Iðunn : nýr flokkur - 01.01.1937, Blaðsíða 273
IÐUNN
Bækur.
267
RauSir pennar. Safn af SÖgum, ljóðum Og
ritgerðum eftir nýjustu innlenda og erlenda höf-
unda. Bókaútgáfan Heimskringla. Reykjavík,
1936. 240 bls.
í fyrra, þegar eg sá fyrsta bindi Rauðra pcnna, datt mér
ekki í hug, að þeir ættu að verða ársrit. Þess var ekki getið
í bókinni. En nú ber raun vitni um það; hér er komið annað
bindi, sem í engu stendur hinu fyrra að baki, enda ritað að
miklu leyti af sömu höfundum. H. K. Laxness, Halldór Stef-
ánsson, Gunnar Benediktsson, Jóhannes úr Kötlum og Krist-
inn E. Andrésson, ritstjórinn, þurfa engrar kynningar við.
Af nýjum mönnum skal fyrst telja Guðmund Daníelsson,
sem raunar er mönnum kunnur af tveim prýðilega myndar-
legum byrjandaverkum, skáldsögum af Suðurlandsundirlend-
inu, allmjög mótuðum af stíl Laxness. Hann á hér sniðuga
sögu. Þá er hér Guðmundur Böðvarsson, hið borgfirzka skáld,
með kvæði. Enn má hér nefna Kristínu Geirsdóttur, unga
stúlku norðan af Tjörnesi, sem, að vonum, á langt ófarið til
að komast þar með tærnar, sem hinir gömlu Þingeyingar
höfðu hælana. Hér skrifar og hinn ódrepandi sægarpur Theo-
dór Friðriksson einkennilegt brot úr æfisögu sinni. Af út-
lendingum má nefna þann fræga mann Martin Andersen-Nexö
og Norðmanninn Nordahl Grieg, sem líka er mjög vel kyntur
höfundur.
Af greinum þótti mér vænst um að lesa hina stuttu en
sannorðu grein, sem Kristinn Andrésson skrifar í tilefni af
fimtugsafmæli Nordals. Það er mikil furða, að ekkert ís-
lenzkra tímarita annað (svo eg viti) skyldi minnast heiðurs-
dags þessa ágætismanns, jafn-nýtur maður og hann hefir
reynst í stöðu sinni, og það bæði inn á við og út á við.
Að sjálfsögðu gæti ýmislegt verið að athuga við efni rits-
ins og stefnuskrá, en þarflaust er að rekja það hér, og það
af tveim ástæðum: missmíðin eru augljós öllum, sem ekki
eru flokksmenn, en hins vegar munu flokksmenn ekki láta
sér segjast fyrir fortölur hlutlauss mentamanns. Að öllu
samanlögðu er ritið höfundum og aðstandendum þess til
sóma. Stefán Einarsson.