaður, ljúfur, stilltur
alla elsku fékkstu
yndislegur piltur.
Þínar þrautir barstu
þögull kæri vin
enda alltaf varstu
eins og sólarskin.
Við munum þína léttu lund
þú lífsins gleðigjafi,
nú komið er að kveðjustund
þig kveðja amma og afi.
(S.F.)
Amma og afi, Barðastöðum.
Þegar Kristján Már sonur minn
hringdi og sagði mér að þú værir
farinn, hefðir sofnað í flugvélinni á
leið heim til Íslands, var mér mikið
brugðið. Hann hafði sagt mér deg-
inum áður hvað þið skemmtuð ykkur
vel, hve þú værir ánægður og sæll
með elsku mömmu, honum og systr-
um þínum á þessu merkilega ferða-
lagi ykkar og hvað þið væruð búin að
upplifa stórkostlega hluti saman.
Það er svo ómetanlegt fyrir ykkur
öll að hafa deilt þessum yndislegu
ellefu dögum saman áður en þú
ákvaðst að kveðja þennan heim.
Elsku Moli minn, þú varst oft bú-
inn að vera mikið veikur, inn og út af
spítala, en alltaf varð lífsviljinn yf-
irsterkari og þú komst til baka, til
mömmu sem var vakin og sofin yfir
þér alltaf og þegar þau Kristján Már
giftu sig eignaðist þú svo óendan-
lega góðan föður. Þegar þú svo flutt-
ir á sambýlið við Holtaveg fékkstu
dásamlega umönnun og hlýju frá
starfsfólkinu þar, sem, eins og
mamma þín sagði svo fallega, elsk-
aði þig allt.
Ég gleymi aldrei þegar ég sá þig
fyrst heima hjá mömmu þinni þegar
þau Kristján Már byrjuðu að vera
saman. Þú sast þarna í stólnum þín-
um, það stirndi á gullna hárið þitt,
fallegu bláu augun ljómuðu eins og
stjörnur og brosið þitt eins og sól í
heiði. Þú varst svo ótrúlega fallegur
drengur og bjartur. Nú ertu laus úr
viðjum þíns veika líkama og getur
alltaf verið hjá mömmu, Kristjáni
pabba og þínum yndislegu systkin-
um. Ég er svo þakklát fyrir að hafa
kynnst þér og mun ávallt geyma
minningar um þig og myndir í hjarta
mínu.
Um leið og ég kveð þig, elsku eng-
illinn minn, og bið góðan Guð að
geyma þig, vil ég votta mömmu,
Kristjáni pabba, Birtu Ósk, Sigrúnu
Lilju, Hauk Jarli og öðrum ættingj-
um mína dýpstu samúð.
Sigrún amma.
Jæja Magnús Óli. Litli frændi.
Má ég tala við þig beint? Ef það
má, þá langar mig til að tala við þig
eins og sál þín og hugur standi fyrir
framan mig, laus úr viðjum líkam-
ans. Einmitt þessa líkama sem ekki
leyfði þér að tala með orðum né
standa í fæturna, aldrei. Því það er
þannig sem ég vill ávarpa þig og
votta þér virðingu mína og hug, eins
og það sé allt að baki. Alveg áttu inni
fyrir því. Ég hef alltaf trúað því að
sál þín hafi brosað í gegn um orð-
leysið og jú, það gastu – brosað og
hlegið – óspart og innilega. Og ég,
sem get aðeins reynt að ímynda mér
hversu mikinn aðgang þú hafðir að
vitsmunum þínum og þessu undra-
tæki, heilanum, eða skyni og hreyf-
ingu, er hinsvegar alveg sannfærð
um nærveru þína, Magnús Óli, því
hún fór ekki á milli mála.
