Andvari - 01.01.2005, Page 127
ANDVARI
UPPSPRETTUR TÍMANS OG VATNSINS
125
Orðalag
Hér verður borið saman ýmisskonar sérkennilegt orðalag þessara verka, litir,
líkingar, samlíkingar, persónugervingar og fleira þess háttar. Leitast er við
að taka aðeins ótvíræð dæmi þessa, og ekki tæmandi, til að forðast málaleng-
ingar. Af sömu ástæðu þýði ég sænsku dæmin og læt nægja að vísa til þess
hvar þau standi, en birti þau ekki á frummálinu nema þýðingin geti orkað tví-
mælis. Auk ljóðabálka Lindegrens og Steins leitaði ég slíks orðalags í ljóðum
Halldórs Laxness (þ. e. í frumprentunum og í fyrri gerð Kvœðak\>ers, 1930).
Eins og ég hefi rakið í Kóralforspili hafsins, ber mest á expressjónisma í
ljóðum Halldórs, þ.e. á andstæðum milli sjálfstæðra setninga og textabúta.
En á árunum 1926-7 koma stundum fyrir andstæður innan orðasambands,
líkt og í Tímanum og vatninu. Það er hálfur annar tugur dæma, sem hér
verður að hugað.
Litir
í (enn óbirtri) könnun sem ég gerði á Ijóðum blæleitinna skálda (oftast eru
þau kölluð nýrómantísk eða sýmbólistar12) og skálda frá 19. öld, sýndi sig
að allmikill munur er á því hve mikið ber á litaheitum í ljóðasöfnunum.
Tíðnin nær frá hálfum af hundraði orðafjöldans í safnriti ljóða frá 19. öld
(Pjóðskáldin), en hálfu meira hjá höfuðskáldum aldarinnar, Jónasi Hall-
grímssyni og Steingrími Thorsteinssyni, rúmlega einn af hundraði, eins og
hjá flestum blæleitnum skáldum. Ennfremur varð ein niðurstaðan sú, að
hefðir ríki í litanotkun, allt frá 19. öld og lengstum hjá blæleitnum skáldum,
það eru fáir, hreinir litir, sem mestmegnis eru sóttir í íslenska náttúru, eins
og Jakob Benediktsson sagði (bls. 119) um Jónas Hallgrímsson. Nokkur
einstaklingsmunur er auðvitað á tíðni einstakra lita og tíðni litarorða í heild.
En mest ber á sjö litarheitum í þessari röð: blár, hvítur, grænn, svartur, grár,
rauður, bleikur. Mörg skáld nota ekki aðra liti. Hér reyndist Jakob Smári
hafa algera sérstöðu, hann hefur svo mikið af samsettum litarheitum, að
litarorð hans verða alls 30, enda er tíðni litorða mest hjá honum, meira en
tvöföld fyrmefndra, rúmlega tveir af hundraði orðaforðans. Hún er þó aftur
tvöfalt meiri hjá Steini, um 5%, þetta er eitt sérkenna hans miðað við fyrri
ljóðahefð.
Um litanotkun í kvæðum Steins hefur Svavar Sigmundsson fjallað í grein
1965 (og byggir þar á útgáfunni frá 1964, þar sem fátt er ljóða úr Lokaljóðum
Steins). Margt athyglisvert kemur fram í rannsókn Svavars, m.a. að um samsett
litarorð voru alls 80 dæmi á móti 95 ósamsettum. í fyrstu bók Steins, Rauður
loginn brann, eru ósamsettir litir þó meira en 4/5, en við breytinguna frá 1.
gerð Tímans og vatnsins til 2. gerðar bætast aðallega við ósamsett litarorð, svo