Uppeldi og menntun - 01.01.2002, Síða 21
ELSA SIGRÍÐUR JÓNSDÓTTIR
Starfsfólkið sá um að börnin færu ekki út nema vel klædd og ég tel að vel hafi verið
hugsað um allar líkamlegar þarfir þeirra.
Oftast talaði starfsfólkið við börnin af virðingu. Börnunum var til dæmis boðið að
fara á valstaðina en ekki sagt að gera það. Samverustundunum í Leikborg er slitið
formlega þegar allir eru búnir að ljúka verkefnum sínum. Steinunn litla hafði fengið
það verk að sópa gólfið en hin börnin voru farin að bíða. Leikskólakennarinn spurði
þá Steinunni hvort hún mætti slíta samverustundinni, þó að hún væri ekki búin að
sópa. Dæmi um viðurkenningu fann ég einnig í fataklefanum þegar Sólrún leikskóla-
kennari sagði mér að krakkarnir væru öll með sína sérvisku um það hvernig hlutirn-
ir ættu að vera, vettlingar og skálmar utan yfir eða innan undir, hátt upp eða lágt
o.s.frv. „Og það er eins gott að vita það", sagði Sólrún og hló. Það var líka eftirtektar-
vert að þegar starfsfólkið talaði um börnin með sérþarfirnar lagði það áherslu á eig-
inleika barnanna sem ekki tengdust fötluninni „Ragnar er svo geðgóður og ljúfur"
eða „Perla er svo félagslynd og ákveðin". Það sýnir okkur að þessi börn voru metin
og viðurkennd eins og hver önnur.
í orðum Bjargar þroskaþjálfa um börn með fötlun felst líka viðurkenning. Hún
segir að um leið og börnin séu komin í leikskólann, hvort sem þau eru fötluð eða
ekki, séu þau orðin partur af leikskólanum og þar með fullgild. Það er tekið tillit til
þess að börnin eru ólík. Björg segir: „Sumir eru einhvern veginn þiggjendur alltaf, til
baka svona og maður þarf alltaf að vera veiða upp úr þeim og gefa þeim auka tæki-
færi... aðra þarf alltaf að vera að bremsa af, heyrðu bíddu nú aðeins, við skulum leyfa
öðrum að komast að." Gulla litla tjáir sig lítið en ánægjusvipbrigðin sem hún sýnir
þegar haldið er í hendur hennar og sungið við hana eru vel metin og þau eru umbun
sem hún gefur starfsfólkinu.
Þegar viðhorf starfsfólks eru skoðuð í heild, má sjá að þau eru í mörgu hliðholl
börnum með fötlun og margt af starfsfólkinu nefndi að samvistir við þessi sérstöku
börn veittu því ánægju og gleði.
Skipulag leikskólastarfsins
Þegar tekið er á móti börnum með sérstakar þarfir í leikskólum skiptir skipulag
starfsins miklu. Hér verður gerð grein fyrir því hvernig leikskólastarf er skipulagt í
Barnaborg og Leikborg, sérstaklega hvað snertir stuðning við börn með sérþarfir.
Einkamál stuðningsaðilanna
í Barnaborg eimdi talsvert eftir af því gamla skipulagi að börn með fötlun séu einka-
mál stuðningsaðilanna. Þar eru tveir starfsmenn sem sinna sérstaklega stuðningi við
börn með sérþarfir, Dröfn þroskaþjálfi og Finna starfsmaður. Dröfn sinnir Perlu,
tveggja ára gamalli hreyfihamlaðri stúlku, þann tíma sem hún er í leikskólanum en
Finna veitir Ragnari, sem er með seinkaðan þroska, stuðning í þær tvær klukku-
stundir sem hann á rétt á.
Dröfn er að semja áætlun um þjálfun Perlu sem hún ætlar að kynna starfsfólkinu
á deildinni „og þá geta allir sameinast um að vinna að þessum þáttum". Deildarstjór-
inn tekur ekki þátt í áætlunargerðinni og Dröfn virtist vera dálítið einmana í starfi.
19