Ég trúi því að á einhvern hátt sé
sumt fólk gangandi skóli. Þetta er
einkennilegt orðalag en samt er það
þannig að ég get ekki betur lýst
minni sýn á þitt líf, en einmitt með
þessum orðum. Ekki ætla ég að taka
mér það vald að hafa nokkra skoðun
á því hvernig þín fötlun kom til, hver
ákvað þetta, eða hvort hægt sé að
tala yfirleitt um ákvörðun þegar
barn er látið undirganga slíkt lífs-
hlaup og lífsreynslu. Um réttlæti og
óréttlæti verða aðrir að fjalla, ég er
ekki þess umkomin að tala um slíkt í
þinni návist. Forlög og ákvörðun sál-
ar, fyrir eða eftir líf og annað slíkt,
veit ég ekkert um með neinni vissu.
Samt er það þannig, að einmitt þú og
þín nærvera nánast þröngvaði
manni til að hugleiða allt þetta og
meira til. Nærvera þín kallaði á svo
margt innra með manni sem annað
fólk jafnaðarlega gerir ekki – nema
það sé fólk mikilla örlaga. Því það
varst þú. Manneskja mikilla örlaga.
Á hljóðlátan og lágstemmdan máta
lifðir þú það sem við hin munum
aldrei skilja, en skildir eftir hjá okk-
ur það sem við hefðum aldrei fengið
án þín, Magnús Óli. Þú verður mér
alltaf minnisstæður og mér þykir
heiður að hafa fengið að kynnast þér
og verða samferða þér um stund. Því
miður er það svo að manneskjur eins
og þú eru hafðar utan við megin-
straum hins daglega lífs, því miður
segi ég, eftir að hafa fengið að kynn-
ast þér og fundið fyrir áhrifum þín-
um. En það hefur allt sinn gang og
sínar ástæður í þeim ólgusjó sem líf-
ið er. Svo, áður en ég lýk máli mínu,
Magnús Óli, vill ég nota tækifærið
og hrósa þér fyrir hana móður þína.
Þar var nú vel valið hjá þér, góði
minn. Þegar kom að þeirri umönnun
sem þú þurftir og rétti til atlætis,
gastu ekki valið betri né ástríkari
móður. Og hún barðist fyrir þér eins
og mæður einar geta gert. Það skal
ekki vanmetið. Fyrir hennar ást
fékkst þú reisn og ljóma sem ella
hefði ekki borið jafn hátt. Og bróðir
minn, sem er giftur móður þinni og á
með henni systur þínar, gekk þér
strax í föðurstað með heiðri og
sóma. Þeim hjónum og öllum öðrum
sem kenna til við að missa þig og
þína nærveru, votta ég mína samúð.
Nú er kominn tími til að kveðja.
Það geri ég með trega. En mér til
huggunar sé ég þig fyrir mér hlaup-
andi og talandi, loksins. Og alveg
örugglega skellihlæjandi. Það hjálp-
ar svolítið á sinn hátt að hugsa sér að
einmitt þú sjálfur skiljir núna sam-
hengið í þessu öllu saman, lífi og
dauða, þótt við hin sitjum eftir. Og
hafi ég nokkurn tíma snert við þér,
gefið þér eitthvað sem vakti bros
þitt eða vellíðan eða nokkurn þann
annan hlut sem einhverju máli skipt-
ir, þá veistu Magnús Óli, litli frændi
– okkar á milli – hvað það var mér.
Hafðu þökk fyrir.
Hallgerður.
Það er tómlegt á Holtaveginum
núna, hann Magnús Óli er farinn.
Það leita ótal minningar á hugann.
Stóru bláu augun, fallega bjarta
brosið, ferðin okkar í Daðahús.
Óendanleg þolinmæði á erfiðum
stundum og innileg gleði með blíðu
spjalli þegar allt gekk vel. Þú kynnt-
ist Magnúsi Óla og elskaðir hann,
annað var ekki hægt, hann fór bein-
ustu leið inn í hjartað þitt.
