Andvari - 01.01.1982, Blaðsíða 106
GÍSLI BRYNJÓLFSSON:
Afaminning
Fæðing og frumbernska.
Á Garði (Regensen) í Kaupmannahöfn gilti sú regla um ráðningu starfs-
fólks, að konurnar væru þannig að aldri og útliti, að þær gengju ekki í augu
stúdentanna eða freistuðu þeirra á nokkurn hátt. Sama regla sýndist þeim, sem
þetta ritar, mundi hafa gilt á stúdentagörðum í Cambridge, er hann dvaldist þar
vetrartíma í Ridley Hall fyrir margt löngu. Hinsvegar virðist þessarar mann-
legu varúðar ekki hafa gætt við ráðningu skólaþjónustanna á Bessastöðum.
Þær voru yfirleitt á góðum aldri - giftingaraldri - ef svo mætti að orði komast.
Árið 1826 voru í þjónustu Þorgríms skólaráðsmanns a. m. k. 6 stúlkur á aldr-
inum 24-32 ára. Á meðal þeirra var Guðný Magnúsdóttir, tómthúsmanns,
Ófeigssonar, sem var ættaður austan úr Flóa. Hún var fædd árið 1792 og er
því sögð tveimur árum of ung í manntalinu 1826. Það ár, þann 3. október,
fæddi hún son. Föður að honum lýsti hún Þórð studiosus Árnason í Odda
á Rangárvöllum. Hafði hann veturinn áður verið í Bessastaðaskóla, en hlaut nú
að hverfa þaðan vegna þessarar barneignar, enda gekkst hann greiðlega við
faðerninu. Á fæðingardegi sínum, 3. október, var sveinninn vatni ausinn og
nefndur Jón af stiftprófastinum í Görðum að viðstöddum þessum guðfeðg-
inum: gullsmið Thomsen á Bessastöðum, cand. theol. Keyser ibid. [s.st.] og
ljósmóður Guðrúnu á Seli. Það voru því góðir menn og gegnir, sem stóðu við
skírnarlaug Jóns litla Þórðarsonar, þótt faðirinn væri víðs fjarri. Og svo er
víst, að ekki var hann feigur, enda þótt þung hóstaveiki ,,burt rykktu öllum
börnum, sem fæðzt hafa í Bessastaðasókn síðan ég kom, 19 að tölu, nema
Egilsens Gröndal og einu til, sem skólapiltur eignaðist,“ eins og sr. Árni
Helgason kemst að orði í bréfi 15. nóvember 1826.
Fyrstu fjögur æviárin mun Jón hafa verið á vegum móður sinnar, en árið
1830 tók faðir hans hann til sín að Skarði á Landi, þar sem hann hafði tekið
við búi með fyrri konu sinni, Vilborgu Ingvarsdóttur. Vel mun þessi merka
kona hafa reynzt stjúpsyni sínum. Það má marka á því, að tvær dætur sínar
lét hann heita nafni hennar, þótt ekki kæmist nema önnur þeirra til fullorðins-
ára.
Með föður sínum og stjúpu fluttist Jón litli út að Klausturhólum í Gríms-