Andvari - 01.01.2000, Side 10
8
GUNNAR STEFÁNSSON
ANDVARI
in beindist einkum að henni. Gagnrýnin var af ýmsu tagi og auðvitað ekki
öll frá andstæðingum kirkju og kristindóms. En ljóst er að þeir hafa gripið
þetta tækifæri, er þeir töldu að opinberast hefði veik staða kirkjunnar
gagnvart þjóðinni, til að hefja sókn. Hafa birst í blöðum á liðnu sumri
margar greinar þar sem vegið er hart að kirkjunni og jafnframt lýst harla
neikvæðri afstöðu til kristninnar og áhrifa hennar í þjóðlífinu. Kirkjunnar
menn voru furðu daufir til varna og andsvara, nema hinn aldni leiðtogi
Sigurbjörn Einarsson biskup, og snerist umræðan svo upp í það hvort hann
mætti vítalaust taka svo til orða á opinberum vettvangi sem hann gerði.
Þetta varð sem sé dæmigerð íslensk umræða, karp um aukaatriði og um-
búðir fremur en innihald. í heild sinni var hún fremur dapurlegur vitnis-
burður um samtíðina.
Kristnihátíðin árið 2000 var tvíþætt. Annars vegar var minnst eins
stærsta og afdrifaríkasta atburðar Islandssögunnar. Skiptir þá engu máli
þótt kristnitakan væri fyrst og fremst pólitísk ákvörðun sem var óhjá-
kvæmilegt að taka eins og á stóð, hún er jafnörlagarík fyrir því. Þessarar
miklu sögu ættu allir íslendingar að geta minnst, hversu mikla eða litla
trúmenn sem þeir telja sig, og verður þá um leið að nefna að meir en níu
tíundu hlutar landsmanna játa kristni í orði kveðnu. Hins vegar var svo
kristnihátíðin vitanlega hugsuð sem trúarhátíð, heitstrenging að efla kristin-
dóminn í landinu í orði og verki. Eg veit ekki hvort hin litla þátttaka á há-
tíðinni og sá neikvæði andi gagnvart henni, sem fram kom, stafar af því að
þjóðin hafi ekki lengur hug á að koma saman á Þingvelli til að minnast
sögu sinnar, eða af hinu að hún hirði lítt um kristna trú sína. Varla er hægt
að taka mark á því að fólk hafi setið heima af því of miklu þætti kostað til
hátíðahaldanna, þegar hvarvetna í samfélaginu má sjá fyrirhyggjulausan
fjáraustur í hvað sem er, þarft og óþarft. Enn hefur þetta verið lagt þannig
út að þjóðin vilji aðskilnað ríkis og kirkju, sem ýmsum er áhugamál og lýst
miklu fylgi við í könnunum.
Þegar að því máli er vikið er þess að gæta að fæstir virðast hafa gert sér
grein fyrir hvað slíkur aðskilnaður þýðir í raun. Hér er ekki ríkiskirkja eins
og stundum er sagt af andstæðingum kirkjunnar. Á íslandi er þjóðkirkja
sem gegnir víðtækum skyldum við alla landsmenn og til þess mun vonandi
ekki koma að þau margvíslegu bönd sem tengja kirkju og þjóð verði rofin,
enda engar horfur á því. Annað mál er hvernig sambandi kirkju og ríkis-
valds er hagað. Sú stefna, sem nýlega hefur verið mörkuð í löggjöf og mið-
ar að því að færa kirkjunni sjálfstæði í sínum innri málum, er áreiðanlega
rétt og hlýtur að styrkja kirkjuna þegar til lengri tíma er litið. Þess vegna
var það vafasamt og gaf villandi mynd af þjóðkirkjunni að hún kæmi fram
á Þingvallahátíðinni í jafnnáinni samfylgd með oddvitum ríkisvaldsins og
raun varð á.