Andvari - 01.01.1982, Blaðsíða 59
FINNBOGI GUÐMUNDSSON:
,?Fel ei lýsigullið góða”
Samantekt úr ljóðum og bréfum Stephans G. Stephanssonar
Naumast mun nokkurt íslenzkt skáld hafa verið jafn opinspjallt um sjálft
sig, hlutverk sitt og viðhorf til skáldskaparins sem Stephan G. Stephansson.
Hann reifar þetta allt í kvæðum sínum og bréfum og leggur þeim til, sem
vinna vilja úr þessum þætti, mikinn efnivið. Þegar um það var rætt að láta
ævisögu fylgja Andvökum, fyrstu þremur bindunum, færðist Stephan undan
því, eða eins og hann segir í bréfi til Eggerts Jóhannssonar 28. nóvember 1909:
,,Já, ævisögu-sóttin er býsna almenn, en mína ævisögu, allt sem fólk varðar
um, sé það nolckuð, má lesa í kvæðunum sjálfum."
Þess var elcki að vænta, að Stephan vísaði mönnum þá jafnframt á bréfin,
en hann hefur þó eflaust gert sér grein fyrir því snemma, að þau yrðu engu
síður en kvæðin heimildir um ævi hans. I bréfi til Baldurs Sveinssonar 8.
nóvember 1925 fer hann svofelldum almennum orðum um heimildargildi bréfa
og er þá að ræða bréf þau, er hann hafði fengið frá vinum sínum um dagana:
í bréfum er oft eina ,,ævisagan“ að gagni - ég á við þá, sem æðst er og
innanbrjósts. Þau eru eins og skjáir á þekju úti þeim sem inni er, sýna með
því, hvernig stráin beygjast, hvaðan vindur stendur, það er að segja, þau sem
eru um annað en veðurfar og búrdalla. Slík bréf merkra manna ættu að geymast
til upprisudags.“
í því, sem hér fer á eftir, verður gripið niður í kvæðum Stephans og bréfum
allt frá því um 1890 og nokkuð framyfir Islandsferð hans 1917.
Þótt Stephan G. Stephansson byrji ungur að yrkja og sum kvæði frá elzta
skeiði skáldskaparferils hans sýni glöggt, hvers hann var þá megnugur, lcveður
hann sér ekki verulega hljóðs fyrr en um eða upp úr 1890, þegar hann tekur
að birta kvæði sín unnvörpum í blöðum og tímaritum. Segja má, að árið 1891
marki tímamót á ferli Stephans, og frá því ári er kvæði það, Bragamál, er
hann gerði að einkunnarorðum sínum í 1. bindi Andvakna 1909. Kvæðið
birtist upphaflega í Heimskringlu 29. júlí 1891 og var þá fjögur erindi í stað
þriggja í Andvöku.