Andvari - 01.01.1982, Qupperneq 39
ANDVARI
CODEX ARGENTEUS
37
í heimshluta okkar. Westfalir tóku kristni, og hin nýja trú ruddi sér skref fyrir
skref til rúms í heimi Germana. í hinum nýju héruðum kaþólsku kirkjunnar,
eins og hinum eldri, var latínan biblíumálið. Codex Argenteus hafði runnið
sitt skeið sem virkur boðberi kristindómsins.
Ovíst er, hvernig Silfurbiblían var á sig komin, þegar Ljúðgeir flutti hana
til Werden (ef það var þá hann). Hér rennum við blint í sjóinn. Ætla má
þó með nokkrum sanni, að hún hafi þá ekki lengur verið heil. Talið er, að
hún hafi í upphafi verið alls 336 blöð. Af þeim eru í Uppsölum 187 blöð.
Við bætist svo eitt blað, er dr. Franz Haffner fann í október 1970. Var það
í aflagðri geymslu helgra dóma dómkirkjunnar í Speyer, og vakti fundur þess
mikla athygli. Blaðið er hið síðasta í Markúsarguðspjalli og þar með hand-
ritinu öllu. Þetta blað, sem varðar svo mjög sögu handritsins, hefur
sennilega orðið snemma viðskila við aðalhluta bókarinnar.1 Vera má, að
texti þeirra 148 blaða, sem vantar í bókina (eins og margra annarra gotneskra
handrita, sbr. hér að framan), hafi verið skafinn brott og þau verið notuð
til annars. Þá kann og nokkuð að hafa eyðilagzt í Werden. Eldsvoðar urðu
tvisvar í klaustrinu á 12. og 13. öld.
Sennilega hefur hinn varðveitti aðalhluti handritsins sofið Þyrnirósarsvefni
öldum saman í Werden-klaustrinu. Ekkert verður sagt með vissu um það skeið
tilvistar þess. Það virðist a. m. k. hafa verið alls óþekkt, unz það allt í einu
stígur fram í dagsljósið um miðja 16. öld, en um þær mundir verður fyrst vart
vaknandi áhuga á forngermönskum málum.
Tveir fræðimenn, fæddir í Flandern, fengu vitneskju um handritið í
Werden. Þeir voru Georg Cassander, kunnur að því að láta að sér kveða í
sínum fræðum, og Cornelius Wouters kanoki. Athygli lærðra manna beindist
nú að handritinu, er varð kunnugt í uppskriftum og af því, sem um það var
ritað.
Upplýsingar af því tagi komu fyrst fram á prenti 1569. í verki um
gotneskt letur og gotneskt mál, sem Hollendingurinn Bonaventura Vulcanius
gaf út 1597, sjáurn við í fyrsta sinni á prenti nafnið „Codex Argenteus“. Því
fvlgja allmörg sýnishorn (gotneskra stafa eftir tréskorinni mynd, umritaðir
stafir og í latneskri þýðingu).
Landi Vulcaniusar, Janus Gruter, birtir í hinu volduga safnverki sínu
Inscriptiones antiquae (Fornir textar) tvo langa samfellda kafla úr handritinu.
Gruter hafði fengið textana úr uppskrift kortagerðarmannsins Arnolds Merca-
tors. Hann segir (að sögn Gruters), að í Werden sé „afar gamalt handrit,
skrifað fyrir um 1000 árum á pergament gull- og silfurstöfum, innihaldandi
3) Erfitt er að gera sér fulla grein fyrir sögu þessa blaðs. Jan-Olof Tjader prófessor mun
fara nærri um það, að blaðið hafi þegar á 7. eða 8. öld orðið viðskila við aðalhluta bókar-
innar, samtímis því að hún var tekin úr upj>liaflegu bandi. Það hafi verið skrautband, skreytt
eðalmálmi og dýrgripum.