Það er lítil stúlka á Holtaveginum
sem saknar vinar síns. Það leið aldr-
ei sá dagur að spjall frá Magnúsi Óla
kallaði ekki fram gleðibros og hlát-
ur, hann var svo skemmtilegur.
Það er okkur, sem vinnum á
Holtavegi ómetanlega dýrmætt að
hafa kynnst og unnið með Magnúsi
Óla, hann var einstakur.
Elsku Guðbjörg, Kristján, Birta
og Sigrún, fjölskylda og ástvinir, við
sendum okkar einlægustu hjartans
samúðarkveðjur
Vertu yfir og allt um kring
með eilífri blessun þinni,
sitji Guðs englar saman í hring
sænginni yfir minni.
(Sig. Jónsson frá Presthólum)
Takk fyrir samveruna, vinur.
Starfsfólkið á Holtavegi.
Ég skil ekki hvernig þetta gerist,
það bara verður þannig í Nangijala.
Ég á við – að maður getur allt,
handan við stjörnurnar.
(Þýð. Þorleifur Hauksson)
Miðvikudagurinn 2. maí rann upp,
bjartur og fagur. Öll vorum við
spennt yfir því að í dag kæmi Magn-
ús Óli heim eftir ferðina til Flórída,
en svo kom fréttin. Magnús kæmi
ekki í dag og aldrei aftur. Sorgin
færðist yfir alla á Lyngási. Fallega
brosið blíða og káta spjallið, aldrei
aftur. Magnús Óli var farinn til
Nangijala, landsins handan við
stjörnurnar.
Ótalmargar og dýrmætar minn-
ingar eigum við héðan frá Lyngási
sem við geymum nú í hjörtum okkar
sem dýrasta fjársjóð. Magnús Óli
var svo margt. Hann var töffarinn
sem var alltaf svo flottur í tauinu að
við göntuðumst með það að hann
hlyti að vera með stílista á launum
einhvers staðar. Hann var tónlistar-
unnandinn sem naut þess að hlusta á
góða tónlist, þá sérstaklega ef hann
fékk að hlusta á mömmu syngja, þá
ljómaði hann eins og sólin, montinn
mömmustrákur. Hann var húmor-
istinn sem hafði gaman af að kúra í
Lazy-boy og spjalla á sinn einstaka
hátt um allt milli himins og jarðar.
Hann var vinurinn sem fannst gam-
an að gantast með félögum sínum á
B-stofu. Hann var drengurinn sem
hjúfraði sig í hálsakotið og brosti svo
blítt þegar við tókum hann í fangið
og föðmuðum hann. Hann var bróð-
irinn sem þótti svo undurvænt um
systkini sín og sonurinn sem elskaði
mömmu sína meira en allt annað og
vissi fátt skemmtilegra en að fá að
sitja frammí með pabba á rúntinum.
Magnús Óli var hetja, gullfalleg
hetja með blá augu, heillandi bros og
fallegustu hendur í heimi. Óbilandi
kjarkur og æðruleysi var það sem
einkenndi Magnús og gerði hann að
þeim gullmola sem hann var. Hann
kenndi okkur að lífið er það sem
maður gerir, úr því sem maður fær.
