Eimreiðin - 01.10.1940, Side 89
eimreiðin
RADDIR
385
Norðurljós.
Veit duftsins son nokkra dýrðlegri sýn
en drotnanna hásal í rafurloga?
Sjá grundu og vog undir gullhvelfdum boga! —
Hver getur nú unað við spil og vín?
Sjálf moldin er hrein eins og mær við lín;
mókar í haustsins visnu rósum.
Hvert sandkorn í loftsins litum skín,
og lækirnir kyssast í silfurósum.
Við útheimsins skaut er alt eldur og skraut
af iðandi norðurljósum.
Frá sjöunda himni að ránar rönd
stíga röðlarnir dans fyrir opnum tjöldum,
en ljóshafsins öldur, með fjúkandi földum,
falla og ólga við skuggaströnd.
Það er eins og leikið sé huldri hönd
hringspil, með glitrandi sprotum og baugum. —
Nú mænir alt dauðlegt á lífsins lönd
frá lokuðum brautum, frá myrkum haugum,
og hrímklettar stara við hljóðan mar
til himins, með krystals-augum.
Nú finst mér það alt svo lítið og lágt,
sem lifað er fyrir og barist er móti.
Þó kasti þeir grjóti og hati og hóti,
við hverja smásál ég er í sátt.
Því bláloftið hvelfist svo bjart og hátt.
Nú brosir hver stjarna, þótt vonirnar svíki,
og hugurinn lyftist í æðri átt;
nú andar guðs kraftur í duftsins líki.
Yér skynjum vorn þrótt, vér þekkjum í nótt
vorn þegnrétt í Ijóssins ríki. —
Hve voldugt og djúpt er ei himinsins haf,
og hásigldar snekkjur, sem leiðina þreyta.
Að höfninni leita þær, hvort sem þær beita
í horfið — eða þær beygja af.
En aldrei sá neinn þann, sem augað gaf,
— og uppsprettur ljóssins ei fundnar né skýrðar.
Með beygðum knjám og með bænastaf
menn bíða við musteri allrar dýrðar.
En autt er alt sviðið og harðlæst hvert hlið
og hljóður sá andi, sem býr þar.
25