Andvari - 01.01.2000, Síða 157
ANDVARI
SKÁLDSKAPUR OG SAGA
155
skandinavismans hafði tekið gagngerðum breytingum frá 5. áratugnum til
þess tíma þegar Ibsen skrifaði Pétur Gaut og Grímur Búarímurl
Eins og rit Svövu er bók Sveins Yngva í raun og veru safn allmargra
sjálfstæðra ritgerða sem þó hafa sameiginlegan þráð, beinast «annars vegar
að viðtökum fornbókmennta og hins vegar að þætti sögunnar í íslenskri
rómantík» (13). Sveinn Yngvi segist skoða íslenska rómantík «í víðu sam-
hengi», enda spannar hugtakið rómantík í meðförum hans bæði fjölbreyti-
lega texta og alllangt tímaskeið íslenskrar bókmenntasögu, a. m. k. árin frá
1830 til 1880. Hugmyndir sínar um rómantík byggir hann aðallega á al-
kunnri greiningu René Welleks á evrópskum skáldskap frá fyrstu áratugum
19. aldar, en auðgar hana þó með ýmsum atriðum sem varða íslenskar bók-
menntir sérstaklega. í því samhengi staldrar hann lengst við það sem hann
sér sem einn «meginþátt í rómantíkinni: sambandið við miðaldir» (19).
Þetta atriði má reyndar skoða sem gildan þátt í aðferðafræðilegri uppi-
stöðu flestra sem fjallað hafa um «íslenska rómantík» hin síðari ár, m. a.
Svövu Jakobsdóttur, enda styðst það við upphaflega merkingu hugtaksins
rómantíkur.
ísland og umheimurinn
Öll þau rit sem hér er rætt um hafa að meira eða minna leyti sögulegt
markmið, þ. e. að lýsa, greina og túlka 19. öldina í íslenskri (bókmennta)
sögu. Sem slík eru þau hluti af um það bil eitt hundrað ára gamalli ritunar-
hefð hér á landi, hefð sem áhrifamiklir stjórnmála- og menningarfrömuðir
eins og Jón Jónsson Aðils, Sigurður Nordal, Jónas Jónsson frá Hriflu og
Halldór Laxness áttu drjúgan þátt í að móta, að nokkru leyti sem beinir
þátttakendur í þeirri atburðarás sem þeir greindu frá og oft er kennd við
þjóðernisvakningu, sjálfstæðisbaráttu og endurreisn íslenskrar menningar.
Allir hafa þessir höfundar því átt auðvelt með að samsama sig þeim per-
sónum 19. aldar sem þeir fjölluðu um og gera hugmyndir þeirra og mark-
mið að sínum. Um leið er augljóst að þeir notuðu 19. öldina á meðvitaðan
hátt sem vopn í stjórnmála- og menningarbaráttu eigin samtíma. Þetta
kemur vel í ljós þegar orðfæri þeirra og röksemdafærsla eru skoðuð. Mál-
flutningur þeirra einkennist t.d. af stöðugum samanburði «jákvæðra» og
«neikvæðra» andstæðna: íslenskur - útlendur, þjóðlegur - óþjóðlegur, frelsi
- ófrelsi, menning - menningarskortur. Inn í þessi andstæðupör fléttast enn
fleiri andstæður, m. a. alþýða - yfirvöld, sveit - bær og bændur - embættis-
menn.