Með allri sinni tilveru sýndi hann
okkur á svo margvíslegan hátt
hversu þakklátur hann var fyrir alla
þá umönnun, ást og vináttu sem
hann naut allt til hinsta dags. Fjöl-
skyldu valdi Magnús Óli vel,
mömmu sem sá ekki sólina fyrir
prinsinum sínum, pabba sem Magn-
úsi þótti mest kúl í heimi og frábær
systkini sem léðu lífi hans lit og
gleði. Magnús Óli hefur skilið eftir
sig fótspor á hjörtum okkar sem
seint verða afmáð. Síðustu daga hef-
ur gleðin verið fallvölt og við sökn-
um Molans okkar sárt, stórt skarð
hefur myndast í litla vinahópnum á
B-stofu.Við þökkum allar þær
stundir sem við áttum með Magnúsi
Óla í gegnum árin. Erum við sér-
staklega þakklát fyrir að hafa fengið
að kveðja hann í hinsta sinn með
knúsi og kossum áður en hann hélt í
draumaferðina til Flórída með fjöl-
skyldunni. Magnús Óli kvaddi þenn-
an heim á sama hátt og hann lifði, á
sinn einstaka hátt valdi hann stund-
ina í faðmi fjölskyldunnar sem var
honum svo kær. Magnús hefði viljað
að við kveddum hann með brosi og
fallegum minningum því þær eru
langtum fegurri en tár. Við erum
þess fullviss að núna hleypur hann
um í landinu handan við stjörnurnar.
Þó vindar blási á litla logann þinn
og líka streymi regn – hann blikar þarna!
Því flýgurðu ekki hátt í himininn?
þar hlýtur þú að vera fögur stjarna.
(Þýð. Helgi Hálfdánarson)
Elsku Guðbjörg, Kristján, Hauk-
ur Jarl, Birta Rós og Sigrún Lilja,
við biðjum Guð að styrkja ykkur á
erfiðum tímum sorgar og saknaðar
og gefa fullvissu um eilíft líf. Minn-
ingin um yndislegan dreng lifir.
Vinir á Lyngási.
Besti vinur minn, Magnús Óli, er
farinn. Við áttum svo margar góðar
stundir saman. Það var oftast nóg að
þú létir aðeins í þér heyra til þess að
ég kæmist í gott skap. Ég mun svo
sannarlega sakna þín. Við kynnt-
umst fyrst á Lyngási fyrir rúmum 7
árum, þá varst þú fjögurra ára en ég
eins og hálfs árs. Við urðum strax
góðir vinir og þegar við fluttum síð-
an á Heimili fyrir börn, á Holtaveg-
inn, árið 2003 varð vinskapur okkar
að einhverju óútskýranlegu, sam-
bandi sem við ein skildum. Ég veit
ekki hvernig líf mitt verður án þín,
núna þegar stóru augu þín og fallega
brosið lífga ekki lengur upp á tilveru
mína. Minninguna um þig mun ég
geyma í hjarta mér.
Ég kveð þig núna kæri vinur.
Þín vinkona,
Sara Lind.
Magnús Óli var einstakur dreng-
ur sem snerti alla sem voru svo
heppnir að kynnast honum. Hann
bjó yfir sérstakri útgeislun og gleði
þrátt fyrir allt mótlætið. Alltaf kom
hann á óvart og sigraðist á öllum erf-
iðleikum sem á hann voru lagðir.
Hann var lítið Ljónshjarta sem lét
ekkert stoppa sig. Hann var svo
heppinn að eiga mömmu sem barðist
svo hetjulega með honum í gegnum
öll veikindin. En líf Mola voru ekki
bara veikindi og fjötrar, hann gaf
ómælda gleði af sér til allra í kring-
um sig og fyllti umhverfi sitt af ein-
hverri óútskýranlegri von og þakk-
læti. Hann var stoltur stóri bróðir og
augasteinn foreldra sinna. Það er
mér gersamlega óskiljanlegt af
hverju Magnús Óli þurfti að yfirgefa
þessa jörðu en ég hugga mig við að
hann sé nú hlaupandi um í Kirsu-
berjadal í Nangijala, laus við alla
fjötra, hann er nú einu sinni Ljóns-
hjarta!
Elsku Guðbjörg, Kristján og fjöl-
skylda. Guð gefi ykkur styrk á þess-
um erfiða tíma og þið megið vita að
þið eruð hetjurnar mínar.
Brynhildur.
Börnin fæðast litlum systkinum sínum
eins og ljós sé kveikt,
eins og fyrstu blóm vorsins
vakni einn morgun.
Magnús Óli
Guðbjargarson