Andvari - 01.01.1990, Page 83
ANDVARI
GLÍMT VIÐ SHAKESPEARE
81
Þýðing Sverris er hins vegar svohljóðandi:
Á morgun og á morgun og á morgun
skríða fram löturhægt frá degi til dags,
þangað til tíminn skráir sitt síðasta orð
og allir gærdagar okkar lýsa fíflum
leið að döprum dauða. Slokknaðu kertisstubbur!
Lífið er skuggi á rölti, leikaragrey
sem rigsar gramur stund sína uppi á sviði
og sést svo ekki framar. Það er saga
sögð af flóni, full af orgi og æði,
sem ekkert merkir.
Það leynir sér auðvitað ekki að Sverrir stendur nær venjulegu máli, þar
sem Matthías á það til að bregða fyrir sig svolítið annarlegra (framreikandi,
eitt leikaragrey, einu fífli, fimbulglamri) tungutaki, en það er í rauninni eng-
inn kominn til að segja að náungi eins og Macbeth þurfi endilega að vera
mjög hversdagslegur í tali. Það sem hins vegar vantar í þýðingu Sverris er
sterk hrynjandi, sem gengur eins og rafstraumur gegnum texta Shakespeares
og Matthíasar, þannig að hvert orð nær að lifna og hlýtur aukið vægi. Og þótt
Sverrir, með því að taka hrynjandina „úr sambandi“, eigi hægara um vik
með að þýða frá orði til orðs, þá fer Matthías þó sums staðar nær raunveru-
legri merkingu frumtextans, svo sem í orðunum „tímans bók er stöfuð út til
enda“, „slokkna lífsskar“ og „að dauðans dufti“. Og þótt orðið „fimb-
ulglamri“ sé auðvitað ekki orðrétt þýðing á „sound and fury“, þá hefur það
sjálft einmitt þann hljóm sem verið er að lýsa með því en orðið „org“ nær
síður. Það er því margt sem gæti mælt með þýðingu Matthíasar til flutnings
sem stefndi fremur að því að færa áhorfandann nær Shakespeare en
Shakespeare niður til áhorfandans.
Sú spurning kynni raunar að vakna í huga þess sem les Macbeth hvers
konar maður það sé sem svo vel kann að skyggnast inn í hugskot hinna verstu
illvirkja. Sé það haft fyrir satt að persónur skáldverka séu einatt brot af höf-
undunum sjálfum, þá hlýtur sál Shakespeares að hafa verið æði fjölskrúðug
og raunar ekki augljóst í hverja hann hefur lagt mest af sjálfum sér. Er það
kannski Hamlet, hinn kvalráði áhorfandi spilltrar veraldar, eða þá öllu held-
ur Prosperó sem með töframætti sínum tekst að kippa hlutunum í lag og
brýtur galdrastaf sinn að því loknu, nema að það sé þá fremur þjónn hans,
loftandinn og sjónhverfingameistarinn Aríel sem sjálfur getur horfið sjónum
hvenær sem er? Hér er úr vöndu að ráða, en hins vegar kynni það að auð-
velda mönnum leitina að svari við ofangreindri spurningu að Shakespeare