Andvari - 01.01.2005, Qupperneq 26
24
TRYGGVI GÍSLASON
ANDVARI
drægur í kröfum fyrir hönd sinnar stofnunar gagnvart ríkisvaldinu.
[...] Hjartagæsku og tilfinningasemi Þórarins er mjög við brugðið,
enda var hún sá þáttur í skaphöfn hans, sem grynnst var á, stóð raunar
ofar mannviti hans ríkulegu, og galt hann þess oft í viðskiptum við
heiminn.“30
Halldór Blöndal, alþingismaður og fyrrum ráðherra, segir: „Nem-
endur hlökkuðu til þess að sitja í tíma hjá Þórami Björnssyni og ósjálf-
rátt mættu þeir ekki í tíma ólesnir. Þeir fundu hversu skólameistara
tók það sárt, að þeir skyldu svíkja sjálfa sig að þessu leyti. Þótt náms-
greinin héti franska og naumur tími væri til stefnu, bar margt á góma.
Þar var fjallað um hið mannlega, um fegurð og sönn verðmæti, en
varað við uppgerð og yfirborðsmennsku.“31
Bjöm Teitsson, fyrrum skólameistari á ísafirði, segir: „Hann var
besti kennari, sem ég hef numið hjá, að öllum öðrum ólöstuðum. Þekk-
ingu hans á franskri tungu og bókmenntum var við brugðið, og á því
sviði fylgdist hann jafnan mætavel með. Kennslan var honum leikur
einn, enginn nemandi komst hjá að fylgjast með í tímum hjá „meist-
ara“. Oft sagði hann frá dvöl sinni í Frakklandi á námsárunum, og
flestir sem hjá honum námu, fylltust ósjálfrátt aðdáun á franskri menn-
ingu, sem honum var svo kær. Einatt var vikið frá námsefninu, ýmist
til að segja skemmtilegar sögur eða til að leggja nemendum holl ráð.
I slíkum efnum geta margir skotið yfir markið, en hjá Þórami átti það
sér naumast stað. Andi hans var svo fjörmikill, oft nánast gáskafullur,
og svo sífræðandi, að seint gleymist.“32
Engum vafa er því undirorpið að Þórarinn Björnsson var einstökum
hæfileikum búinn sem kennari og í kennslu sinni sameinaði hann
fræðslu, upplýsingu og umvöndun eins og er í allri kennslu sem ein-
hvers virði er.
Maðurinn - sjálfslýsing
Til er sjálfslýsing sem Þórarinn Bjömsson skrifar í skólastíl á náms-
árum sínum í Gagnfræðaskólanum á Akureyri, væntanlega veturinn
1923-1924, þegar hann er 18 ára að aldri. Lýsingin er með gaman-
sömum blæ en Þórarinn er mjög hreinskilinn og opinskár í orðum,
enda hefur hann naumast búist við því að sjálfslýsingin birtist
alþjóð.