Andvari - 01.01.2000, Síða 146
ÞÓRIR ÓSKARSSON
Skáldskapur og saga
Nítjánda öldin sem texti nýrra íslenskra frœðirita
Umbi: Ég bóka þá að öll saga, þarámeðal veraldarsagan, sé fabúla.
Séra Jón: Alt sem lýtur lögmálum fabúlunnar er fabúla.1
Síðustu áratugi hefur nítjánda öldin verið áleitið viðfangsefni bókmennta-
og sagnfræðinga víðs vegar um heim. Ein af ástæðum þess er ugglaust sú
sögulega fjarlægð sem smám saman hefur myndast við þetta mikilvæga
tímaskeið vestrænnar menningar og sögu, - fjarlægð sem hvetur menn til
þess að endurskoða það og endurmeta. Meðal annars hafa fræðimenn leit-
að svara við því hversu trúverðug hefðbundin mynd okkar af 19. öldinni sé
og að hve miklu leyti hún mótist af stjórnmála- og menningarviðhorfum
síðari tíma manna sem hafa notað þessa liðnu öld sem tæki til að hafa áhrif
á eigin samtíð, ekki síst við að byggja upp og styrkja í sessi ný þjóðríki eins
og hið íslenska. Talsmenn nýrrar og gagnrýninnar efahyggju í hugvísindum
hafa gefið þessari endurskoðun aukinn slagkraft, bæði almennt með því að
vefengja möguleika sagnfræðinga til að draga upp sanna mynd af fortíðinni
og með því að benda á hvernig þeir hafi oft gert vissa einstaklinga, sam-
félagshópa og atburði að fulltrúum og táknmyndum «Sögunnar» en snið-
gengið aðra sem þó virðast ekki síður áhugaverðir þegar á heildina er litið.
Sagnfræðingar séu því ævinlega að skrifa einhvers konar «fabúlu», ýmist
viljandi eða óviljandi.
Að hluta til stafar áhugi fræðimanna á 19. öldinni einnig af löngun þeirra
til þess að útskýra líðandi stund sem óneitanlega ber fjölmörg ummerki
þeirra hugmynda sem þessi gengni tími ól af sér: um lýðræðislega stjórnar-
hætti, frelsi í verslun og viðskiptum, sjálfstæði einstaklinga og þjóða, mikil-
vægi sérstaks tungumáls fyrir þjóðarvitundina eða dýrkun frumleikans í
skáldskap og öðrum listum. Af þessum sökum ber 19. öldina iðulega á
góma í dægurmálaumræðunni, hvort heldur talið berst að Evrópubanda-
laginu, blóðugum hernaðarátökum á Balkanskaga, hlutverki og gildi ný-
norsku í norsku málsamfélagi eða þeim fjölmörgu ævisögum sem setja svip
sinn á evrópskan bókamarkað. Guðmundur Hálfdanarson sagnfræðingur
lýkur t. d. nýlegri tímaritsgrein um stöðu náttúrunnar í íslenskri þjóðernis-
\